Greinasafn fyrir flokkinn: Kynning

Vatnaskógur, Vindáshlíð, Ölver, Kaldársel og Hólavatn

VatnaskogurSkráning hófst í sumarbúðir KFUM og K fyrir rúmri viku og er skráning enn í fullum gangi. Hvetjum við foreldra barna á aldrinum 6-17 ára að skoða þær sumarbúðir og þá flokka sem í boði er fyrir börnin. Fyrir yngri börnin er fjölbreytt starf í Kaldárseli og á hólavatni en frá 9 ára aldri er um að gera að kíkja í Vatnaskóg, Vindáshlíð eða Ölver. Hægt er að skrá sig í gegnum netið á vefsíðu KFUM og K hérna. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofuna á Holtavegi 28 í síma 588 8899.

Við hvetjum áhugasama til að skoða þetta. Þetta er einstök upplifun fyrir börnin sem eignast oft á tíðum vinskap út lífið og yndislegar minningar. Í sumarbúðunum er fyrirmyndar aðstaða til útiveru og leikja, æðislegur matur er borinn á borð og öll kvöld enda á eftirminnilegum kvöldvökum þar sem  burgðið er á leik og sungið. Á kvöldin og morgnanna er svo fræðsla um Guðs orð.

Þetta eru frábærir þroskandi staðir þar sem fjölbreytt dagskrá er í boði við allra hæfi!

Afmælisdagur Lindarinnar

Minnum á að í dag, 16. mars, er opið hús hjá útvarpsstöðinni Lindinni milli kl. 15 og 17. Heimsækið endilega Lindina að Krókhálsi 4 í Reykjavík og fagnið afmælinu og styðjið við þessa útvarpsstöð ef þið getið. Hægt er að sjá hvernig söfnunin gengur á www.lindin.is

Jafnframt verða tónleikar sem ókeypis er að kíkja á, í Fíladelfíu í kvöld klukkan 20:00 en þar verður tekið á móti frjálsum framlögum til styrktar Lindarinnar. Hljómsveitin GIG – mun sjá um tónlistina og leiða lofgjörðina.

gls

Global Leadership Summit 2.-3. nóvember 2012

Okkur finnst mikilvægt að kynna áhugaverða starfsemi, ráðstefnur og fyrirlestra sem eiga sér stað hér á Íslandi og tengjast trúmálum. Það er okkur því mikil ánægja að segja örlítið frá svokallaðri GLS, leiðtogaráðstefnu, sem haldin hefur verið á Íslandi frá 2009 og í hinum stóra heimi frá 1995. GLS stendur fyrir global leadership summit og er alþjóðleg leiðtogaráðstefna. Ráðstefnan er haldin af Willow Creek samtökunum í Bandaríkjunum, sem eru þverkirkjuleg samtök sem um 12.000 söfnuðir úr 90 kirkjudeildum eru meðlimir í. Tæplega helmingur meðlimanna eru söfnuðir utan Bandaríkjanna.

Markhópur ráðstefnunnar eru leiðtogar í kristilegu starfi en hver sem er sem áhuga hefur á leiðtogahlutverkinu er velkominn á ráðstefnuna, hvort sem hann er kristinn eða ekki, og mun ráðstefnan og efni sem þar er kynnt vafalítið gagnast flestum. Í ár eru fyrirlesararnir ekki af verri endanum. Bill Hybels, stofnandi og forstöðumaður Willow Creek, Condoleezza Rice, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Jim Collins sem er afar þekktur á sviði leiðtogafræða svo örfáir séu nefndir.

Í ár hefst ráðstefnan föstudaginn 2. nóvember og lýkur laugardaginn 3. nóvember og verður hún haldin í Neskirkju. Verð er í dag 13.500 krónur fyrir ráðstefnuna, en námsmenn, atvinnulausir, öryrkjar og hópar með 5 eða fleirum þar sem einn raunverulegur greiðandi stendur að baki fá ráðstefnuna á 9.500 krónur.

Hvetjum við alla áhugasama að kynna sér ráðstefnuna betur á vefsíðu GLS á Íslandi.