Ríkisútvarpið hefur ákveðið að hætta að útvarpa morgunbæn, morgunandakt og Orði kvöldsins á Rás 1 frá og með 28. ágúst næstkomandi samkvæmt fréttum fjölmiðla í vikunni. Samkvæmt dagskrárstjóra stöðvarinnar miða þessar breytingar að því að rásin sinni menningar og samfélagshlutverki sínu betur en hún hefur verið að gera. Þá eru breytingunum einnig ætlað að fella burt uppbrot í dagskránni til að gera hana þéttari og flæðið betra. Af þessu virðist leiða, skv. orðnum dagskrárstjóra, að þættirnir, morgunbæn og Orð kvöldsins sem eru hvor um sig iðulega styttri en þrjár mínútur kvölds og morgna, skuli ekki lengur heyrast í útvarpinu.
Þessi nýjasta ákvörðun er eftirtektarverð fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi hefur verið beðið með eftirvæntingu eftir mörkun dagskrárstefnu nýráðins útvarpsstjóra og stjórnenda útvarpsins og er athyglisvert að sjónum sé strax beint að þessum dagkrárliðum sem sannanlega snúa að kristinni trú. En meðal annarra stuttra (spurning hvað flokkist sem stutt) uppbrota í dagskránni sem hljóma reglulega yfir daginn eða vikuna má nefna, fréttir/fréttayfirlit, veðurfréttir, dánarfregnir, einstaka tónlistarlög og þá er spurning hvort útvarpssagan flokkist sem stutt uppbrot á dagskrám.
Í annan stað var svipuð ákvörðun tekin fyrir fáum árum, eða árið 2007, þegar þáverandi útvarpsstjóri, Páll Magnússon tók af dagskránni Orð kvöldsins. Viðbrögð hlustenda á þeim tíma urðu til þess að innan fárra vikna var Orð kvöldsins komið aftur inn í dagskrá útvarpsins, enda ákall um þennan dagskrárlið hátt.
Í þriðja lagi er athyglisvert að dagskrárstjóri telji nýjan útvarpsþátt, sem er að sögn í pípunum, komi í stað framangreindra dagskrárliða ásamt því sem bænum verði komið fyrir á vefsíðu RÚV. Það sýnir helst til hvað dagskrárstjóri virðist ekki hafa skilning á þýðingu þeirrar þjónustu sem felst í framangreindum dagskrárliðum fyrir helsta hlustendahóp sinn. Margir þeir sem hrópuðu hæst á árinu 2007 voru eldri borgarar og má með nokkurri vissu segja að sá hópur er einn helsti hlustendahópur útvarpsrásarinnar. Þessi hópur á oft vont aðgengi að tölvum og netinu og sumir eiga jafnframt erfitt með lestur sökum versnandi sjónar. Þá er svo notalegt að eiga útvarpið og eiga greiðan aðgang að efni sem menn hafa alist upp með og reiða sig á morgnanna og kvöldin.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, nú þegar hafa fjölmargir tjáð skoðanir sínar í ræðu og riti, á Facebook, í útvarpinu og í prentmiðlum. Eins og oft þegar fjöldinn tjáir skoðanir sínar liggja ýmsar ástæður þar á bakvið. Þó skiptir alltaf miklu að tjá sig málefnalega ef taka á mark á því sem sagt er.
Vissulega vekur þessi ákvörðun upp, sér í lagi í ljósi almennrar umræðu síðastliðinna ára um trú, samfélag og ríkisvaldið, ýmsar spurningar hver sé hvatinn að ákvörðuninni, hvort hann sé faglegur eða byggi á afstöðu til trúarbragða og pólitískum skoðunum um réttmæti bænahalds í ríkisútvarpi. En eins og ákvörðunin hefur verið framsett virðast slíkar hvatir, séu þær til staðar, faldar.
Hvað ákvörðunina sjálfa varðar þá er ljóst að hér er um talsverða þjónustuskerðingu að ræða af hálfu opinbers fyrirtækis. Morgunbænin og Orð kvöldsins hefur fyrir stóran hluta hlustenda Rásar 1 verið mikilvæg og dagleg þjónusta. Með ákvörðun sinni mun nú þessari þjónustu vera hætt, nánast fyrirvaralaust. Það að bænir verði áfram aðgengilegar á vefsvæði Rúv er vísbending um lítinn skilning á eðli þjónustunnar og hlustendahóp rásarinnar. Væri t.a.m. ásættanlegt fyrir núverandi hlustendur ef dánarfregnir yrðu eingöngu aðgengilegar á vefsvæði Rúv? Ég er ekki viss.
Á meðan Íslendingar eru skuldbundnir til að greiða áskriftarskatt til Rúv eru allar ákvarðanir um dagskrá þess til þess fallnara að skapa umræðu í þjóðfélaginu. Sumar þó heitari en aðrar. Það er eðlilegt að einstaklingar sem nýti sér þjónustu stofnunarinnar tjái sig um það þegar sú þjónusta sem í boði hefur verið um áratugaskeið, er skert.
Framhaldið
Hvert framhaldið verður er sem stendur óljóst. Ýmsir munu vafalítið hafa samband við þingmenn sína, ráðherra, útvarpsstjóra og dagskrárstjóra og lýsa skoðunum sínum. Mögulega mun dagskrárstjóri eða yfirmaður hans sjá að sér og innleiða þessa dagskrárliði aftur, sökum ákalls hlustenda stöðvarinnar, það er alls ekki ólíklegt í ljósi fyrri reynslu.
Í öllu falli er þó rétt að benda á að Íslendingar búa, enn sem komið er, við þau forréttindi að eiga aðgengi að kristilegri útvarpsstöð, Lindinni. Þau forréttindi eru þó háð fjárhagslegum stuðningi hlustenda stöðvarinnar og þeirra sjálfboðaliða og annarra sem styðja vel við starf Lindarinnar. Snúi Rúv ekki við blaðinu er líklegt að fjölmargir hlustendur stöðvarinnar snúi sér annað, m.a. til Lindarinnar. Fyrir Lindina væri það um margt jákvætt, en slík áhrif myndu þó auka á tortryggni gagnvart ákvörðun dagskrárstjóra og hvatana þar á bakvið.
Eitt er þó víst að umræðunni er langt frá því að vera lokið og margir sem munu tjá skoðanir sínar með og á móti munu vart geta talist reglulegir hlustendur rásarinnar. Hvatar þar á bakvið eru ýmsir, sumir stjórnmálalegir aðrir trúarlegir og enn aðrir samfélagslegir. Það er þó von þess, sem þetta skrifar, að ákall hlustenda frá 2007 sé ekki gleymt, og heyrist það aftur muni dagskrárstjóri leggja við hlustir.
-DS