Mánaðarskipt greinasafn fyrir: október 2012

Ódýr náð þjóðkirkjunnar?

Í gær birtist á miðuopnu Morgunblaðsins aðsend grein eftir séra Geir Waage, sóknarprest í Reykholti. Þar skrifar Geir um ákveðnar breytingar á skipan þjóðkirkjunnar síðastliðin ár undir fyrirsögninni kirkju hinnar ódýru náðar. Greinin virðist að einhverju leiti byggð á fyrri grein Geirs sem birtist í Kirkjuritinu fyrr á þessu ári sem hét „Um Þjóðkirkjuna við tímamót“ og skýtur Geir föstum skotum á lýðræðishugmyndir innan kirkjunnar og það sem Geir segir vera vildarvæðingu innan kirkjuna og vísar til þess að biskupar hafa ræktað þjóðkirkjuna sem leikmannakirkju. Þó að greinin snúi vissulega mikið að innra skipulagi kirkjunnar, sér í lagi hlutverki og ábyrgð sóknarpresta og beri vott um að vera innlegg í umræðu um kirkjupólitísk málefni Þjóðkirkjunnar eru ýmsir hlutar greinarinnar afar áhugaverðir fyrir þá sem standa aðeins utar. Raunar er margt í greininni sem nota mætti sem umræðugrundvöll um fjölmarga þætti innan skipulags kirkjunnar og hugmyndafræði um þátttöku óvígðra innan kirkjunnar, hvers eðlis hún ætti að vera og hvað felist í hlutverki hinna vígðu.

Geir segir m.a.:

Það er athygli vert, að vörnin fyrir kirkjuna gengur svo út á að verja kirkjustofnunina og fjelagsmálaumsvif hennar, ekki fagnaðarerindið og annan menningararf heilagrar kirkju.

Þessi punktur vekur mann til umhugsunar. Hverjar eru áherslurnar útá við sem þjóðkirkjan notar til réttlætingar á tilvist sinni hér á landi, sér í lagi þegar spurningar um tengsl ríkis og kirkju og þjóðkirkju fyrirkomulagið bregst í tal. Geir virðist svíða það að fagnaðarerindið lætur títt í minnipokan fyrir veigaminni umfjöllunarefni (samanborið við mikilvægi fagnaðarerindisins)  sem oft fer þó fram á vettvangi og forsendum kirkjunnar.

Fleiri spurningar koma upp í hugann þegar greinin er lesin sem við vörpum áfram til ykkar.

Á lýðræði heima í kristinni kirkju? Hvert er gildi játningarrita kirkjunnar í dag s.s. Ágsborgarjátningarinnar? Hvað réttlætir sambands ríkis og kirkju? Á að leggja meiri áherslu á félagslegt hlutverk kirkjunnar og þjónustu við landsbyggðina samanborið við fagnaðarerindið eða fer þetta tvennt kannski vel saman? Reynir kirkjan (eða kirkjur í landinu almennt) í daglegri umræðu að verja fagnaðarerindið – eða er því fórnað fyrir fjárhagslega hagsmuni eða jafnvel orðið að feimnismáli?

 

Konur trúræknari en karlar?

Í nýlegri grein á Christianity Today er því haldið fram að skv. nánast hvaða mælistiku sem er, séu konur trúfastari/trúræknari kristnir einstaklingar samanborið við karla. Niðurstöður skoðunarkönnunar sem vísað er til í fréttinni (og við bendum á hér að neðan), bendi til þess að fleiri konur séu staðfastar í trúnni, trúi að Jesús sé sonur Guðs, sæki samkomur vikulega, biðji daglega og lesi reglulega í Biblíunni samanborið við karla, svo fátt eitt sé nefnt. Í þeim fáu atriðum sem karlar gætu flokkast sem trúræknari er munurinn milli kynjanna afar lítill og vart marktækur en þessi atriði snúa að guðfræði og íhaldssemi og þátttöku í Biblíuleshópum eða sunnudagaskólum.

Hver er ykkar reynsla? Er hin kristna kvennþjóð trúræknari/trúfastari en karlkynið?

Niðurstöður könnunarinnar í gegnum ChristianityToday

gls

Global Leadership Summit 2.-3. nóvember 2012

Okkur finnst mikilvægt að kynna áhugaverða starfsemi, ráðstefnur og fyrirlestra sem eiga sér stað hér á Íslandi og tengjast trúmálum. Það er okkur því mikil ánægja að segja örlítið frá svokallaðri GLS, leiðtogaráðstefnu, sem haldin hefur verið á Íslandi frá 2009 og í hinum stóra heimi frá 1995. GLS stendur fyrir global leadership summit og er alþjóðleg leiðtogaráðstefna. Ráðstefnan er haldin af Willow Creek samtökunum í Bandaríkjunum, sem eru þverkirkjuleg samtök sem um 12.000 söfnuðir úr 90 kirkjudeildum eru meðlimir í. Tæplega helmingur meðlimanna eru söfnuðir utan Bandaríkjanna.

Markhópur ráðstefnunnar eru leiðtogar í kristilegu starfi en hver sem er sem áhuga hefur á leiðtogahlutverkinu er velkominn á ráðstefnuna, hvort sem hann er kristinn eða ekki, og mun ráðstefnan og efni sem þar er kynnt vafalítið gagnast flestum. Í ár eru fyrirlesararnir ekki af verri endanum. Bill Hybels, stofnandi og forstöðumaður Willow Creek, Condoleezza Rice, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Jim Collins sem er afar þekktur á sviði leiðtogafræða svo örfáir séu nefndir.

Í ár hefst ráðstefnan föstudaginn 2. nóvember og lýkur laugardaginn 3. nóvember og verður hún haldin í Neskirkju. Verð er í dag 13.500 krónur fyrir ráðstefnuna, en námsmenn, atvinnulausir, öryrkjar og hópar með 5 eða fleirum þar sem einn raunverulegur greiðandi stendur að baki fá ráðstefnuna á 9.500 krónur.

Hvetjum við alla áhugasama að kynna sér ráðstefnuna betur á vefsíðu GLS á Íslandi.

Tvennt sem er gott að vita

Þegar þú kemur inn á vefsvæðið Trúmál.is sérðu ekki alltaf færslurnar í fullri lengd. Ef að færsla endar á orðunum „continue reading“ geturðu smellt á það til þess að sjá færsluna í heild sinni. Ef þú vilt tjá þig um tiltekna færslu hvetjum við þig til þess að gera það. Í fyrsta skipti sem þú tjáir þig þá þarf að samþykkja athugasemdina – þetta er til þess að koma í veg fyrir spam/fjöldapóst í athugasemdakerfinu. Eftir fyrsta samþykki ættu athugasemdir og skoðanir þínar að koma inn jafnóðum og þú hefur sent þær. Eins og venja er mælumst við til þess að menn síni fyllstu kurteisi í samskiptum á vefsvæðinu og áskiljum okkur allan rétt til að fjarlægja hverskonar athugasemdir.

Ögmundur: Siðmennt en ekki Kárahnjúkar

Ögmundur Jónason innanríkisráðherra gerir andstöðu við frumvarp um lífsskoðunarfélög að umtalsefni í aðsendri grein Fréttablaðsins í dag. Þar rekur hann í stuttu máli að andstæðingar frumvarpsins hafi hingað til komið í veg fyrir atkvæðagreiðslu en frumvarpið snýst um viðurkenningu á lífsskoðunarfélögum á borð við Siðmennt þannig að þau njóti jafnrar stöðu á við trúfélög gagnvart ríkisvaldinu. Í aðsendri grein sinni kallar Ögmundur eftir því að þeir sem standi gegn þessu frumvarpi geri grein fyrir afstöðu sinni og þeim hagsmunum sem í húfi séu, enda sé Siðmennt hvorki Kárahnjúkar né bankaeinkavæðing heldur hefur félagið uppskorið almenna viðurkenningu og virðingu skv. orðum ráðherrans.

Nú þekkjum við ekki hverjir helstu andstæðingar frumvarpsins eru sem Ögmundur reynir að skora á, en frumvarpið virðist hafa dagað uppi á síðastliðnu þingi og er komið inn aftur og inn í allsherjar- og menntamálanefnd á yfirstandandi þingi.

Í fyrra komst frumvarpið þó á það stig að umsagnir hagsmunaðila bárust nefndinni. Meðal þeirra sem sendu inn umsagnir voru: Biskupsstofa, Hvítasunnukirkjan Fíladelfía, KFUM og K, Baháí, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Umboðsmaður barna, og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Engin þessara umsagnaraðila mótmælti meginmarkmiðum frumvarpsins. Þvert á móti var því iðulega fagnað. Þessi fórnarlambsleikur ráðherrans vekur því strax upp spurningar. Athygli vekur einnig að Siðmennt skilaði ekki umsögn til þingsins, en það skýrist hugsanlega af því að Siðmennt tók afar virkan þátt í samningu frumvarpsins innan ráðuneytisins umfram aðra aðila, sem kann einnig að vekja sýnar spurningar. Halda áfram að lesa

Graham feðgar og mormónar

Fjölmiðlar vestanhafs einbeita sér nú að forsetakosningum þar ytra. Eins og algengt er í bandarískum stjórnmálum skipa siðferðis og trúmál ákveðinn sess í þeirri umræðu sem skapast. Oft taka kirkjur sér saman og hvetja safnaðarmeðlimi sína til þess að kjósa einn frambjóðanda umfram annan.

Að hve miklu leiti kirkjur ættu að blanda sér í pólitík er umdeilanlegt. Hér á Íslandi er ekki mikil hefð fyrir slíku, þó að stöku sinnum geri prestar stjórnmál í landinu að umtalsefni úr ræðupúlti safnaðarins. Þó mönnum finnist þetta oft óþægilegt, eru vafalítið mörg tilvik sem kalla á eðlilega þátttöku kirkju og kristinna einstaklinga í pólitík. Í Bandaríkjunum er þetta afar algengt, t.a.m. hvetja safnaðarleiðtogar, t.d. hinn títt nefndur Rick Warren, leiðtogi Saddleback kirkjunnar í Kaliforníu, meðlimi sína til þess að kjósa mann sem deilir sömu siðferðislegum gildum og trúin leggur upp með. Í því samhengi vísast iðurlega til þriggja atriða, lífs, kynlífs og hjónabandsins. Nú hafa hinsvegar vaknað umræður um opinbera afstöðu og hvatningu Billy Grahams og sonar hans, Franklin Graham til kosningar Mitt Romneys, sem er forsetaframbjóðanda Repúblikana flokksins. Ástæðan fyrir þessari umræðu er að Mitt Romney er Mormóni.

Halda áfram að lesa

Þjóðkirkja í stjórnarskrá?

Kosningar þær sem haldnar voru síðastliðna helgi hafa verið margumtalaðar og hafa sumir lýst þeim sem skoðanakönnun eða viðhorfskönnun vegna ráðgefandi stöðu þeirra. Eins og alkunna er snérust kosningarnar um tillögu umdeilds skipaðs stjórnalagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga, semsagt nýrri stjórnarskrá. Ferlið frá upphafi, hugmyndafræðin á bakvið stjórnlagaráð og starf þess, umrædd kosning og spurningar þær sem settar voru fram eru allt gagnrýniverðar frá ýmsum sjónarhornum. Svo má lengi deila um nauðsyn þess að umturna stjórnarskrá þeirri sem við í dag eigum.

Áhugamenn um trúmál hafa þó vafalítið fylgst grant með niðurstöðum kosninganna hvað spurningu þrjú á kjörseðlinum varðar. Sú spurning hljómaði svona:

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Við þessari spurningu gátu hinu ráðgefandi kjósendur valið eða Nei. Niðurstaða ráðgefandi atkvæðagreiðslunnar er sú að 51,1% svöruðu játandi og 38,3% svöruðu neitandi. En hvað þýðir þetta?

Halda áfram að lesa