Mánaðarskipt greinasafn fyrir: mars 2013

Vatnaskógur, Vindáshlíð, Ölver, Kaldársel og Hólavatn

VatnaskogurSkráning hófst í sumarbúðir KFUM og K fyrir rúmri viku og er skráning enn í fullum gangi. Hvetjum við foreldra barna á aldrinum 6-17 ára að skoða þær sumarbúðir og þá flokka sem í boði er fyrir börnin. Fyrir yngri börnin er fjölbreytt starf í Kaldárseli og á hólavatni en frá 9 ára aldri er um að gera að kíkja í Vatnaskóg, Vindáshlíð eða Ölver. Hægt er að skrá sig í gegnum netið á vefsíðu KFUM og K hérna. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofuna á Holtavegi 28 í síma 588 8899.

Við hvetjum áhugasama til að skoða þetta. Þetta er einstök upplifun fyrir börnin sem eignast oft á tíðum vinskap út lífið og yndislegar minningar. Í sumarbúðunum er fyrirmyndar aðstaða til útiveru og leikja, æðislegur matur er borinn á borð og öll kvöld enda á eftirminnilegum kvöldvökum þar sem  burgðið er á leik og sungið. Á kvöldin og morgnanna er svo fræðsla um Guðs orð.

Þetta eru frábærir þroskandi staðir þar sem fjölbreytt dagskrá er í boði við allra hæfi!

Pálmasunnudagur 2013

Assisi-frescoes-entry-into-jerusalem-pietro_lorenzettiÞá er pálmasunnudagur ársins 2013 genginn í garð og er atburða þessa dags minnst í kristilegum söfnuðum landsins. Pálmasunnudagurinn markar jafnframt upphaf páskavikunnar, sem einnig er gjarnan nefnd dymbilvika, kyrravika, eða helga vika.

Njótið dagsins í dag og vikunnar og notið tækifærið til þess að staldra við og minnast atburða páskanna og þess sem Jesús boðaði.

Predikarar með lífverði og fljúgandi um á einkaþotum?

einkaþotaEr eðlilegt eða réttlætanlegt að kristnum predikara sem gengur vel í lífinu, selur t.d. mikið af bókum, er með sjónvarpsþátt, fljúgi um á einkaþotu, sé með lífverði, gisti á flottustu hótelherbergjum o.s.frv.? Skiptir það okkur yfir höfuð máli? Ætti það að skipta okkur máli?

Í gær á vefsíðu Charisma Magazine var að finna afar áhugaverða grein eftir J. Lee Grady undir fyrirsögninni „No More Pentecostal Popemobiles“. Þó að tilefni greinarinnar sé að einhverju leiti kjör Frans páfa, að þá snýr greinin að sjálfsgagnrýni á hin yfirdrifnu veraldlegu gæði sem margir söfnuðir, og sér í lagi margir predikarar og prestar leggja áherslu á, hvort heldur það er í persónulega lífinu eða í krafti hlutverks síns innan kirkjunnar.

Við hvetjum þá sem hafa góð tök á ensku að smella hérna og lesa greinina sjálfa, því hún er vel þess virði að lesa. En fyrir þá sem hafa minni tíma eða kjósa lestur á íslensku er vel þess virði að snerta á nokkrum þeim atriðum sem greinin snýr að.

——

POPEFRANCISGreinarhöfundur er ekki kaþólskur og hefur s.s. ekki fylgst náið með né skilið þá kirkjupólitík sem á sér stað innan Vatíkansins og veltir því upp hversvegna í ósköpunum þessi nýji páfi sem er frá Argentínu sé svona vinsæll.

Það er kannski auðvelt að skilja það. Hann er auðmjúkur. Hann eldar fyrir sjálfan sig. Hann valdi að lifa í lítilli íbúð í Buenos Aires í stað hallar erkibiskupsins. Og þegar hann var leiðtogi kaþólskra Argentínumanna tók hann strætó til að komast á milli staða. Hann tók strætó aftur eftir að hann var kosinn páfi í síðustu viku í Róm.

Páfinn meira að segja skaust út úr Vatíkaninu eftir kosninguna til þess að lofa Guð með almenningi – án lífvarða og án páfabílsins sem ýmsir kalla „Popemobile“.

Að sögn bað hann kolelga sína í Argentínu að sleppa því að mæta til Rómarborgar þegar hann verður settur í embættið og gefa þess í stað peningana sem þeir hefðu eytt í flugfarið til fátækra.

Að þessu sögðu er rétt að velta fyrir sér hvort lesendur sjái einhvern greinarmun á einföldum lífstíl Frans páfa og þeirri yfirdrifnu velmegun sem sést stundum hjá sumum hvítasunnu og karísmatískum leiðtogum.

Því miður er það þannig, þó sem betur fer sé ástandið ekki með þessum hætti á Íslandi, a.m.k. ekki svo ég viti til, að sér í lagi í Norður-Ameríku misnota kristnir leiðtogar það fjármagn sem þeim stendur til boða og jafnvel eyða því í vitleysu.

Það er ekki verið að kalla eftir því að prestar og kristnir leiðtogar lifi í fátækt og neiti sér um allt veraldlegt. Heldur er greinin ákveðin áskorun til kristinnar kirkju að gefa gaum að þeim sem minna mega sín og vara á sama tíma við þá miklu eyðslu, sem er í  raun misnotkun á auð, sem því miður sést stundum.

lifverdirÞó að við á Íslandi verðum lítið vör við lífverði, hótelherbergi sem kosti milljón krónur hver nótt, einkaþotur, kröfur um limmósínur eða stöðugt betl sjónvarpspredikara (kannski einna helst þetta síðastnefnda), að þá getum við samt haft áhrif til hins betra. Við ættum t.d. ekki að leyfa gestapredikurum að komast upp með fáránlegar kröfur ef þær eru gerðar, jafnvel þó að viðkomandi sé nafntogaður og frægur. Slíkt á ekki að skipta máli.

——

Við á Trúmál.is vonum að sjálfsögðu að Frans páfi haldi áfram að vera sú fyrirmynd sem hann virðist hafa verið argentínsku kirkjunni. Jafnframt vonum við að leiðtogar kirkna um allan heim verði vakandi yfir málefnum þeirra er minna mega sín og hlutverki kirkjunnar gagnvart þeim. Einnig er mikilvægt að kirkjan sé meðvituð um hættuna sem felst í þeirri mistnokun á fjármunum sem stundum vill eiga sér stað innan kirkjunnar. Þá erum við ekki að vísa til fjárdráttar, heldur óábyrga notkun og umframeyðslu á fjármunum sem kirkjunni hefur verið falið af fúsum gefendum til þess að ávaxta, til að vinna þá vinnu sem Jesús hefur falið henni.

-D.S.

Myndband: Kínverjar taka á móti Biblíunni

200px-Open_bible_01_01_svgTökum við mannréttindum okkar sem sjálfsögðum hlut? Er aðgangur að Biblíunni sjálfsagður um allan heim? Í Kína eru talsverðar takmarkanir þegar kemur að mannréttindum sem við á Vesturlöndum tökum sem sjálfsögðum hlut. Ritfrelsi, trúfrelsi, tjáningarfrelsi eru að mörgu leiti takmörkuðu í hinu fjölmenna ríki Kínverja. Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá hóp Kínverja taka við Biblíum sem dreift hefur verið. Það er ljóst að mikil spenna hefur ríkt í hópnum og ánægjan er mikil.

Trúmál í skólakerfinu – Harmageddon o.fl.

HarmageddonÞáttastjórnendur útvarpsþáttarins Harmageddon eru miklir áhugamenn um trú og gera trúmál reglulega að umtalsefni í útvarpsþætti sínum á útvarpsstöð sinni. Þeir fara þó ekki í felur með það að þeir séu trúlausir og hafa iðulega miklar efasemdir um það gildi sem trúaðir einstaklingar sjá í trú sinni. Um daginn, 7. mars sl. mætti Dögg Harðardóttir til þeirra í viðtal en hún er í stjórn félagsins Nemendur og Trú sem við kynntum fyrir skömmu hérna.

Viðtalið bar, eins ög mörg önnur viðtöl þeirra, keim af því að vera einhverskonar yfirheyrsla um raunverulegt gildi kristinnar trúar. Viðtalið má finna og hlusta á í heild sinni hérna.

Í kjölfar viðtalsins hafa ýmsar umræður skapast, bæði á fésbókarsíðu þáttarins hérna og þá hefur Kristinn Theodórsson, varamaður í stjórn Siðmenntar fjallað um það hérna.

Málefnið, nemendur og trú, er vel þess virði að ræða, og í raun nauðsynlegt að ræða það ítarlega og með hliðsjón af fjölmörgum sjónarhornum. Mörg álitaefni koma upp og ekki er einsýnt að sú leið sem Reykjavíkurborg hefur valið að fara í þessum efnum, með t.d. innleiðingu reglna sinna um samskipti trúfélaga og skóla, séu til þess fallin að vernda mannréttindi barna og starfsmanna borgarinnar, t.a.m. trúfrelsið.

Meðal þess sem eðlilegt er að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd, eru mörk innrætingar tiltekinnar skoðana og kynningar á tilteknum skoðunum. Í umræðunni virðist vera talsverð hræðsla þegar kemur að því að leyfa trúfélögum að tjá sig inn í skólanum og kynna sjónarmið sín, þess í stað þykir eðlilegra að „hlutlaus“ kennari gefi hlutlausa lýsingu, því þannig sé um kynningu að ræða en ekki innrætingu. Þetta viðhorf er í sumum tilvikum eðlilegt en kann jafnframt að vera varasamt (hvort sem einstaklingur er trúlaus eða ekki), því kennarinn mun iðulega hafa einhverja persónulega skoðun og getur alltaf haft áhrif á kynningu sína, sem kann þá að vera minna hlutlausari. Þegar hinsvegar einstaklingar sem opinskátt eru ákveðinnar skoðunar, tjá sig um hana, að þá er hættan á „innrætingu“ töluvert lægri, enda engin feluleikur, meðvitaður eða ómeðvitaður, í gangi.

Önnur sjónarmið sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér er réttur foreldra til að ráða menntun barns síns, réttur barnsins, hlutverk ríkisvaldsins, gildi hlutleysis í trúmálum, sköpun fordóma innan skólakerfisins og svona mætti lengi telja. Jafnframt verður að hafa í huga að skólinn hlýtur að hafa það hlutverk að undirbúa börnin undir framtíðina og heiminn.

Því miður er það hinsvegar þannig, og þátturinn sem ég vísaði til að ofan, að umræða um þessi mál dettur í sama farveg og endranær – leiðindaröfl um öfgar og ætlaðar ætlanir þeirra sem eru á öndverðu meiði. Margir grípa, eins og svo oft, stöðuna í Bandaríkjunum og eru ekki lengi að bera framtíðina saman við stöðu trúmála í Bandaríkjunum. Öfgar sem þar er að finna rata hratt og örugglega í umræðuna um hvernig málum er háttað, eða ætti að vera háttað hér á landi. Sá samanburður er þó iðulega til þess fallinn að afvegaleiða umræðuna.

Umræðunni er að sjálfsögðu fagnað, en á sama tíma væri gaman að sjá hana markvissari og fjalla um fleiri atriði en hin týpísku hártogunaratriði sem umræðan vill oft detta í á opinberum vettvangi. Því miður.

Hver veit nema tími gefist til þess að kafa dýpra í þessa umræðu á síðum Trúmál.is í nálægri framtíð.

D.S.