Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Morgunbænin fær að haldast en kvöldbænir eru úti

Í hádegisfréttum Rúv, á Mbl.is og Vísi, fyrir skömmu er sagt frá þeirri ákvörðun Útvarpsstjóra að draga tilbaka fyrri ákvörðun um að falla frá bænadagskrárliði að morgni á Rás 1. Engu að síður verður kvöldbænaliðurinn ekki inni. Þessi ákvörðun virðist hafa verið tekin í samráði við Biskup.

Því er sannanlega fagnað að tekið er tillit til þeirra radda í samfélaginu sem óskuðu eftir því að halda bænum inni, en á sama tíma er vissulega ákveðinn missir af kvöldbænunum.

Símtöl páfa

pope-francis_2663236bEitt af því sem hefur aukið vinsældir Frans páfa meðal almennings er að hann á það til að taka upp símtólið og hringja í einstaklinga innan kaþólsku kirkjunnar sem hafa sent honum bréf. Nú nýverið hringdi páfinn í Önnu Romano sem hafði skrifað páfa þar sem hún sagði frá því að hún hefði uppgötvað að barnsfaðir hennar væri giftur. Eftir að hún sagði kærasta sínum frá því að hún væri ólétt, sagði hann henni að hann væri giftur og sagði henni að fara í fóstureyðingu. Fréttasíðum ber ekki saman um hvort þeirra yfirgaf hinn einstaklinginn, en eitt er víst og það er að þau slitu sambandi sínu og hún var staðráðin í að fara ekki í fóstureyðingu.

Þegar símtalið kom brá konunni þegar hún uppgötvaði hver var á línunni. Þegar hún deildi áhyggjum sínum með honum um hvort nokkur prestur myndi vilja skíra barnið, þar sem það var getið utan hjónabands, þá sagði hann henni að ef hún lenti í vandræðum myndi hann sjálfur skíra barnið. Hann uppörvaði hana síðan og sagði henni að hún væri hugrökk og sterk að ákveða að hún myndi halda barninu.

Er þetta jákvætt og hefur aukið vinsældir Frans páfa að hann sé tilbúinn að taka frá tíma til að hringja í „sóknarbörn“ sín sem koma til hans með áhyggjur sínar bréfleiðis.

Heimildir: Hér er frétt breska blaðsins Telegraph um málið og hér má finna umfjöllun National Catholic Register um málið.

-Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson

Vinsælli en Bieber og Fimmtíu gráir skuggar

Flag_of_Norway.svgÁhugaverð tíðindi berast frá Norðmönnum þessa dagana. Biblían hefur nú verið í toppsætum bókasölulista landsins í samanlagt 54 vikur á síðasta 56 vikna tímabili. Þó það ætti ekki að koma sérstaklega á óvart ef til langstíma er litið, bendir tímaritið Guardian á að vinsældir Biblíunnar hafi á þessu tímabili slegið út „sjálfsævisögu“ Justin Bieber og hina geysivinsælu bók Fimmtíu gráir skuggar. En þetta þykir mörgum ákveðin tíðindi. Um er að ræða nýja norska þýðingu á Biblíunni.

Þessi þróun hefur víða þótt athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess að mönnum þykir Norðmenn hafa fjarlægst trúarlegum málefnum á síðastliðnum árum og áratugum og sumir segja Noreg eitt trúlausasta land Evrópu. Kirkjuleiðtogar í Noregi eru þó ekki á einu máli um að umbylting eigi sér stað í Noregi. Ekki er merkjanlegur munur á kirkjusókn, en um 1% þjóðarinnar (í Noregi búa um 5 milljónir) sækir guðsþjónustur reglulega. Aðrir benda á það að Norðmenn eru í eðli sínu lítillátir og iðka trú sína heima hjá sér og sækja ekki endilega trúarlegar samkomur. Engu að síður verður að telja þessar fregnir sé ákveðinn vitnisburður um hugarástand þessarar þjóðar.

Boðskapur Biblíunnar rýrist ekki með árunum, og áhugi okkar á þessari merku bók fer augljóslega ekki minnkandi.

Sjá meira um málið hérna og hérna

-DS

Páfi segir af sér

BenediktXVIBenedikt XVI páfi hefur tilkynnt að hann muni fara úr embættinu 28. febrúar næstkomandi. Mun ástæðan fyrir þessu vera sú að aldur og heilsa komi í veg fyrir að hann sinni embættinu með þeim hætti sem hann telur embættið þurfa.

Það er óalgengt að páfi segi sig úr embætti og hafa flestir páfar látist í embætti. Síðasti páfi sem sagði af sér var Gregory XII árið 1415, en hann sagði af sér m.a. til að binda enda á átök innan kirkjunnar, en deilur stóðu milli aðila um hver ætti tilkall til embættisins og ruddi afsögn Gregory XII veginn fyrir nýjan páfa sem aðilar gátu verið sáttir með. Á undan Gregory XII má segja að síðasti óumdeildi páfi sem lét af embætti af sjálfsdáðum var Clelestine V á árinu 1294

Páfi hefur verið í embætti í 8 ár og verður ekki annað sagt en að margt hafi gerst á þeim tíma bæði í heiminum, en einnig á vettvangi kirkjunnar. Á meðan menn bera þakklæti til fráfarandi páfa er væntanlega mikil vinna framundan við að velja næsta páfa.