Mánaðarskipt greinasafn fyrir: júní 2013

Nicky Cruz í áhugaverðu viðtali – Myndband

nickycruzogdavidwilkersonNicky Cruz er mörgum kunnur, sérstaklega aðdáendum bókarinnar (og kvikmyndarinnar) Krossinn og hnífsblaðið, eftir David Wilkerson, sem og bókina um hann sjálfan „Run Baby Run“ sem í íslenskri þýðingu heitir Hlauptu drengur hlauptu. Nicky Cruz átti um margt erfiða barnæsku og segist sjálfur ekki hafa upplifað kærleika heimafyrir. Hann fluttist 15 ára frá Púertó Ríkó til New York og byrjaði fljótlega þátttöku í gengjum og var um tíma leiðtogi Mau Mau gengisins í New York.

Myndbandið að neðan er viðtal frá árinu 1991 og er um margt áhugavert, sérstaklega hvað bakgrunn hans varðar og mikilvægi kærleikans. Athyglisverð er frásögn Nicky Cruz af hundi sem kenndi honum sitthvað um kærleika þegar Nicky var átta ára (hann byrjar að ræða þetta á 4. mínútunni. En leyfum Nicky Cruz að segja frá því sjálfur.

Hundavina samkomur í sumar

hundarikirkjuÁ Íslandi færist gæludýraeign í vöxt. Sérstaklega hefur hundaeigendum fjölgað á síðastliðnum árum og er það jákvæð þróun. Samband manns og hunds getur orðið ótrúlega sterkt og viðurnefnið „besti vinur mannsins“ hefur ítrekað sannað sig. Sjálfur á ég hund og hef oft velt fyrir mér að taka hann með mér á sunnudögum í kirkjuna, eða gott betur, að eiga notalega kristilega samverustund  úti með öðrum hundaeigendum.

Nú þegar sumarið er komið er tilvalinn tími fyrir kirkjur að velta fyrir sér hvernig hægt er að nýta sér sumarveðrið á Íslandi sem stoppar allt of stutt við. Hundavina samkomur er einn möguleiki sem ég hvet hugrakka safnaðarleiðtoga til að skoða vel og bjóða upp á.

Þessu tengdu deili ég með ykkur grein um kirkju í Bandaríkjunum þar sem tekin var ákvörðun um að leyfa fólki að koma með hundana sína á samkomur. Þetta hefur að sögn reynst afar skemmtilegt og vakið mikla lukku. Hundarnir eru eigendum sínum til sóma og aðrir safnaðarmeðlimir virðast afar sáttir við þessa nýjung. Meira að segja þeir sem eru með hundaofnæmi hafa ekki látið sig vanta í kirkjuna, enda sitja hundaeigendurnir vanalega aftast í kirkjunni til þess að veita öðrum eilítið meira rými, og hefur uppátækið því ekki valdið neinum ama. Fyrir áhugasama má sjá vídeó og umfjöllun um þessa stórskemmtilegu nýjung og hugrökku kirkju hérna.

Ætli einhver á Íslandi þori að taka skref í þessa átt?

D.S.

Vinsælli en Bieber og Fimmtíu gráir skuggar

Flag_of_Norway.svgÁhugaverð tíðindi berast frá Norðmönnum þessa dagana. Biblían hefur nú verið í toppsætum bókasölulista landsins í samanlagt 54 vikur á síðasta 56 vikna tímabili. Þó það ætti ekki að koma sérstaklega á óvart ef til langstíma er litið, bendir tímaritið Guardian á að vinsældir Biblíunnar hafi á þessu tímabili slegið út „sjálfsævisögu“ Justin Bieber og hina geysivinsælu bók Fimmtíu gráir skuggar. En þetta þykir mörgum ákveðin tíðindi. Um er að ræða nýja norska þýðingu á Biblíunni.

Þessi þróun hefur víða þótt athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess að mönnum þykir Norðmenn hafa fjarlægst trúarlegum málefnum á síðastliðnum árum og áratugum og sumir segja Noreg eitt trúlausasta land Evrópu. Kirkjuleiðtogar í Noregi eru þó ekki á einu máli um að umbylting eigi sér stað í Noregi. Ekki er merkjanlegur munur á kirkjusókn, en um 1% þjóðarinnar (í Noregi búa um 5 milljónir) sækir guðsþjónustur reglulega. Aðrir benda á það að Norðmenn eru í eðli sínu lítillátir og iðka trú sína heima hjá sér og sækja ekki endilega trúarlegar samkomur. Engu að síður verður að telja þessar fregnir sé ákveðinn vitnisburður um hugarástand þessarar þjóðar.

Boðskapur Biblíunnar rýrist ekki með árunum, og áhugi okkar á þessari merku bók fer augljóslega ekki minnkandi.

Sjá meira um málið hérna og hérna

-DS

Þrjár hártoganir í kjölfar predikunar biskups

Að vanda þykir ákveðnum hópi mikilvægt að gera athugasemdir við orð og verk kirkjunnar sem samrýmast ekki lífsafstöðu þeirra. Í sjálfu sér er þetta ekki slæmt og oft má heyra málefnalega og jafnvel afar mikilvæga gagnrýni á kirkjuna, enda er hún ekki hafin yfir gagnrýni. En stundum koma fram innihaldslitlar athugasemdir sem eru í raun lítið annað en hártoganir og virðast settar fram til þess eitt að gera athugasemdir við eitthvað. Flestir sem fjalla á gagnrýninn hátt um atriði í samfélaginu, sérstaklega á netinu, hafa gerst sekir um að tefla fram slíkum hártogunum og á það jafnt við um trúaða sem trúlausa einstaklinga.

Sigurður Hólm Gunnarsson gerir á vefsíðunni Skoðun þrjár athugasemdir við predikun biskups í grein með sama nafni. Þar setur hann fram athugasemdir við neðangreind ummæli biskups, en athugasemdirnar eru lítið annað en hártoganir þegar greinin er lesin. Afstaða Sigurðar til kirkjunnar hefur vafalaust haft þar áhrif á. Stundum langar greinarhöfundum svo mikið að gagnrýna eitthvað að athugasemdir sem settar eru fram eru lítið annað en leiðinda hártoganir sem afvegaleiða lesendur sem taka skilning greinarhöfundar trúanlega.

Ekki verður hér gerð nokkur tilraun til að verja eða réttlæta ummæli biskups en ég sé ástæðu til að fetta fingur, nú eða hártogast, út í grein Sigurðar.

Í fyrsta lagi sér Sigurður ástæðu til þess að gera athugasemd við eftirfarandi setningu biskups:

„Fyrir 1000 árum eða svo gerði Alþingi, þá samankomið á Þingvöllum sáttmála fyrir hönd þjóðarinnar. Þar var fest í lög „að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka….“ Það var talin forsenda friðar í landinu að við hefðum ein lög og einn sið.“

Athugasemd Sigurðar ætti ekki að beina gegn ummælum biskups, mun frekar ættu þau að beinast gegn sögu og menningu þess tíma sem um ræðir. Því miður var hugtakið trúfrelsi lítið þekkt og mannréttindi eins og við þekkjum þau í dag enn minna þekkt á þeim tíma sem biskup vísar til. Þá virðist það hafa verið pólitísk afstaða ráðandi aðila á þeim tíma að með einum lögum og einum siði kæmist á friður í landinu, en einhver ófriður virðist hafa ríkt á þessum tíma sem nauðsyn þótti að kveða niður. Sigurður kvartar yfir því að aldrei megi minnast á aðferðarfræði við „kristnun“ landsins. En það er útúrsnúningur því ummæli biskups snúa ekki að þessu.

Í öðru lagi gerir Sigurður athugasemd við eftirfarandi ummæli biskups:

„Þátttaka þingheims og gesta í guðsþjónustu fyrir þingsetningu ár hvert minnir á þennan sáttmála er Alþingi gerði fyrir hönd þjóðarinnar á Þingvöllum forðum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar stendur að íslensk þjóðmenning verði í hávegum höfð, en sú menning er sprottin úr þeim kristna jarðvegi er festur var á Þingvöllum forðum.“

Enn og aftur snýr gagnrýni Sigurðar ekki svo mikið að ummælum biskups eins og hún snýr að ríkjandi afstöðu samfélagsins á Íslandi (og raunar meirihluta heimsins, hverrar trúar eða þjóðernis þeir voru) fyrir 1000 árum, sér í lagi hvað jafnrétti kvenna og umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum á Íslandi varðar. Athugasemdin missir því marks því hún stendur ekki í samhengi við ummæli biskups.

Að lokum gerir Sigurður athugasemd við eftirfarandi:

Kirkjan hefur það hlutverk að gæta menningarverðmæta þjóðarinnar. Hún hefur það hlutverk að þjóna öllum þeim er til hennar leita.“

Hér er það sem ég myndi kalla klassíska hártogun. Vissulega er það rétt að tiltekin þjónusta kirkjunnar er samkvæmt innri reglum hennar ekki í boði fyrir þá sem standa utan við Þjóðkirkjunnar. En hvað felst raunverulega í ummælum biskups. Biskup segir að hlutverk kirkjunnar er að þjóna öllum sem til hennar leita. Þessi setning er rétt og í samræmi við boðskap Jesú. Kristin kirkja á að sýna þeim sem hún mætir kærleika og á að þjóna þeim. Hvort kirkjan standi sig í þessu hlutverki er umdeilanlegt og hverskonar þjónusta um ræðir má vafalítið hártogast um. Biskup heldur því ekki fram að kirkjan fullnægi þessu hlutverki sínu, en það breytir í engu að hlutverk kirkjunnar sannanlega er að þjóna þeim sem til hennar leita. Kristin trú setur háleit markmið sem erfitt eða jafnvel ómögulegt er að ná á einni ævi, en markmiðin og hlutverkið standa engu að síður.

Að því marki sem athugasemdum Sigurðar var beint að ræðu og orðum biskups misstu þau því marks.

-DS

Biskup á samfélagsvefjum – snilld eða flopp?

TwitterEins og flestir þeir sem skoðað hafa fréttamiðla landsins í dag hafa vafalaust tekið verður predikun frú Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups sett inn á samfélagsvefinn Twitter (hér má finna Twitter síðu biskups). Frú Agnes mun predika við þingsetningarathöfn Alþingis í dag kl 13:30 sem að venju hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með ræðu biskups í gegnum Twitter er því um að gera að fara á vefsíðuna fljótlega eftir klukkan hálf tvö í dag, en guðsþjónustunni líkur klukkan tvö.

Ekki nóg með það að predikunin fari inn á Twitter, heldur er hvatt til samræðna á Twitter um predikunina undir merkinu #thingsetning. Áhugasamir sem kunna á Twitter geta því fylgst vel með gangi mála í Dómkirkjunni á eftir.

Það verður að viðurkennast að ég er ekki viss hver hugmyndafræðin er að baki þessu hjá biskupi. Er ætlunin sú að taka fyrsta skrefið í átt að frekari Twitter-væðingu kirkjunnar og fagnaðarerindisins, er ætlunin sú að auka við þjónustu og fylgja takti tímans hvað tækniframfarir varða? Er markmiðið að bjóða upp á samfélag utanum predikunina á netmiðlum? Er kannski markmiðið að vera reyna að skapa jákvæða fjölmiðlaumfjöllun um guðsþjónustuna við þingsetningu sem því miður hefur í seinni tíð hefur verið uppspretta neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar frá háværum minnihluta þingmanna og lobbýista gegn Þjóðkirkjunni.

Ég vona að þetta framtak sé ekki einhverskonar tilraun til jákvæðrar innantómrar fjölmiðlaumfjöllunar, því hún kemur og fer. Ég vona innilega að þessi nýting kirkjunnar á samfélagsvefjum sé jákvætt skref í átt að frekari útbreiðslu fagnaðarerindisins og hlakka til að sjá hvernig þetta verður framkvæmt og umfram allt hvernig þessu verður tekið.

Þetta gæti verið stórsniðug og þetta gæti orðið að floppi, en það verður ekki tekið frá þeim sem að þessu standa að það þarf hugrekki til nýjunga og það er alltaf gaman að sjá slíkt hugrekki innan kirkjunnar.

Hvað finnst þér um þetta framtak?

-DS

Krossinn í fjölmiðlum – safnaðarátökin

dvlogoÁ síðum DV, sem oft hefur verið litið niður á sem ófréttnæmur fjölmiðill, hafa síðastliðna daga birst fréttir af átökum innan Krossins. Að vanda ber fjölmiðlaflutningurinn æsifréttabrag á sér og manni er um margt spurn hvað er fréttnæmt við átök á aðalfundi safnaðar þar sem eru færri en 500 meðlimir (þó að vissulega kunni lögreglumál almennt að vera fréttaefni). Svo virðist sem þeir sem standi málinu næst kunni vel við umfjöllun blaðsins um átökin en blaðið vísar talsvert til ummæla nafngreindra sem ónafngreindra heimildarmanna sem hika ekki við að segja frá gangi mála innan safnaðarins.

Því miður er það þó svo að umrædd átök hljóta í besta falli að vera fjölskylduharmleikur. Svo virðist sem fjölskyldumeðlimir sláist um völd og titla innan safnaðarins. Þetta er um margt sorglegt og á allan hátt er þetta slæmt fordæmi fyrir starfsemi kristilegra safnaða í landinu. Að leiða söfnuð er í sjálfu sér ekki eftirsóknarvert hlutverk frá sjónarhorni heimsins, enda er fyrst og fremst um þjónustuhlutverk að ræða, en því miður hefur maðurinn skapað þvílíka umgjörð og upphafið tiltekna einstaklinga þannig að sóst er eftir leiðtogahlutverkum kirkjunnar með kjafti og klóm og án þess að hvatinn til þjónustunnar ráði þar mestu.

KrossinnÍ ljósi fjölskyldutengsla þeirra sem þarna eigast við er manni hugsað til kaþólsku kirkjunnar og þess fyrirkomulags sem þar hefur ríkt í aldarraðir að prestar gifti sig ekki og eigi þ.a.l. ekki börn sjálfir. Þó að það fyrirkomulag hafi verið gagnrýnt málefnalega í gegnum tíðina og oft með réttu, er ljóst að það fyrirkomulag hefur vafalítið komið í veg fyrir fjölskylduátök svipuð þeim sem nú eru í gangi innan Krossins og hefðu jafnvel komið í veg fyrir þau átök sem við nú verðum vitni að.

En það læðist að manni grunur að ætlun þessara einstaklinga sé ekki endilega að starfa fyrir Drottinn Jesú í þjónustuhlutverkis safnaðarhirðis og forstöðumanns kirkju sem þjónar 500 einstaklingum. Manni er sannanlega spurn hvert raunverulegt markmið þessara einstaklinga sé, og hver raunveruleg afstaða þeirra til hlutverksins sem þau sækja eftir sé, þ.e.a.s. enda virðast átökin þvílík að beita þurfi atbeina lögreglu til þess að friða hópinn.

Því miður er það svo að í aldanna rás hefur kirkjupólítík verið þvílík átakapólitík og málefnin eru oft afar viðkvæm og persónuleg, hvort sem um fjölskyldutengsl er að ræða eða ekki. En betur má ef duga skal, átakapólitíkin sem ríkt hefur innan kirkjunnar á að sjálfsögðu ekki heima þar.

Við vonumst til þess að sá ágreiningur sem til staðar er innan safnaðarins ljúki í sátt og hafi ekki slæm áhrif á söfnuðinn. Í ljósi fjölskylduáhrifanna veltir maður fyrir sér hvort það væri ekki heillavænlegast að umrædd fjölskylda sem stýrt hefur söfnuðinum í áratugi stigi til hliðar, þó ekki væri nema um stundarsakir, og byggði þess í stað upp framtíðarleiðtoga og þjóna innan safnaðarins til þess að taka við því mikla ábyrgðarhlutverki sem forstöðumannshlutverkið er.

-DS