Mánaðarskipt greinasafn fyrir: september 2013

Símtöl páfa

pope-francis_2663236bEitt af því sem hefur aukið vinsældir Frans páfa meðal almennings er að hann á það til að taka upp símtólið og hringja í einstaklinga innan kaþólsku kirkjunnar sem hafa sent honum bréf. Nú nýverið hringdi páfinn í Önnu Romano sem hafði skrifað páfa þar sem hún sagði frá því að hún hefði uppgötvað að barnsfaðir hennar væri giftur. Eftir að hún sagði kærasta sínum frá því að hún væri ólétt, sagði hann henni að hann væri giftur og sagði henni að fara í fóstureyðingu. Fréttasíðum ber ekki saman um hvort þeirra yfirgaf hinn einstaklinginn, en eitt er víst og það er að þau slitu sambandi sínu og hún var staðráðin í að fara ekki í fóstureyðingu.

Þegar símtalið kom brá konunni þegar hún uppgötvaði hver var á línunni. Þegar hún deildi áhyggjum sínum með honum um hvort nokkur prestur myndi vilja skíra barnið, þar sem það var getið utan hjónabands, þá sagði hann henni að ef hún lenti í vandræðum myndi hann sjálfur skíra barnið. Hann uppörvaði hana síðan og sagði henni að hún væri hugrökk og sterk að ákveða að hún myndi halda barninu.

Er þetta jákvætt og hefur aukið vinsældir Frans páfa að hann sé tilbúinn að taka frá tíma til að hringja í „sóknarbörn“ sín sem koma til hans með áhyggjur sínar bréfleiðis.

Heimildir: Hér er frétt breska blaðsins Telegraph um málið og hér má finna umfjöllun National Catholic Register um málið.

-Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson

Vesalingarnir – Biskupinn

VesalingarnirVorið 2012, sá ég leikritið um Vesalingana í fyrsta skipti í Þjóðleikhúsinu á Íslandi. Þessi saga snerti við mér og þegar ég komst að því að kvikmyndin væri í býgerð með Hugh Jackman sem Jean Valjean, þá var ég mjög spenntur. Ég sá myndina, keypti DVD diskinn og undanfarið hef ég verið að hlusta á hljóðbókina á meðan ég hjóla eða er í vinnunni að gera hluti sem þarfnast ekki of mikillar einbeitingar.

Það er margt í sögunni sem vekur upp ýmsar hugsanir en hér langar mig að skrifa aðeins um mikilvægi hlutverk biskupsins. Bókin byrjar með þó nokkrum köflum sem lýsa góðmennsku biskupsins, heilindi hans og þannig byggir bókin rólega upp að því að Jean Valjean sé kynntur til sögunnar og hittir þennan merka biskup. Í kvikmyndinni hins vegar, þá er biskupinn á skjánum í minna en 5 mínútur, en áhrif hans í sögunni eru ótrúleg. Hinn góði biskup er sá sem sýnir Jean Valjean náð og kærleika Guðs í fyrsta sinn. Mig langar því að draga fram nokkur atriði um þetta hlutverk.

  1. Biskupinn sér þörf Jean Valjean, niðurbrotinn manns, og býður honum inn að þiggja næringu og hvíld. Á svipaðan hátt sá Guð okkar andlegu þörf og sendi því son sinn Jesú í heiminn til að mæta þörfinni, gefa okkur sinn Anda og bjóða okkur hvíld í honum: Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. (Matt. 11:28).
  2. Biskupinn kemur fram við Jean Valjean sem jafningja, og ekki bara það heldur sem “virtan gest”. Það sem er biskupsins er einnig Jean Valjean’s því að allt sem að biskupinn á, það á hann til að deila með sér.
    Guð kom til jarðar sem maður í Jesú Kristi, fæddur í jötu og hann mætir okkur að mörgu leyti sem jafningjum jafnvel þótt hann sé Guð. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður. (Filippíbréfið, 2:6-7)
  3. Hann sýndi Valjean náð Guðs þegar hann sagði að Valjean hefði verið að segja satt og tók þannig á sig tap vegna synd Valjeans. En ekki bara það, heldur sýndi biskupinn Valjean líka kærleika með að gefa honum meira silfur. Loksins minnir hann Valjean á að snúa frá gamla lífinu og nota þessa náð sem hann þáði til að verða heiðarlegur maður á ný. Á svipaðan en jafnvel enn stórkostlegri hátt, þá segir Jesús, frammi fyrir Guði, að við eigum ekki að fá neina refsingu vegna neinnar sektar. En hann gerir það ekki með að beygja sannleikann á neinn hátt. Í staðinn þá borgaði Jesús nú þegar fyrir öll okkar mistök og syndir og gefur okkur líf vegna þess hve mikið hann elskar okkur. Hann var tilbúinn að gefa líf sitt fyrir okkur og hvern sem er sem vill þiggja þessa gjöf hans. Á sama tíma, þá minnir hann okkuar á að syndga ekki framar heldur ganga veg réttlætisins.
    Hann rétti sig upp og sagði við hana: “Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?” En hún sagði: “Enginn, Drottinn.” Jesús mælti: “Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.” (Jóh. 8:10-11)

Þessi gæska. Þessi náð. Þessi kærleikur sem biskupinn sýnir Jean Valjean verður til þess að líf hans umbreytist og hann verður að nýjum manni, sem lifir fyrir Guð, hjálpar fátækum og reynir hvað hann getur að gera hið rétta. Hann þarf enn að takast á við erfiðleika lífsins, allt til síns síðasta dag, en engu að síður er mikil breyting á lífi hans.

Það verður alltaf erfiðleikar í lífi okkar þar sem við reynum að gera hið rétta og heiðarlega, en þó að Jean Valjean sé aðeins persóna úr bókmenntum, þá getur hann verið okkur hvatning og hann sýnir okkur hvernig lítið góðverk getur haft jákvæð keðjuáhrif.

-Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson