Greinasafn fyrir flokkinn: Almenn grein

Vesalingarnir – Biskupinn

VesalingarnirVorið 2012, sá ég leikritið um Vesalingana í fyrsta skipti í Þjóðleikhúsinu á Íslandi. Þessi saga snerti við mér og þegar ég komst að því að kvikmyndin væri í býgerð með Hugh Jackman sem Jean Valjean, þá var ég mjög spenntur. Ég sá myndina, keypti DVD diskinn og undanfarið hef ég verið að hlusta á hljóðbókina á meðan ég hjóla eða er í vinnunni að gera hluti sem þarfnast ekki of mikillar einbeitingar.

Það er margt í sögunni sem vekur upp ýmsar hugsanir en hér langar mig að skrifa aðeins um mikilvægi hlutverk biskupsins. Bókin byrjar með þó nokkrum köflum sem lýsa góðmennsku biskupsins, heilindi hans og þannig byggir bókin rólega upp að því að Jean Valjean sé kynntur til sögunnar og hittir þennan merka biskup. Í kvikmyndinni hins vegar, þá er biskupinn á skjánum í minna en 5 mínútur, en áhrif hans í sögunni eru ótrúleg. Hinn góði biskup er sá sem sýnir Jean Valjean náð og kærleika Guðs í fyrsta sinn. Mig langar því að draga fram nokkur atriði um þetta hlutverk.

  1. Biskupinn sér þörf Jean Valjean, niðurbrotinn manns, og býður honum inn að þiggja næringu og hvíld. Á svipaðan hátt sá Guð okkar andlegu þörf og sendi því son sinn Jesú í heiminn til að mæta þörfinni, gefa okkur sinn Anda og bjóða okkur hvíld í honum: Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. (Matt. 11:28).
  2. Biskupinn kemur fram við Jean Valjean sem jafningja, og ekki bara það heldur sem “virtan gest”. Það sem er biskupsins er einnig Jean Valjean’s því að allt sem að biskupinn á, það á hann til að deila með sér.
    Guð kom til jarðar sem maður í Jesú Kristi, fæddur í jötu og hann mætir okkur að mörgu leyti sem jafningjum jafnvel þótt hann sé Guð. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður. (Filippíbréfið, 2:6-7)
  3. Hann sýndi Valjean náð Guðs þegar hann sagði að Valjean hefði verið að segja satt og tók þannig á sig tap vegna synd Valjeans. En ekki bara það, heldur sýndi biskupinn Valjean líka kærleika með að gefa honum meira silfur. Loksins minnir hann Valjean á að snúa frá gamla lífinu og nota þessa náð sem hann þáði til að verða heiðarlegur maður á ný. Á svipaðan en jafnvel enn stórkostlegri hátt, þá segir Jesús, frammi fyrir Guði, að við eigum ekki að fá neina refsingu vegna neinnar sektar. En hann gerir það ekki með að beygja sannleikann á neinn hátt. Í staðinn þá borgaði Jesús nú þegar fyrir öll okkar mistök og syndir og gefur okkur líf vegna þess hve mikið hann elskar okkur. Hann var tilbúinn að gefa líf sitt fyrir okkur og hvern sem er sem vill þiggja þessa gjöf hans. Á sama tíma, þá minnir hann okkuar á að syndga ekki framar heldur ganga veg réttlætisins.
    Hann rétti sig upp og sagði við hana: “Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?” En hún sagði: “Enginn, Drottinn.” Jesús mælti: “Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.” (Jóh. 8:10-11)

Þessi gæska. Þessi náð. Þessi kærleikur sem biskupinn sýnir Jean Valjean verður til þess að líf hans umbreytist og hann verður að nýjum manni, sem lifir fyrir Guð, hjálpar fátækum og reynir hvað hann getur að gera hið rétta. Hann þarf enn að takast á við erfiðleika lífsins, allt til síns síðasta dag, en engu að síður er mikil breyting á lífi hans.

Það verður alltaf erfiðleikar í lífi okkar þar sem við reynum að gera hið rétta og heiðarlega, en þó að Jean Valjean sé aðeins persóna úr bókmenntum, þá getur hann verið okkur hvatning og hann sýnir okkur hvernig lítið góðverk getur haft jákvæð keðjuáhrif.

-Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson

Nicky Cruz í áhugaverðu viðtali – Myndband

nickycruzogdavidwilkersonNicky Cruz er mörgum kunnur, sérstaklega aðdáendum bókarinnar (og kvikmyndarinnar) Krossinn og hnífsblaðið, eftir David Wilkerson, sem og bókina um hann sjálfan „Run Baby Run“ sem í íslenskri þýðingu heitir Hlauptu drengur hlauptu. Nicky Cruz átti um margt erfiða barnæsku og segist sjálfur ekki hafa upplifað kærleika heimafyrir. Hann fluttist 15 ára frá Púertó Ríkó til New York og byrjaði fljótlega þátttöku í gengjum og var um tíma leiðtogi Mau Mau gengisins í New York.

Myndbandið að neðan er viðtal frá árinu 1991 og er um margt áhugavert, sérstaklega hvað bakgrunn hans varðar og mikilvægi kærleikans. Athyglisverð er frásögn Nicky Cruz af hundi sem kenndi honum sitthvað um kærleika þegar Nicky var átta ára (hann byrjar að ræða þetta á 4. mínútunni. En leyfum Nicky Cruz að segja frá því sjálfur.

Hundavina samkomur í sumar

hundarikirkjuÁ Íslandi færist gæludýraeign í vöxt. Sérstaklega hefur hundaeigendum fjölgað á síðastliðnum árum og er það jákvæð þróun. Samband manns og hunds getur orðið ótrúlega sterkt og viðurnefnið „besti vinur mannsins“ hefur ítrekað sannað sig. Sjálfur á ég hund og hef oft velt fyrir mér að taka hann með mér á sunnudögum í kirkjuna, eða gott betur, að eiga notalega kristilega samverustund  úti með öðrum hundaeigendum.

Nú þegar sumarið er komið er tilvalinn tími fyrir kirkjur að velta fyrir sér hvernig hægt er að nýta sér sumarveðrið á Íslandi sem stoppar allt of stutt við. Hundavina samkomur er einn möguleiki sem ég hvet hugrakka safnaðarleiðtoga til að skoða vel og bjóða upp á.

Þessu tengdu deili ég með ykkur grein um kirkju í Bandaríkjunum þar sem tekin var ákvörðun um að leyfa fólki að koma með hundana sína á samkomur. Þetta hefur að sögn reynst afar skemmtilegt og vakið mikla lukku. Hundarnir eru eigendum sínum til sóma og aðrir safnaðarmeðlimir virðast afar sáttir við þessa nýjung. Meira að segja þeir sem eru með hundaofnæmi hafa ekki látið sig vanta í kirkjuna, enda sitja hundaeigendurnir vanalega aftast í kirkjunni til þess að veita öðrum eilítið meira rými, og hefur uppátækið því ekki valdið neinum ama. Fyrir áhugasama má sjá vídeó og umfjöllun um þessa stórskemmtilegu nýjung og hugrökku kirkju hérna.

Ætli einhver á Íslandi þori að taka skref í þessa átt?

D.S.

Biskup á samfélagsvefjum – snilld eða flopp?

TwitterEins og flestir þeir sem skoðað hafa fréttamiðla landsins í dag hafa vafalaust tekið verður predikun frú Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups sett inn á samfélagsvefinn Twitter (hér má finna Twitter síðu biskups). Frú Agnes mun predika við þingsetningarathöfn Alþingis í dag kl 13:30 sem að venju hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með ræðu biskups í gegnum Twitter er því um að gera að fara á vefsíðuna fljótlega eftir klukkan hálf tvö í dag, en guðsþjónustunni líkur klukkan tvö.

Ekki nóg með það að predikunin fari inn á Twitter, heldur er hvatt til samræðna á Twitter um predikunina undir merkinu #thingsetning. Áhugasamir sem kunna á Twitter geta því fylgst vel með gangi mála í Dómkirkjunni á eftir.

Það verður að viðurkennast að ég er ekki viss hver hugmyndafræðin er að baki þessu hjá biskupi. Er ætlunin sú að taka fyrsta skrefið í átt að frekari Twitter-væðingu kirkjunnar og fagnaðarerindisins, er ætlunin sú að auka við þjónustu og fylgja takti tímans hvað tækniframfarir varða? Er markmiðið að bjóða upp á samfélag utanum predikunina á netmiðlum? Er kannski markmiðið að vera reyna að skapa jákvæða fjölmiðlaumfjöllun um guðsþjónustuna við þingsetningu sem því miður hefur í seinni tíð hefur verið uppspretta neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar frá háværum minnihluta þingmanna og lobbýista gegn Þjóðkirkjunni.

Ég vona að þetta framtak sé ekki einhverskonar tilraun til jákvæðrar innantómrar fjölmiðlaumfjöllunar, því hún kemur og fer. Ég vona innilega að þessi nýting kirkjunnar á samfélagsvefjum sé jákvætt skref í átt að frekari útbreiðslu fagnaðarerindisins og hlakka til að sjá hvernig þetta verður framkvæmt og umfram allt hvernig þessu verður tekið.

Þetta gæti verið stórsniðug og þetta gæti orðið að floppi, en það verður ekki tekið frá þeim sem að þessu standa að það þarf hugrekki til nýjunga og það er alltaf gaman að sjá slíkt hugrekki innan kirkjunnar.

Hvað finnst þér um þetta framtak?

-DS

Krossinn í fjölmiðlum – safnaðarátökin

dvlogoÁ síðum DV, sem oft hefur verið litið niður á sem ófréttnæmur fjölmiðill, hafa síðastliðna daga birst fréttir af átökum innan Krossins. Að vanda ber fjölmiðlaflutningurinn æsifréttabrag á sér og manni er um margt spurn hvað er fréttnæmt við átök á aðalfundi safnaðar þar sem eru færri en 500 meðlimir (þó að vissulega kunni lögreglumál almennt að vera fréttaefni). Svo virðist sem þeir sem standi málinu næst kunni vel við umfjöllun blaðsins um átökin en blaðið vísar talsvert til ummæla nafngreindra sem ónafngreindra heimildarmanna sem hika ekki við að segja frá gangi mála innan safnaðarins.

Því miður er það þó svo að umrædd átök hljóta í besta falli að vera fjölskylduharmleikur. Svo virðist sem fjölskyldumeðlimir sláist um völd og titla innan safnaðarins. Þetta er um margt sorglegt og á allan hátt er þetta slæmt fordæmi fyrir starfsemi kristilegra safnaða í landinu. Að leiða söfnuð er í sjálfu sér ekki eftirsóknarvert hlutverk frá sjónarhorni heimsins, enda er fyrst og fremst um þjónustuhlutverk að ræða, en því miður hefur maðurinn skapað þvílíka umgjörð og upphafið tiltekna einstaklinga þannig að sóst er eftir leiðtogahlutverkum kirkjunnar með kjafti og klóm og án þess að hvatinn til þjónustunnar ráði þar mestu.

KrossinnÍ ljósi fjölskyldutengsla þeirra sem þarna eigast við er manni hugsað til kaþólsku kirkjunnar og þess fyrirkomulags sem þar hefur ríkt í aldarraðir að prestar gifti sig ekki og eigi þ.a.l. ekki börn sjálfir. Þó að það fyrirkomulag hafi verið gagnrýnt málefnalega í gegnum tíðina og oft með réttu, er ljóst að það fyrirkomulag hefur vafalítið komið í veg fyrir fjölskylduátök svipuð þeim sem nú eru í gangi innan Krossins og hefðu jafnvel komið í veg fyrir þau átök sem við nú verðum vitni að.

En það læðist að manni grunur að ætlun þessara einstaklinga sé ekki endilega að starfa fyrir Drottinn Jesú í þjónustuhlutverkis safnaðarhirðis og forstöðumanns kirkju sem þjónar 500 einstaklingum. Manni er sannanlega spurn hvert raunverulegt markmið þessara einstaklinga sé, og hver raunveruleg afstaða þeirra til hlutverksins sem þau sækja eftir sé, þ.e.a.s. enda virðast átökin þvílík að beita þurfi atbeina lögreglu til þess að friða hópinn.

Því miður er það svo að í aldanna rás hefur kirkjupólítík verið þvílík átakapólitík og málefnin eru oft afar viðkvæm og persónuleg, hvort sem um fjölskyldutengsl er að ræða eða ekki. En betur má ef duga skal, átakapólitíkin sem ríkt hefur innan kirkjunnar á að sjálfsögðu ekki heima þar.

Við vonumst til þess að sá ágreiningur sem til staðar er innan safnaðarins ljúki í sátt og hafi ekki slæm áhrif á söfnuðinn. Í ljósi fjölskylduáhrifanna veltir maður fyrir sér hvort það væri ekki heillavænlegast að umrædd fjölskylda sem stýrt hefur söfnuðinum í áratugi stigi til hliðar, þó ekki væri nema um stundarsakir, og byggði þess í stað upp framtíðarleiðtoga og þjóna innan safnaðarins til þess að taka við því mikla ábyrgðarhlutverki sem forstöðumannshlutverkið er.

-DS

Predikarar með lífverði og fljúgandi um á einkaþotum?

einkaþotaEr eðlilegt eða réttlætanlegt að kristnum predikara sem gengur vel í lífinu, selur t.d. mikið af bókum, er með sjónvarpsþátt, fljúgi um á einkaþotu, sé með lífverði, gisti á flottustu hótelherbergjum o.s.frv.? Skiptir það okkur yfir höfuð máli? Ætti það að skipta okkur máli?

Í gær á vefsíðu Charisma Magazine var að finna afar áhugaverða grein eftir J. Lee Grady undir fyrirsögninni „No More Pentecostal Popemobiles“. Þó að tilefni greinarinnar sé að einhverju leiti kjör Frans páfa, að þá snýr greinin að sjálfsgagnrýni á hin yfirdrifnu veraldlegu gæði sem margir söfnuðir, og sér í lagi margir predikarar og prestar leggja áherslu á, hvort heldur það er í persónulega lífinu eða í krafti hlutverks síns innan kirkjunnar.

Við hvetjum þá sem hafa góð tök á ensku að smella hérna og lesa greinina sjálfa, því hún er vel þess virði að lesa. En fyrir þá sem hafa minni tíma eða kjósa lestur á íslensku er vel þess virði að snerta á nokkrum þeim atriðum sem greinin snýr að.

——

POPEFRANCISGreinarhöfundur er ekki kaþólskur og hefur s.s. ekki fylgst náið með né skilið þá kirkjupólitík sem á sér stað innan Vatíkansins og veltir því upp hversvegna í ósköpunum þessi nýji páfi sem er frá Argentínu sé svona vinsæll.

Það er kannski auðvelt að skilja það. Hann er auðmjúkur. Hann eldar fyrir sjálfan sig. Hann valdi að lifa í lítilli íbúð í Buenos Aires í stað hallar erkibiskupsins. Og þegar hann var leiðtogi kaþólskra Argentínumanna tók hann strætó til að komast á milli staða. Hann tók strætó aftur eftir að hann var kosinn páfi í síðustu viku í Róm.

Páfinn meira að segja skaust út úr Vatíkaninu eftir kosninguna til þess að lofa Guð með almenningi – án lífvarða og án páfabílsins sem ýmsir kalla „Popemobile“.

Að sögn bað hann kolelga sína í Argentínu að sleppa því að mæta til Rómarborgar þegar hann verður settur í embættið og gefa þess í stað peningana sem þeir hefðu eytt í flugfarið til fátækra.

Að þessu sögðu er rétt að velta fyrir sér hvort lesendur sjái einhvern greinarmun á einföldum lífstíl Frans páfa og þeirri yfirdrifnu velmegun sem sést stundum hjá sumum hvítasunnu og karísmatískum leiðtogum.

Því miður er það þannig, þó sem betur fer sé ástandið ekki með þessum hætti á Íslandi, a.m.k. ekki svo ég viti til, að sér í lagi í Norður-Ameríku misnota kristnir leiðtogar það fjármagn sem þeim stendur til boða og jafnvel eyða því í vitleysu.

Það er ekki verið að kalla eftir því að prestar og kristnir leiðtogar lifi í fátækt og neiti sér um allt veraldlegt. Heldur er greinin ákveðin áskorun til kristinnar kirkju að gefa gaum að þeim sem minna mega sín og vara á sama tíma við þá miklu eyðslu, sem er í  raun misnotkun á auð, sem því miður sést stundum.

lifverdirÞó að við á Íslandi verðum lítið vör við lífverði, hótelherbergi sem kosti milljón krónur hver nótt, einkaþotur, kröfur um limmósínur eða stöðugt betl sjónvarpspredikara (kannski einna helst þetta síðastnefnda), að þá getum við samt haft áhrif til hins betra. Við ættum t.d. ekki að leyfa gestapredikurum að komast upp með fáránlegar kröfur ef þær eru gerðar, jafnvel þó að viðkomandi sé nafntogaður og frægur. Slíkt á ekki að skipta máli.

——

Við á Trúmál.is vonum að sjálfsögðu að Frans páfi haldi áfram að vera sú fyrirmynd sem hann virðist hafa verið argentínsku kirkjunni. Jafnframt vonum við að leiðtogar kirkna um allan heim verði vakandi yfir málefnum þeirra er minna mega sín og hlutverki kirkjunnar gagnvart þeim. Einnig er mikilvægt að kirkjan sé meðvituð um hættuna sem felst í þeirri mistnokun á fjármunum sem stundum vill eiga sér stað innan kirkjunnar. Þá erum við ekki að vísa til fjárdráttar, heldur óábyrga notkun og umframeyðslu á fjármunum sem kirkjunni hefur verið falið af fúsum gefendum til þess að ávaxta, til að vinna þá vinnu sem Jesús hefur falið henni.

-D.S.

Myndband: Kínverjar taka á móti Biblíunni

200px-Open_bible_01_01_svgTökum við mannréttindum okkar sem sjálfsögðum hlut? Er aðgangur að Biblíunni sjálfsagður um allan heim? Í Kína eru talsverðar takmarkanir þegar kemur að mannréttindum sem við á Vesturlöndum tökum sem sjálfsögðum hlut. Ritfrelsi, trúfrelsi, tjáningarfrelsi eru að mörgu leiti takmörkuðu í hinu fjölmenna ríki Kínverja. Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá hóp Kínverja taka við Biblíum sem dreift hefur verið. Það er ljóst að mikil spenna hefur ríkt í hópnum og ánægjan er mikil.