Greinasafn fyrir flokkinn: Umræðan

Þrjár hártoganir í kjölfar predikunar biskups

Að vanda þykir ákveðnum hópi mikilvægt að gera athugasemdir við orð og verk kirkjunnar sem samrýmast ekki lífsafstöðu þeirra. Í sjálfu sér er þetta ekki slæmt og oft má heyra málefnalega og jafnvel afar mikilvæga gagnrýni á kirkjuna, enda er hún ekki hafin yfir gagnrýni. En stundum koma fram innihaldslitlar athugasemdir sem eru í raun lítið annað en hártoganir og virðast settar fram til þess eitt að gera athugasemdir við eitthvað. Flestir sem fjalla á gagnrýninn hátt um atriði í samfélaginu, sérstaklega á netinu, hafa gerst sekir um að tefla fram slíkum hártogunum og á það jafnt við um trúaða sem trúlausa einstaklinga.

Sigurður Hólm Gunnarsson gerir á vefsíðunni Skoðun þrjár athugasemdir við predikun biskups í grein með sama nafni. Þar setur hann fram athugasemdir við neðangreind ummæli biskups, en athugasemdirnar eru lítið annað en hártoganir þegar greinin er lesin. Afstaða Sigurðar til kirkjunnar hefur vafalaust haft þar áhrif á. Stundum langar greinarhöfundum svo mikið að gagnrýna eitthvað að athugasemdir sem settar eru fram eru lítið annað en leiðinda hártoganir sem afvegaleiða lesendur sem taka skilning greinarhöfundar trúanlega.

Ekki verður hér gerð nokkur tilraun til að verja eða réttlæta ummæli biskups en ég sé ástæðu til að fetta fingur, nú eða hártogast, út í grein Sigurðar.

Í fyrsta lagi sér Sigurður ástæðu til þess að gera athugasemd við eftirfarandi setningu biskups:

„Fyrir 1000 árum eða svo gerði Alþingi, þá samankomið á Þingvöllum sáttmála fyrir hönd þjóðarinnar. Þar var fest í lög „að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka….“ Það var talin forsenda friðar í landinu að við hefðum ein lög og einn sið.“

Athugasemd Sigurðar ætti ekki að beina gegn ummælum biskups, mun frekar ættu þau að beinast gegn sögu og menningu þess tíma sem um ræðir. Því miður var hugtakið trúfrelsi lítið þekkt og mannréttindi eins og við þekkjum þau í dag enn minna þekkt á þeim tíma sem biskup vísar til. Þá virðist það hafa verið pólitísk afstaða ráðandi aðila á þeim tíma að með einum lögum og einum siði kæmist á friður í landinu, en einhver ófriður virðist hafa ríkt á þessum tíma sem nauðsyn þótti að kveða niður. Sigurður kvartar yfir því að aldrei megi minnast á aðferðarfræði við „kristnun“ landsins. En það er útúrsnúningur því ummæli biskups snúa ekki að þessu.

Í öðru lagi gerir Sigurður athugasemd við eftirfarandi ummæli biskups:

„Þátttaka þingheims og gesta í guðsþjónustu fyrir þingsetningu ár hvert minnir á þennan sáttmála er Alþingi gerði fyrir hönd þjóðarinnar á Þingvöllum forðum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar stendur að íslensk þjóðmenning verði í hávegum höfð, en sú menning er sprottin úr þeim kristna jarðvegi er festur var á Þingvöllum forðum.“

Enn og aftur snýr gagnrýni Sigurðar ekki svo mikið að ummælum biskups eins og hún snýr að ríkjandi afstöðu samfélagsins á Íslandi (og raunar meirihluta heimsins, hverrar trúar eða þjóðernis þeir voru) fyrir 1000 árum, sér í lagi hvað jafnrétti kvenna og umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum á Íslandi varðar. Athugasemdin missir því marks því hún stendur ekki í samhengi við ummæli biskups.

Að lokum gerir Sigurður athugasemd við eftirfarandi:

Kirkjan hefur það hlutverk að gæta menningarverðmæta þjóðarinnar. Hún hefur það hlutverk að þjóna öllum þeim er til hennar leita.“

Hér er það sem ég myndi kalla klassíska hártogun. Vissulega er það rétt að tiltekin þjónusta kirkjunnar er samkvæmt innri reglum hennar ekki í boði fyrir þá sem standa utan við Þjóðkirkjunnar. En hvað felst raunverulega í ummælum biskups. Biskup segir að hlutverk kirkjunnar er að þjóna öllum sem til hennar leita. Þessi setning er rétt og í samræmi við boðskap Jesú. Kristin kirkja á að sýna þeim sem hún mætir kærleika og á að þjóna þeim. Hvort kirkjan standi sig í þessu hlutverki er umdeilanlegt og hverskonar þjónusta um ræðir má vafalítið hártogast um. Biskup heldur því ekki fram að kirkjan fullnægi þessu hlutverki sínu, en það breytir í engu að hlutverk kirkjunnar sannanlega er að þjóna þeim sem til hennar leita. Kristin trú setur háleit markmið sem erfitt eða jafnvel ómögulegt er að ná á einni ævi, en markmiðin og hlutverkið standa engu að síður.

Að því marki sem athugasemdum Sigurðar var beint að ræðu og orðum biskups misstu þau því marks.

-DS

Gagnrýni á söfnun kirkjunnar? Ber að undrast?

Er það einkennilegt að þjóðkirkjan telji það hlutverk sitt að safna fé fyrir Landspítalann eftir að hafa þrýst á um og fengið tugmilljóna aukafjárframlag, vegna fjárkorts kirkjunnar eins og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis heldur fram skv. frétt RÚV um málið?

Fyrr í dag fjölluðum við um átak það sem kirkjan hyggst standa fyrir um söfnun vegna tækjakaupa Landspítalann, en Agnes Sigurðardóttir, biskup, sagði m.a. að kirkjan vildi taka þeirri áskorun að vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landsspítalanum. Við lístum þessu sem skref í rétta átt á nýju ári og fjölluðum um það verkefni sem Jesús kallar kristna til þess að vinna, að þjóna fátækum, sjúkum og öðrum þeim sem minna mega sín.

Nú hafa hinsvegar margir sem lesið hafa fréttina tjáð sig um það að þeim þyki nú ómakleg orð og gagnrýni þingmannsins. Að einhverju leiti má vissulega taka undir það, en þó verður líka að viðurkennast að þingmaðurinn setur fram gagnrýni sína á afar málefnalegan hátt og hlutar hennar ættu vissulega að vera kirkjunni og öðrum umhugsunarefni.

SIIÍ fyrsta lagi er vert að vekja athygli á því að þingmaðurinn er ekki að gagnrýna ætlun kirkjunnar til tækjakaupasöfnunar sjálfstætt, heldur virðist gagnrýnin snúa að því að kirkjan taki sér þetta fyrir hendur samhliða því að hafa fengið tugmilljóna aukafjárframlag vegna meints fjárskorts. Jafnframt ýjar þingmaðurinn að því að kirkjan sé að „básuna“ þessu góðverki sínu og að einhverskonar auðmýkt kunni að skorta sem ýmis frjáls félagasamtök hafi í gegnum tíðin jafnvel staðið sig heldur betur.

Þingmaðurinn tekur jafnframt fram að hún sé að sjálfsögðu þakklát fyrir það eins og aðrir borgarar landsins að keypt séu tæki á Landspítalann og jafnframt segir þingmaðurinn: „Mér finnst það kanski ekki rangt [að kirkjan standi að fjársöfnun - innskot fréttamanns RÚV í umfjöllun sinni]…“ Það sem virðist fara í taugarnar á þingmanninum er að kirkjan fái greidda fjármuni frá ríkinu sem gætu eins runnið til þess málefnis sem kirkjan stefnir að því að vinna fjáröflun vegna.

AgnesStefna kirkjunnar í þessu máli er engan vegin yfir þessa gagnrýni hafin, sérstaklega í ljósi hinna fjárhagslegu tengsla sem til staðar eru milli Kirkjunnar, ríkisins og Landsspítalans, og sérstaklega þegar óljóst er hvernig að fjáröfluninni verði staðið og t.a.m. hver kostnaður við hana verður – mun aukafjárveitingin sem kirkjan fékk t.a.m. dekka kostnaðinn við fjáröflunina og það sem til safnast til Landsspítalans?

Á meðan því er vissulega fagnað að kirkjan taki þetta skref að standa fyrir söfnun að þá er þetta vonandi fyrsta skref af mörgum, og vonandi verður þátttaka og þjónusta kirkjunnar í samfélagsþjónustu stór og eðlilegur hluti af kjarnahlutverki kirkjunnar í samfélaginu. Slíkt myndi vafalítið hafa þau áhrif að kirkjan þarf ekki að „básúna“ um það, en slíkt ber eðlilega að varast og samræmist ekki boðskapi Biblíunnar. En í Matt. 6:1-4 segir m.a.:

1Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.
2Þegar þú gefur ölmusu skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.
3En þegar þú gefur ölmusu viti vinstri hönd þín ekki hvað sú hægri gerir 4svo að ölmusa þín sé í leynum og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Hvort biskup hafi verið að „básúna“ þetta eða bara láta vita af þessu á kurteisislegan hátt má vissulega hártogast um lengi, en ljóst er að ef þetta verður hluti af hversdagsstarfi kirkjunnar að þjónusta samfélagið án tilgerðar, án tilkynningar, í auðmýkt og með boðskap Jesú Krists að leiðarljósi verður gagnrýni þingmannsins seint að fréttaefni. Kannski segir það meira um vanrækslu kirkjunnar á þessu samfélagsþjónustu hlutverki sínu til þessa að þingmaðurinn telur sig þurfa að fjalla um það en hitt að þingmaðurinn sé ómaklega að vega að kirkjunni með orðum sínum?

-DS

 

Úrskráning úr þjóðkirkju fyrir geisladisk?

Á útvarpsstöðinni X977 er útvarpsþáttur sem heitir Harmageddon. Um þessar mundir standa þáttastjórnendur þess þáttar fyrir svokölluðum Þjóðkirkjuleik þar sem þeir auglýsa ýmsa „vinninga“ fyrir nokkra heppna þátttakendur í leik sínum sem gengur út á það að skrá sig úr þjóðkirkjunni og senda inn staðfestingu þess efnis á þáttastjórnenduna.

Vinningar virðast m.a. vera pizzaveisla, geisladiskar, bíómiða, tölvuleiki og meira að segja iPhone. Svo segja þeir: „Hver er ekki tilbúinn að selja sál sína fyrir úrval af glæsilegum vinningum.

Þeir sem eitthvað þekkja til útvarpsþáttarins og/eða þáttastjórnenda hans vita að þeir hafa í gegnum tíðina verið óvilhallir kristinni trú og kirkju og beinlínis andstæðingar hennar, sér í lagi þjóðkirkjunnar. Þetta uppátæki þeirra kemur því vart á óvart. Líklegt er að það hafi sprottið út frá nýlegum ráðgefandi kosningum um hugmyndir stjórnlagaráðs og niðurstöðum þeirrar kosningakönnunar um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá. Eitthvað hefur niðurstaða þeirrar könnunar farið fyrir brjóstið á þessum mönnum þannig að þeir vilji sýna fram á að Íslendingar séu ekki kristin þjóð.

Það er merkilegt hve mikil áhersla er lögð á hina opinberu skráningu einstaklinga í trúfélög til sönnunar og/eða afsönnunar á stöðu trúmála á Íslandi og svo virðist sem þetta sé baráttumál ýmissa að opinber skráning í trúfélög séu með ákveðnum hætti. Sú skráning snýst þó fyrst og fremst um ákveðin tekjustofn trúfélaga sem byggir á innheimtu ríkis á sóknargjöldum. En virðist þó vera afar sterk táknmynd, að margra mati, um stöðu trúfélaga, sér í lagi stöðu Þjóðkirkjunnar á Íslandi. Þannig eru margir sem rýna í tölur Hagstofunnar árlega um breytingar á skráningum trúfélaga.

En maður spyr sig, hverjir velja það að skrá sig úr þjóðkirkju (eða í þjóðkirkjuna eða úr/í annað trúfélag) til þess að eiga möguleika á að vinna verðlaun. Er það ekki afskaplega afstöðulítill gerningur? Væri ekki nær að fólk tæki ákvörðun um slíka skráningu út frá afstöðu sinni til trúfélagsins sem skráningin tekur til? Ég vona allaveganna að þeir sem taki þátt geri það í grunninn af annarri ástæðu en að reyna að vinna vinninga í útvarpsleik, því að öðru leiti virðist slík ákvörðun vera á frekar lágu plani.

Vafalítið eru Harmageddon menn að reyna að gera lítið úr trúfélagaskráningu með þessu uppátæki sínu, en væri ekki nær að kalla eftir sterkari afstöðu fólks til málefnisins heldur en þess að vinna bíómiða í útvarpsleik?

Hvað finnst þér um svona?