Mánaðarskipt greinasafn fyrir: febrúar 2013

Milljónamæringur þökk sé fóstureyðingu

Eftirfarandi myndband hefur vakið sterk viðbrögð. Það sýnir konu sem kemur að hópi fólks í San Francisco sem tók þátt í „Walk for Life“ göngu sem haldin er árlega í tengslum við fóstureyðingar. Konan segir að hún sé milljónamæringur vegna þess að hún hafi farið í fóstureyðingu. Viðmælandi hennar vekur máls á því að þessvegna tali þau um fóstureyðingar sem mannfórn. Því manneskju sé fórnað fyrir bættu lífi annarrar manneskju.

Hérna má lesa meira um myndbandið. Fullyrðing konunnar í myndbandinu stingur mann enda er ótækt að samfélagið íhugi það að setja manneskju í þá aðstöðu að hún þurfi að eyða lífi í móðurkviði sínu til þess að eiga möguleika á bættari framtíð, eða velgengni, menntun eða frama. Konur eiga betra skilið. Nútímasamfélag ætti að leggja mikla áherslu á að fækka fóstureyðingum kvenna. Samfélag þar sem almennt er „þörf“ fyrir fóstureyðingu, sér í lagi af félagslegum ástæðum er samfélag þar sem eitthvað er að. Viljum við búa í samfélagi þar sem mannslífum er reglulega fórnað oft með tilheyrandi tilfinningakostnaði kvenna, fyrir fjárhagslega og félagslega velgengni?

-DS

Er þörf á kristilegum stjórnmálasamtökum?

Christian Political PartyÁ vefsvæðinu krist.blog.is má finna upplýsingar um „Kristinn þjóðarflokk“ sem eru kristileg stjórnmálasamtök. Samtökin virðast leidd áfram að miklu leyti af Jóni Vali Jenssyni en aðrir sem virðast þátttakendur í þeim eru Snorri Óskarsson og Þorsteinn bróðir hans sem gengu til liðs við samtökin í upphafi árs skv. síðunni. Aðrir einstaklingar eru einnig hluti af samtökunum sem virðast telja milli 15-20 manns miðað við grunna skoðun á færslum og upplýsingum á síðunni.

Stjórnmálaflokkar sem kenna sig við kristna trú og kristin gildi eru víðsvegar starfandi og áhugavert verður að sjá hvernig þessi flokkur mun koma fram, hvort hann muni vera uppbyggður á svipaðan hátt og flokkar í nágrannalöndum okkar eða hvort hann muni breyta til.

Nú sem endranær eru ýmis mál sem snerta trúmál og siðferðismál í höndum Alþingis, sveitarstjórnar og fleiri aðila og það er ekki úr vegi að spyrja hvort ekki sé raunverulega þörf á kristnum stjórnmálasamtökum. Ef svo er, hvernig þurfa slík samtök að vera uppbyggð og á hvaða gildum ber að byggja, í ljósi þess að kristnar kirkjur eru margar, fjölbreyttar og innan þeirra er að finna fjölbreytilegt úrval pólitískra skoðana um hin margbreytilegu mál sem tekin eru fyrir á hinu stóra* sviði stjórnmála.

Á síðunni hefur komið fram að fáar sem engar blaðagreinar hafa verið birtar á vegum samtakanna og lítið hefur verið gert að þeirra frumkvæði við að koma sjónarmiðum þeirra á framfæri. Vonandi verður breyting þar á, sérstaklega ef stefnt er að því að bjóða fram í næstkomandi alþingiskosningum sem og sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík. Enda hlýtur kynning á flokknum og stefnu hans að vera grundvallarforsenda fyrir því að hann nái einhverjum árangri.

-DS

*Sem er heldur lítið hér á Íslandi

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum – er vegið að stöðu og tækifærum kvenna?

barn

Í kjölfar greinar okkar „Réttur kvenna yfir eigin líkama og fóstureyðingar“ og pistils ungrar konu sem sagði frá reynslu sinni af fóstureyðingum í síðustu viku verður fjallað í um sjónarmið tengdum fóstureyðingum af félagslegum ástæðum.

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru án nokkurs vafa langtum algengasta ástæðan fyrir því að fóstureyðingar eru framkvæmdar. Á Íslandi voru árið 2011 framkvæmdar 936 fóstureyðingar af félagslegum ástæðum af 969 fóstureyðingum sem framkvæmdar voru það árið. Í nálægum ríkjum þar sem ástæður fóstureyðinga hafa verið kannaðar er félagslegi þátturinn án undantekninga algengasta ástæða fóstureyðinga.

Þessi staðreynd ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir samfélag okkar fyrir margar sakir. Ekki síst vegna jafnréttinda og kvenréttinda sjónarmiða sem venjulega er teflt fram sem réttlæting fyrir frjálsara aðgengi að fóstureyðingum. En jafnframt vegna þess að félagslegar fóstureyðingar eru ákveðinn mælikvarði á velgengni í samfélaginu.

Í upphafi er vert að fjalla örlítið um hvað almennt er flokkað sem fóstureyðing af félagslegum ástæðum. Í lögum nr. 25/1975 er fjallað um þetta.  Þar er fóstureyðing sögð heimil: Þegar þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Félagslegar ástæður eru sagðar vera: 1) Hafi kona alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði 2) Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysi annarra á heimilinu 3) Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt 4) Annarra ástæðna séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.

Framangreint er það sem lögin heimila. Athygli vekur að félagslegar ástæður snúa að neikvæðum áhrifum þess fyrir konuna að eignast barnið. Konum er gefin leið út og undan þessum áhrifum – fóstureyðing. Sumir hafa líkt þessu við kúgun samfélagsins gegn konum, þ.e.a.s. að sú staðreynd að hægt er að losa konuna við barnið með því að bjóða upp á fóstureyðingu veldur því að konan velur þá leið í stað þess að samfélagið kemur til móts við félagslegu erfiðu aðstæður konunnar til þess að hún geti bæði átt barnið og búið við mannsæmandi félagslegar aðstæður.

Því miður eru margar konur sem standa frammi fyrir því að velja milli starfsframa, námsframa eða fjárhagslegrar velgengni annarsvegar og hinsvegar þess að eignast barn. Það að konur séu settar í þá aðstöðu að þurfa að velja milli fóstureyðingar og framangreinds hlýtur frá jafnréttis- og kvenréttindasjónarmiðum að vera óásættanlegt. Í Bandaríkjunum eru til áhugaverð samtök, Feminists for Life, sem berjast fyrir bættum aðbúnaði kvenna þannig að þeim sé ekki ýtt út í fóstureyðingar. Er þörf á slíkum samtökum hér á landi?

Fóstureyðing er kannski auðveld lausn fyrir samfélagið – en byrði fyrir konuna og ógn við kvenréttindi

Samfélagið þarf að bregðast við og tryggja það að konum geti ekki verið þröngvað beint eða óbeint í fóstureyðingu. Ef við skoðum samfélag okkar gaumlega þá sjáum við að fóstureyðing er oft „easy way out“ en ætti ekki að þurfa. Því miður er oft sagt við ung pör að það sé best að bíða með barneignir þangað til eftir nám, eða eftir að starfsframi hefur komist á ról, sama viðhorf er uppi á teningnum í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á skoðanamyndun ungra tilvonandi mæðra þegar þær meta hvort fóstureyðing komi til greina eða ekki.

Í nýlegum pistli sem við vísuðum í um daginn, fjallað ung kona um það hvernig henni var í raun ýtt út í fóstureyðingu af barnsföðurnum. Hún leggur áherslu á að val um fóstureyðingu sé ávallt konunnar sjálfrar án utanaðkomandi áhrifa. En manni er spurn, getur kona valið fóstureyðingu án utanaðkomandi áhrifavalda? Er sanngjarnt að setja konu í þá stöðu að þurf að velja milli þess að eignast barn og búa við félagslegar viðunandi aðstæður? Eins og segir í gamalli auglýsingu er ekki bæði betra? Á kona á 21. öldinni ennþá að vera í þeirri stöðu að þurfa að velja?

Því miður er tilvist hinna afar opnu fóstureyðingamöguleika kvenna til þess fallin að minnka þrýsting á stjórnvöld og samfélag að mæta þörfum þeirra 936 barna og fjölskyldna þeirra sem var eytt í fyrra. Því miður er ekki nægilegur vilji til staðar til að beita þessu í jafnréttis umræðunni, því fóstureyðingar hafa verið brennimerkt sem jákvæður valkostur kvenna frá sjónarhóli kvenréttinda, en raunveruleg áhrif fóstureyðinga, félagslegar, andlega og líkamlega bæta stöðu kvenna ekkert.

Nauðsynlegt er að konum sé boðið upp á valkosti, eins og ættleiðingar, stuðning á meðgöngu og eftir fæðingu og umhverfi sem gerir konum auðvelt að eignast barn hvenær sem er á lífsleiðinni. Skóli eða starfsframi á ekki að koma í veg fyrir að kona geti átt eðlilegt líf sem móðir. Fátækt á ekki að vera ástæða fyrir fóstureyðingum. Aðstæður á heimilinu eiga ekki heldur að vera ástæða fyrir fóstureyðingu. Allt hljóta þetta að vera viðráðanlegar aðstæður ef reynt er til þaula að mæta þörfum hverju sinni. Það er því gleðilegt að sjá samtök eins og Valkostir – Samtök um úrræði við ótímabærum þungunum, tefla fram úrræðum fyrir konum á barneignaraldri. Vonum við að samtökin haldi áfram að stækka og að tilvist þeirra veki máls stjórnvalda á bættari aðbúnaði kvenna og nauðsyn þess að auka við valkostum þeirra.

Það að velja fóstureyðingu er aldrei auðvelt og oft eða nánast alltaf sitja eftir spurningar hjá konum um „Hvað hefði getað orðið?“, „Hvernig hefði barnið mitt litið út?“, „Hvernig móðir hefði ég orðið?“, „Get ég eignast barn aftur?“ og margar aðrar spurningar sem vakna.

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru fóstureyðingar sem tengjast ekki rétti konunnar yfir eigin líkama. Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru fóstureyðingar sem hægt er að koma í veg fyrir í flestum tilfellum.

Viljum við virkilega að konur neyðist til að velja? Viljum við búa í samfélagi þar sem 936 konur búa við þannig aðstæður að þau sjá ekki fram á að geta eignast börn?

-DS

Páfi segir af sér

BenediktXVIBenedikt XVI páfi hefur tilkynnt að hann muni fara úr embættinu 28. febrúar næstkomandi. Mun ástæðan fyrir þessu vera sú að aldur og heilsa komi í veg fyrir að hann sinni embættinu með þeim hætti sem hann telur embættið þurfa.

Það er óalgengt að páfi segi sig úr embætti og hafa flestir páfar látist í embætti. Síðasti páfi sem sagði af sér var Gregory XII árið 1415, en hann sagði af sér m.a. til að binda enda á átök innan kirkjunnar, en deilur stóðu milli aðila um hver ætti tilkall til embættisins og ruddi afsögn Gregory XII veginn fyrir nýjan páfa sem aðilar gátu verið sáttir með. Á undan Gregory XII má segja að síðasti óumdeildi páfi sem lét af embætti af sjálfsdáðum var Clelestine V á árinu 1294

Páfi hefur verið í embætti í 8 ár og verður ekki annað sagt en að margt hafi gerst á þeim tíma bæði í heiminum, en einnig á vettvangi kirkjunnar. Á meðan menn bera þakklæti til fráfarandi páfa er væntanlega mikil vinna framundan við að velja næsta páfa.

Réttur kvenna yfir eigin líkama og fóstureyðingar

Hversu margar fóstureyðingar eru raunverulega framkvæmdar á grundvelli þess að konan ræður yfir líkama sínum?

modirogbarnÍ vikunni hefur pistill ungrar hugrakkrar konu um reynslu hennar af fóstureyðingum farið um samskiptamiðla á netinu. Pistillinn var birtur undir titlinum „Ég fór í fóstureyðingu – mín saga og má lesa í heild sinni hérna.  Pistillinn er ekkert gamanmál og fjallar um efni sem er afar viðkvæmt, persónulegt og vekur mikilvægar spurningar um fóstureyðingar og það ferli sem val konunnar um fóstureyðingu byrjar. Það hefur vart verið auðvelt fyrir höfundinn að skrifa og birta pistilinn undir nafni og á hún þakkir fyrir að hafa vakið máls á þessu viðkvæma efni frá sjónarhóli sínum.

Pistillinn vekur upp mikilvægar spurningar um fóstureyðingar og regluverk það sem gildir um fóstureyðingar og raunveruleikann sem konur, börn og aðrir sem málið snertir standa frammi fyrir.

Mörg atriði sitja eftir þegar lestri pistilsins er lokið, má þar nefna staða og möguleika maka til að taka þátt í ákvörðunarferlinu, jafnrétti kynjanna, réttur konunnar til að ráða yfir eigin líkama, áhrifavaldar kvenna, félagslegar aðstæður kvenna og misnotkun annarra á stöðu þeirra, nauðung, o.s.frv.

Á næstunni langar okkur að fjalla nánar um sum þessara atriða, sér í lagi tvö þeirra. Annarsvegar rétt konunnar til að ráða yfir líkama sínum, sem ákvörðunarástæðu og þannig velja hvort hún vilji ganga í gegnum meðgönguna eða fara í fóstureyðingu. Hinsvegar er það spurningin um hver raunverulega velur og/eða hefur áhrif á þetta val konunnar um hvort hún fari í fóstureyðingu eða fæði barn sitt.

Réttur kvenna yfir eigin líkama, réttlætingarástæða fóstureyðinga?

Fóstureyðingar eru títt tengdar kvenréttindabaráttu og rétti kvenna, þá sérstaklega yfir líkama sínum. Þetta er eitthvað sem kemur alltaf upp í umræðunni. Í sjálfu sér er það ekki ómálefnalegt að kona geti valið það á fyrstu stigum meðgöngunnar hvort hún vilji ljúka henni snemma og komast hjá áhættunni sem fylgir meðgöngunni. [Innskot 14. feb. 2013: umræðunnar vegna er réttur konunnar til eigin líkama ekki bundinn við að lífshætta steðji að, heldur að konan geti komist hjá hverskyns líkamlegum óþægindum, tímabundnum eða varanlegum með fóstureyðingu, réttur yfir líkama sínum hlýtur þó eingöngu að snúa að áhrifum á líkama konunnar, hversu lítil eða mikil þau eru]. En þó vegast hér á ýmis sjónarmið um lífsvernd barns og rétt konu yfir líkama sínum sem ekki verður farið nánar í hérna. Enda er á fyrstu stigum meðgöngunnar, frá læknisfræðilegu sjónarhorni, minni áhætta að gangast undir fóstureyðingu en að eiga fulla meðgöngu. En í umræðunni og samkvæmt opinberum tölum fara konur sjaldan í fóstureyðingar vegna þess að þær vilja losna undan óþægindum og áhættum meðgöngunnar. Þau sjónarmið virðast ekki vera forsenda fyrir því að einstaklingur velji það að fara í fóstureyðingu.

Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu voru á árinu 2011 framkvæmdar 969 fóstureyðingar hér á landi. Af þeim voru 936 framkvæmdar af félagslegum ástæðum, 30 af læknisfræðilegum ástæðum og 3 framkvæmdar af samblandi af félagslegum og læknisfræðilegum ástæðum. Sú ákvörðun að ganga ekki með barn fulla meðgöngu vegna þeirra afleiðinga sem það hefur á líkama konunnar verður ekki flokkuð sem félagsleg.  Þessi títt nefnda forsenda fyrir frjálsu aðgengi kvenna að fóstureyðingum heldur því ekki nema í miklum minnihluta fóstureyðingar tilvika. Það hlýtur í öllu falli að vera ótækt að nota rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama sem réttlætingarástæðu fyrir fóstureyðingum af félagslegum toga. [Innskot 14. feb. 2013: Vert er að taka það fram að hér er litið svo á að fóstureyðing af félagslegum ástæðum snýr að aðstæðum eftir fæðingu og ástæða fóstureyðingarinnar hefur því ekki með líkama konunnar að gera, heldur þeim aðstæðum sem barnið og konan munu vera í eftir fæðingu, þ.a.l. er varhugavert að beita slíkri réttlætingarástæðu slíkar fóstureyðingar. Hvort ástæður fóstureyðingar séu rétt flokkaðar hjá landlæknisembættinu kemur ekki til skoðunar]  Slíkt er afar varhugavert, enda þarfnast  fóstureyðingar vegna félagslegra aðstæðna annars konar réttlætingu – en slíkar eru frekar til þess fallnar að brjóta gegn konum og geta leitt til þess að þær velji fóstureyðingu gegn sinni sannfæringu.

Fjallað verður nánar um þau tilvik síðar í vikunni og þann mikilvæga punkt pistlahöfundarins að ofan um að konur mega ekki lenda í þeim aðstæðum að annar einstaklingur beint eða óbeint neyðir hana til að fara í fóstureyðingu. En mikil hætta er á slíku þegar kemur að félagslegum fóstureyðingum.

-DS

Fylgstu með okkur á Twitter

TwitterNú er Trúmál.is komið á Twitter og hægt verður að fylgjast með nýjum færslum þar. Ef þú ert á Twitter hvetjum við þig til að fylgjast með Trúmál.is þar.  


Sóknargjald eða ríkisframlag?

kirkjanogpeningarUmræða um sóknargjöld og eðli þeirra sprettur reglulega upp. Iðulega er það í tengslum við umræðu um hvort þjóðkirkjan sé eiginleg ríkiskirkjan, en jafnframt í tengslum við jafnrétti og mismunun gagnvart þeim sem standa utan trúfélaga.

Sóknargjalda umræðan náði sig á flug þegar frumvarp um breytingar á lögum um trúfélög var til meðferðar á Alþingi. Í nefndarálitum var ítrekað lögð áhersla á afstöðu nefndarinnar (bæði meirihluta og minnihluta) að væru félagsgjöld sem íslenska ríkið hefur tekið að sér að innheimta en ekki framlög úr ríkissjóði með einstaklingum sem ríkissjóður greiði sóknargjöld með. (Sjá nefndarálit hér, hér og hér og fjölmiðlaumfjöllun hérna).

Vert er að taka það fram að þessi afstaða virðist vera í samræmi t.a.m. við afstöðuna sem fram kemur í samningi milli þjóðkirkjunnar og ríkisins um kirkjujarðir frá 1997 (sem finna má hérna). Því hefur verið haldið fram að umræddur samningur vísi til þess, (í 7. gr. og undir „um 7. gr.) að sóknargjöld séu styrkur. En slíkt virðist af textanum sjálfum ekki fá staðist, þvert á móti virðist samningurinn einmitt ganga útfrá því að um innheimtuhlutverk ríkisins sé að ræða. Ef skýring um 7. gr. er skoðuð segir:

„Átt er við styrki samkvæmt ákvörðun Alþingis, samningsbundnar og lögboðnar greiðslur, ss. greiðslur til Skálholtsstaðar, Hallgrímskirkju, Hóladómkirkju, Kirkjumiðstöðvar Austurlands, Löngumýrar í Skagafirði og Skálholtsskóla. Auk þess innheimtir ríkissjóður eins og verið hefur sóknar– og kirkjugarðsgjöld fyrir þjóðkirkju Íslands og innir af hendi lögbundnar greiðslur í…“

Með orðalaginu „Auk þess innheimtir ríkissjóður eins og verið hefur sóknar- og kirkjugarðsgjöld, er ljóst að það er ekki hluti af „styrkjum“, heldur þvert á móti aðskilið frá því. Og notkun hugtaksins „innheimtir“ vísar til innheimtuhlutverks ríkissjóðs.

Hér á árum áður voru sóknargjöld ekki innheimt af ríkinu, en lagaheimild var fyrir því að innheimta sóknargjöld samkvæmt ákveðnum reglum og í ákveðnu hlutfalli. Sóknir gátu haft talsverð áhrif á þetta hlutfall og veitt fjölskyldum sem áttu fjárhagslega erfitt afslátt eða jafnvel fellt niður sóknargjald vegna tiltekins tímabils.

peningarÍ dag verður þó að viðurkennast að lög um sóknargjöld sýna ekki jafnskýrlega að um sé að ræða „innheimtu“ hlutverk ríkisins. Þvert á móti virðist um styrk frá ríkinu að ræða. Núgildandi lög nr. 91/1987 segja í 1. gr. að þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt eftir því sem lög þessi ákveða. Þá segir í 2. gr., að ríkissjóður skuli skila 15. hvers mánaðar, af óskiptum tekjuskatti, fjárhæð er rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga. Lögin bera það ekki með sér að um sérstaka innheimtu sé að ræða, þó að vissulega hafi það að hafa verið tilgangurinn og skilningur manna framan af.

Sú framkvæmd sem í dag hefur myndast skapar þó viss vandkvæði sem gott væri fyrir alla aðila málsins að skoða. Svo virðist sem sóknir landsins og trúfélög fái sóknargjöld greidd frá ríkinu burtséð frá því hvort að allir sóknarmeðlimir yfir 16 ára aldri hafi greitt tekjuskatt eða ekki til ríkisins. Þetta felur það í sér að af tekjuskatti tekjuhárra einstaklinga kunni einhver fjárhæð að renna sem sóknargjald fyrir aðra einstaklinga sem kunna að vera tekjulágir eða tekjulausir, enda hafi þeir ekki greitt tekjuskatt né útsvar. Þetta er afar annkaraleg niðurstaða. Óþægilegra er þó sú aðstaða sem í dag er komin upp þar sem þeir sem standa utan trúar- og lífsskoðunarfélaga er mismunað þar sem þeir greiða í engu lægri tekjuskatt en þeir sem greiða sóknargjöld og fer fjárhæðin beint í ríkiskassan en ekki t.d. til Háskóla Íslands eins og áður var. Þá er hafa trúfélög ekkert um það að segja hver fjárhæð sóknargjaldsins er hverju sinni - sem er í ósamræmi við hugmynd um að sóknargjöld séu raunverulega innheimt meðlimagjöld kirkjunnar. Þannig getur trúfélag í fjárhagslegum erfiðleikum ekki aukið sóknargjöld sín til að mæta raunverulegri fjárþörf sinni.

peningarogkirkjanÞessi framkvæmd kann að vekja raunverulegar spurningar um eðli sóknargjaldsins í dag – burtséð frá hverskonar hefðum eða skilningi sem menn hafa í gegnum árin lagt í sóknargjaldið. Mikilvægt hlýtur að vera í ljósi afstöðu Alþingis skv. framangreindum nefndarálitum að skýra eðli sóknargjaldsins betur í lögum um sóknargjöld og gera innheimtu þeirra gegnsærri á sama hátt og innheimta vegna ríkisútvarpsins og framkvæmdastjóðs aldraða er afar skýr í ágúst árlega.

Trúfélög hljóta þó að þykja mikilvægt að vera óháð ríkisvaldinu og vera raunverulega sjálfstæð. Þannig hljóta trúfélög í landinu að vilja vera laus við þá hættu að ríkið velji að hætta innheimtuhlutverki sínu án mikils fyrirvara og þannig skapa trúfélögum erfiðleikum hvað tekjustofna sína varðar og/eða hafa bein áhrif á fjárhæð sóknargjalda. Trúfélag sem er háð innheimtu ríkisins á sóknargjöldum hlýtur að vilja endurskoða stöðu sína og leggja áherslu á það að afla teknu sjálfstætt án íhlutunar, aðstoðar eða aðkomu ríkisins. Það hlýtur að vera gott fyrir alla aðila og trúfélagsmeðlimi að vinna að því að breyta núverandi fyrirkomulagi í þrepum þannig að sjálfstæði trúfélaga um innheimtu sóknar og/eða meðlimagjalda færist til trúfélaga og þ.a.l. ákvörðun fjárhæðarinnar eða að lágmarki að núverandi kerfi verði gert gegnsærra og skýrt til muna.

-DS