Mánaðarskipt greinasafn fyrir: ágúst 2014

Siðmennt, Richard Dawkins og ófæddu börnin

SidmenntTrúmál.is fékk ábendingu um það í gær að Richard Dawkins, sem kom á framfæri óvæginni siðferðisafstöðu sinni í vikunni sem leið, hafi fyrir ekki svo mörgum árum komið hingað til lands í boði Siðmenntar. Þetta er sérstaklega áhugaverð staðreynd í ljósi þess fordæmis sem Siðmennt hefur sett í mótmælum gagnvart erlendum gestum (og væntanlega innlendum einnig) sem tjá sig opinberlega og koma til lands í boði trúar- og/eða lífsskoðunarfélaga.

Skemmst er að minnast viðbragða Siðmenntar og annarra við komu Franklin Graham til landsins í fyrra. Þar var komu Graham mótmælt harðlega sökum afstöðu hans til samkynhneigðar, en koma hans var ekki ætlað að fjalla um þá afstöðu og kom þeirri afstöðu svo sem ekkert við.

Ætli Siðmennt, sem jafnan hefur verið stolt af komu Dawkins á þeirra vegum, myndi bjóða Dawkins aftur til landsins í ljósi framkominnar afstöðu? Er siðferðisafstaða Siðmenntar sem lífsskoðunarfélag samrýmanleg hugmyndafræði Dawkins sem hann lýsti í síðastliðinni viku?

D.S.

Er ósiðlegt að fæða börn með sjúkdóma?

Richard Dawkins, þróunarlíffræðingurinn sem hefur gert garðinn frægan sem trúleysingi er afar umdeildur. Ummæli hans um siðferðislegt réttmæti fóstureyðinga þeirra er greinst hafa með Down heilkenni í vikunni sem leið hafa valdið miklu fjaðrafoki. Ummælin birtust á twitter þar sem Richard Dawkins svaraði konu sem sagðist ekki myndi vita hvað hún ætti að gera ef hún gengi með barn sem greindist með Down heilkenni. Svar Dawkins kom vafalítið mörgum á óvart, þó kannski ekki öllum. Ummælin sem gerðu allt vitlaust voru eftirfarandi:

RicharDawkins ummæli

[Lausleg þýðing: Farðu í fóstureyðingu og reyndu aftur. Það væri ósiðlegt/siðferðislega rangt að koma því [barni með Downs] í heiminn ef þú [móðirin] hefur val.]

Eðlilega spunnust miklar umræður um þetta á Twitter og víðar annarsstaðar, en fjölmiðlar bæði hérlendis og erlendis sögðu frá þessum ummælum og öðrum viðbrögðum. Við ákváðum að fjalla ekki strax um þetta í ljósi þess að Dawkins kynni að vilja útskýra ummælin frekar, enda getur oft verið erfitt að tjá hug sinn skýrt með 160 stafi til umráða, þó að ofangreint hafi haf nokkuð skýran boðskap.

Í fyrradag birti svo Dawkins á síðu sinni „afsökunarbeiðni“. Af lestri afsökunarbeiðninnar er þó lítið um afsökun að ræða, aðallega er hann að biðjast afsökunar á netrifrildinu sem fór af stað í kjölfar ummæla hans en fyrst og fremst er hann að útskýra hvað hinir ýmsu hópar kynnu að hafa misskilið í orðum hans. Honum virðist þó finnst það leiðinlegt ef hin tilfinningalausa nálgun hans á umræðuefnið fór fyrir brjóstið á einhverjum. Á síðunni fer hann þó dýpra í afstöðu sína og segir m.a.:

 „Given a free choice of having an early abortion or deliberately bringing a Down child into the world, I think the moral and sensible choice would be to abort.“  [Lausleg þýðing: Ef valið er frjálst um að eyða fóstrinu snemma eða vísvitandi fæða barn með Downs heilkenni í heiminn, tel ég siðferðislegt og skynsamlegt val vera að eyða fóstrinu]

Hann gengur lengra og segir:  

„I personally would go further and say that, if your morality is based, as mine is, on a desire to increase the sum of happiness and reduce suffering, the decision to deliberately give birth to a Down baby, when you have the choice to abort it early in the pregnancy, might actually be immoral from the point of view of the child’s own welfare.“ [Lausleg þýðing: Ég persónulega gengi lengra og segi að sé siðferði þitt byggt á, eins og mitt er, löngun til þess að auka samanlagða hamingju og minnka þjáningu, sé ákvörðun að eiga Downs barn, þegar þú hefur möguleika á því að eyða því snemma á meðgöngunni, mögulega siðferðislega röng/ósiðleg ákvörðun frá sjónarhóli velferðar barnsins.]

Ummæli hans í heild sinni, þegar þau eru skoðuð í samhengi eru ótrúleg og siðferðisleg afstaða hans afar vafasöm. Forsendurnar sem hann gefur sér um lífsánægju og hamingju fjölskyldna sem eiga Downs barn og/eða Downs barnið sjálft eru allt að því móðgandi fyrir marga. Vissulega er mikil vinna fólgin í því að eiga barn sem kljáist við líkamlega og/eða andlegar áskoranir í lífinu t.a.m. fatlanir á þeim sviðum, en að gefa sér það fyrirfram að samanlögð hamingja slíkra einstaklinga og fjölskyldna þeirra sé minni en annarra og/eða skapi meiri þjáningu er afar þröngsýn afstaða til lífsins, tilgangs þess og hamingjuna sem lífið getur veitt.

220pxRichard_DawkinsÞá er afstaða hans til þess fallin að ganga jafnvel lengra en flestir sem eru svokallaðir „pro-choice“ það er fylgjendur valfrelsi kvenna þegar kemur að fóstureyðingum. Afstaða hans virðist hreinlega sú að ósiðlegt sé að fæða barn með tiltekna fötlun. Þessi afstaða lýsir litlu vali fyrir þær konur sem standa frammi fyrir fóstureyðingarmöguleikanum og ganga með barn með slíka fötlun, ef við gefum okkur að meðalmaðurinn reyni að forðast ákvarðanir sem séu ósiðlegar). En hvar hyggst Dawkins draga línuna, hvenær er það siðferðislega í lagi að ganga með barn fulla meðgöngu að hans mati? Er það í lagi ef að það eru minna en 50% líkur á annarskonar fötlunum, eða er Dawkins meinilla við þá einstaklinga sem haldnir eru Downs?

Hann hefði getað talað um siðferðislega réttlætanlega afstöðu að eyða fóstrum með tiltekna genagalla (þó að það sé umræða útaf fyrir sig og ekki afstaða sem ég get stutt) en hann gekk enn lengra og hreinlega talar um að ákvörðun móður að eignast barn með tiltekin erfðaþætti sé ósiðleg ef möguleikinn á fóstureyðingu er til staðar.

Ef siðferðisleg afstaða Dawkins réði ríkjum hjá löggjafanum á svipaðan hátt og siðferðisleg afstaða t.d. helstu andstæðinga fóstureyðinga í Bandaríkjunum væri löggjöfin væntanlega á þá leið að skylda konur í fóstureyðingar ef tilteknir sjúkdómar væru greindir snemma á meðgöngunni. Hvor afstaðan, að banna eða skylda konur í fóstureyðingar, ætli sé meira inngrip í líf þeirra og barnsins?

Fyrir þá sem vilja skoða frekar ummæli Dawkins og skoða þau í samhengi og hans frekari skýringar á afstöðu sinni er hægt að kíkja á ofantilvitnaða vefsíðu og hin fjölmörgu twitterskilaboð á twitter síðu hans.

D.S.

Morgunbænin fær að haldast en kvöldbænir eru úti

Í hádegisfréttum Rúv, á Mbl.is og Vísi, fyrir skömmu er sagt frá þeirri ákvörðun Útvarpsstjóra að draga tilbaka fyrri ákvörðun um að falla frá bænadagskrárliði að morgni á Rás 1. Engu að síður verður kvöldbænaliðurinn ekki inni. Þessi ákvörðun virðist hafa verið tekin í samráði við Biskup.

Því er sannanlega fagnað að tekið er tillit til þeirra radda í samfélaginu sem óskuðu eftir því að halda bænum inni, en á sama tíma er vissulega ákveðinn missir af kvöldbænunum.

Að geta tekið réttmætri gagnrýni – Rúv og bænirnar aftur…

rúvSíðastliðna daga hafa ýmsir kristnir einstaklingar orðið afar sárir yfir ákvörðun Rúv um að taka af dagskrá Rásar 1 stutt bænainnlegg sem hafa verið á dagskrá síðastliðna áratugi. Ákvörðunin kemur flatt upp á marga og eru ýmsir sem eru afar sárir yfir ákvörðuninni. En því miður virðist sem stór hópur þessara sáru einstaklinga eigi erfitt með að taka réttmætri gagnrýni á mótmæli þeirra. Það er miður, því það getur veikt málstaðinn og rýrt trúverðugleika.

Á þessari síðu hefur verið tekið undir þau sjónarmið að ákvörðunin snertir sannanlega tiltekinn hóp á Íslandi sem þykir afar vænt um þessa dagskrá. Þá hefur einnig verið bent á það að opinberar ástæður ákvörðunarinnar virðast ekki ganga upp að öllu leyti fyrir utanaðkomandi aðila. Þá virðist ákvörðunin ekki taka tillit til þess hlustendahóps sem hlýðir gjarnan á þennan dagskrárlið.

Athygli vekur að opinberar ástæður ákvörðunarinnar hafa ekki snert á trúarlegu eðli þessa dagskrárliðs, þvert á móti hefur Rúv t.a.m. sagt að messuhald muni áfram vera útvarpað og aðrir svipaðir dagskrárliðir. Í ljósi stefnu ríkisfjölmiðla í nágrannalöndum myndi það aukinheldur vekja upp spurningar hversvegna þeir ríkisfjölmiðlar, sem starfa vissulega í fjölmenningarlegu samfélagi, jafnvel  við aukna fjölbreytni samanborið við íslenskt þjóðfélag, sjái sér fært að bjóða upp á bænahald í útvarpinu en Rúv gerir það ekki.

Í ljósi alls þessa og þeirra opinberu umræðu sem hefur verið í gangi á síðastliðnum árum hvað varðar tengsl trúar, ríkis og samfélagsins, hafa kristnir upp til hópa tekið þessari ákvörðun illa og tekið veikum röksemdum Rúv sem yfirskin yfir pólitíska stefnu er varðar trúmál. Kemur það því ekki á óvart að málið í dag nær útfyrir þann hlustendahóp sem hlýðir á útvarpsstöðina, enda hafa ýmsir tjáð sig opinberlega bæði með og á móti þessum hugmyndum, og má vel áætla að tiltekið hlutfall þeirra séu ekki reglulegir hlustendur stöðvarinnar.

Það eru m.a. þessi sjónarmið sem hafa orðið til þess að stór hópur fólks einbeitir sér að ákvörðun Rúv í stað þess að skoða aðra möguleika á því að þiggja umrædda þjónustu, s.s. að aðrar útvarpsstöðvar veiti hana. Vissulega er (eða ætti) dreifing Rúv að vera öruggari og meiri en flestra annarra útvarpsstöðva í landinu, og landsbyggðasjónarmið kunna því að skipta máli, en það er sannanlega réttmætt að benda á aðrar útvarpsstöðvar geti þjónustað með þessum hætti. Áframhaldandi starfsemi slíkra útvarpsstöðva er þó ekki jafntrygg og ríkisútvarpsins sem þiggur almannafé til að standa undir kostnaði.

Hádegisfréttir Rúv og skráningar í Facebook hópinn

Í hádegisfréttum Rúv í dag var fjallað örstutt um Facebook hóp sem stofnaður hefur verið, og vísað hefur verið til á síðum Trúmál.is, og mótmælir ákvörðun Rúv. Kom þar fram afar réttmæt gagnrýni á hópinn og stærðar hans. Þar er á það bent að hægt er að skrá einstaklinga í  hópinn án þess að þeir átti sig endilega á því (sér í lagi ef þeir eru óvirkir eða lítt virkir Facebook notendur) og án þeirra samþykkist. Einstaklingur sem skráður er í hópinn getur þó ákveðið að skrá sig úr honum, og jafnframt komið í veg fyrir frekari skráningar í hópinn með því að haka við þar til gert box.

Facebook skilaboðÞví miður hefur þessi gagnrýni fréttastöðvarinnar verið illa tekið af einstaklingum í hópnum sbr. t.d. athugasemdina hér til hliðar, en gagnrýnin á þó fyllilega rétt á sér. Það að í dag séu yfir 6000 manns skráðir í hópinn er afar flott og almennt er fólk afar upptekið af fjölda þeirra sem skráir sig í svona hópa. „Því fleiri því öflugri hópur“ er iðulega hugsunin. Það að þessir 6000 einstaklingar hafi í raun ekki tekið afstöðu í málinu, er afar mikilvægt og rýrir sannanlega áhrif þessara tölu. Þessi gagnrýni er því réttmæt og stjórnendur síðunnar ættu að taka tillit til hennar og reyna að sporna við því að einstaklingum sé bætt í hópinn án vitundar eða, eftir atvikum, vilja þeirra. Í stað þess að hafa hóp á Facebook, hefði t.a.m. mátt setja upp „vegg“ sem fólk líkar við.

Hvort það skipti svo raunverulega einhverju máli, eða ætti að skipta einhverju máli, hversu margir hafa skráð sig í tiltekinn hóp á Facebook er svo önnur ella. Rafrænar undirskriftarherferðir hafa orðið afar vinsælar í seinni tíð og í sumum umræðum er teflt fram skráningartölum í hópum gagnstæðra fylkinga sem vísbendingu um „vinsældir“ tiltekinnar afstöðu. Í lýðræðisþjóðfélagi þykja svo slíkar vinsældir skipta máli við ákvarðanatöku. Það verður sagt hér að fjöldi manna í tilteknum Facebook hóp getur vissulega þótt vísbending um þá sem láta sér tiltekið málefni varða, en verður þó að taka með varúð. Skynsemi verður jafnframt að beita við móttöku rafrænna undirskrifta, sem og skriflegra.

Þá má líka velta fyrir sér hversu oft Rúv eða aðrir fjölmiðlar hafi bent á slík vinnubrögð hér áður, hvort það sé sérstök ástæða fyrir því að fréttastofa fjölmiðilsins sem verið er að gagnrýna telji rétt að rýra málstað og málflutning mótmælenda sérstaklega, án þess að hafa gert slíkt í öðrum sambærilegum tilvikum. Rannsókn á slíku bíður betri tíma.

D.S.

Eyðileggjum ekki umræðuna með óþarfa

ras1.jpgÞví miður er það svo að þegar trúmál, stjórnmál og önnur málefni sem iðulega snerta tilfinningar fólks að þá er stutt í óæskileg, dónaleg og jafnvel meiðandi ummæli séu sett fram. Slík ummæli eiga það til að geta gjaldfellt málstað annars eða beggja aðila að samtalinu og jafnvel umræðuna sem slíka. Nýleg dæmi er mikill áhugi tiltekinna framsóknarmanna á  múslimum í aðdraganda síðustu sveitastjórnarkosninga.

Þegar ákvarðanir stjórnvalda eða annarskonar yfirvalda verða umdeildar þá ákveða sumir að „ráðast“ í orði á þá einstaklinga sem ákvörðunina tóku. Oft er þeim gerðar upp skoðanir eða vanhæfni langt útfyrir efni ákvörðunarinnar. Slík ummæli geta leitt til þess að málflutningurinn missir marks og eru iðulega persónumeiðandi þegar menn fara úr hófi fram í gagnrýni sinni.

Í kjölfar ákvörðunar Rúv um að taka bænir af dagskrá Rásar 1 hefur því miður borið á því að einstaka aðilar tjái sig, mögulega í miklu tilfinningahita, þannig að málflutningurinn getur vart talist málefnalegur og kann að gjaldfella umræðuna. Sem dæmi um slík ummæli má nefna:

„Ef að þessir menn hlusta ekki á hlustendur rásar eitt þá eiga þeir að fjúka á haf út það er þeim til skammar því þetta er dagskráliður sem fólk vill hafa í útvarpi allra landsmanna rás eitt, Vonandi taka þeir sér tak og láti af sinni þvermóðsku og láti þennan dagskrálið í friði á rás eitt því fólk vill hafa bænar lestur áfram þar og hana nú..!“

Ummælin bera þess merki að hafa verið skrifuð „í hita leiksins“ og það er það sem oft vill gerast. Að þessir menn eigi að „fjúka á haf út“ er varla raunverulegur vilji þess sem þetta skrifar, jafnvel þó við gerum ráð fyrir að höfundurinn vilji eingöngu láta reka stjórnendurna eru ummælin ekki falleg og ekki til þess fallin að njóta neinnar samúðar þeirra sem ekki eru skoðanabræður þessa einstaklings, og jafnvel heldur ekki skoðanabræðra hans. Það að mennirnir skuli vonandi láta af  „sinni þvermóðsku“ er líka spurning. Nú er ekki liðin vika frá því að fréttir um þetta bárust fyrst, er ekki eðlilegt að bíða með að gera stjórnendum Rúv upp þvermóðsku þangað til lengri tími er liðinn þar sem afstaða þeirra kemur betur í ljós.

Sumir hafa tjáð sig á þann hátt að menn eigi að missa vinnuna fyrir þær einar sakir að taka ákvörðun sem þeim er ekki þóknanleg, og oft er hrokinn í ummælunum allnokkur. Aftur eru slíkar athugasemdir ekki til þess fallnar að koma málefnalegri afstöðu um það sem deilt er á framfæri.

Leiðinlegust eru ummælin er tengja ákvörðunina beint við ádeilu á kristinfræðikennslu í skólum, snúa að múslimahræðslu eða eru með öllu útfyrir velsæmi og almenna kurteisi. Sem betur fer er hlutfallslega lítið af slíkum ummælum. Þá eiga stjórnendur hópsins á Facebook „Orð kvöldsins og Morgunbæn verði áfram á RÚV hrós skilið því flest allt efni sem sett hefur verið í hópinn og er meiðandi eða fer vel útfyrir efnið hefur verið eytt. Auðvitað er framsetning einstaklinga mismunandi og tjáningarfrelsið almennt ríkt en vinnubrögðin í hópnum eru almennt til fyrirmyndar.

Eyðileggjum ekki umræðuna, höldum henni málefnalegri…en þó beittri!

D.S.

Útvarpa nágrannaþjóðirnar bænum?

BBC4Það er óhætt að segja að mikill fjöldi hefur tjáð sig opinberlega og/eða við Rúv, um ákvörðun stofnunarinnar að taka bænir og stuttar hugleiðingar af dagskrá Rásar 1. Stofnaður hefur verið hópur á Facebook sem á örfáum dögum telur nú tæplega 5000 manns. Hópurinn heitir „Orð kvöldsins og morgunbæn verði áfram á Rúv“. Hvetjum við áhugasama að kynna sér síðuna og líka við hana ef efni hennar höfðar til þeirra.

DRP2Eins og fyrra innlegg okkar bar með sér er ákvörðun Rúv um margt áhugaverð. Ákveðið var að kanna stuttlega hvernig málum væri háttað í ríkisfjölmiðlum nágrannaþjóða okkar, og voru vefsíður ríkisútvarpanna í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Bretlandi skoðaðar. Lausleg athugun leiddi í ljós að öll löndin bjóða í dagskrá sinni upp á  bænastundir og/eða trúarlegar hugleiðingar, við yfirborðskennda athugun okkar virtist þetta alltaf vera kristilegt efni. Þó að það sem nágrannaþjóðir okkar taka sér fyrir hendur eigi ekki sjálfkrafa að vera fyrirmynd fyrir Íslendinga höfum við í gegnum tíðina gjarnan litið jákvæðum augum á það sem vel hefur tekist hjá frændþjóðum okkar. Mögulega ættu dagskrárstjóri Rásar 1 og útvarpsstjóri Rúv að kynna sér af hverju nágrönnum okkar til vesturs og suðurs þykir rétt að bjóða upp á umrædda dagskrárliði.

Fyrir áhugasama eru tenglar á vefsíður ríkisútvarpanna og bænaefnið hér að neðan:

BBC 4 Prayer for the day

DR 2 Morgenandagten

NRK Morgenandakten

Sverigesradio Morgonandakten

Hvað fyrstu viðbrögð Ríkisútvarpsins varðar má hér sjá það sem virðist vera nokkuð staðlað svar dagskrárstjóra og útvarpsstjóra við þeim tölvupóstum sem þeim hefur borist um málið:

„Í lok ágúst hefst vetrardagskrá RÚV og þá mun dagskrá Rásar 1 taka nokkrum breytingum sem miða að því að rásin sinni menningar- og samfélagshlutverki sínu með enn öflugri hætti en hingað til. Stefnt er að því dagskráin verði markvissari, betri og skýrari gagnvart hlustendum RÚV. Breytingarnar miða að því að sækja fram í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar, án þess þó að gera neinar grundavallarbreytingar á hlutverki eða dagskrá Rásarinnar. Sem fyrr mun Rás 1 bjóða upp á framúrskarandi og vandað menningarefni og hvetja til samfélagslegrar umræðu á víðum grunni. Nýir kraftar bætast í öflugan hóp dagskrárgerðarmanna Rásar 1 sem fyrir er og stefnt er að auknu samstarfi Rásarinnar við aðra miðla RÚV.

Hluti breytinganna snýr að því að skerpa á dagskrársetningu og fækka stuttum uppbrotum á dagskránni en mæta því með markvissari dagskrárgerð á tíma sem betur hentar viðkomandi dagskrárefni. Meðal stuttra dagskrárliða sem falla úr dagskrá eru Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldsins en í staðinn verður efnt til nýs þáttar á besta útsendingartíma eftir kvöldfréttir á sunnudögum þar sem fluttar verða hugleiðingar um trú, menningu og samfélag. Um er að ræða pistlaröð þar sem prestar, guðfræðingar og annað fólk innan þjóðkirkjunnar hefur orðið ásamt fleirum sem hugleitt hafa samspil trúar, menningar og samfélags fyrr og nú. Markmiðið er að efla umræðu um þetta mikilvæga viðfangsefni og um leið að beina sjónum hlustenda að gildi trúarlífs í menningu okkar og samfélagi. Með þessu er stefnt að því að umrætt efni nái eyrum fleiri landsmanna en þeir dagskrárliðir sem falla burt. Hlustun á þá hefur verið afar lítil. Samhliða verður bænaefni gert aðgengilegt á nýjum vef sem fer í loftið í haust og þannig verður fjölda bæna gerður aðgengilegur þegar hverjum og einum hentar. Leitað hefur verið til Biskupsstofu um að tilnefna höfunda í nýja pistlaröð. Rás 1 og þjóðkirkjan hafa átt í löngu og farsælu samstarfi sem meðal annars hefur heyrst í messuflutningi á hverjum sunnudegi og á hátíðisdögum kirkjunnar. Messur verða áfram á dagskrá Rásar 1.

Bestu kveðjur,
Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1 og
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri „

Þó að bréfið sé væntanlega vel meint, sýnir afstaðan ekki mikinn skilning gagnvart ástæðum sem liggja að baki mótmælum ákvörðunarinnar. Málið snýst einfaldlega ekki um að fjöldi fólks vilji lengri menningarþætti um trúmál. Þá má velta fyrir sér á hverju dagskrárstjórinn byggir afstöðu sína um að dagskrárliðirnir njóti lítillar hlustunnar.  Dagskrárliðirnir sem hann segir að hafi litla hlustun eru á tímum þar sem margir eru sofandi, seint á kvöldin og snemma á morgnanna og njóta eðli málsins samkvæmt lítillar hlustunar. Þá er jafnframt eðlilegt að taka tillit til þess að fjöldi þeirra sem eru komnir á eftirlaunaaldurinn (65+) á Íslandi eru um fjörtíu þúsund talsins, hvort að þeirra þáttur í könnunum sem gerðar eru, komi sanngjarnlega fram, veit ég ekki, en af einfaldri skoðun virðast kannanir ekki taka tillit til aldurshóps sem er kominn yfir 80 árin en þeir einstaklingar eru töluvert margir og þeirra skoðanir virðast ekki fá að heyrast, sem er afar sorglegt.

Það er von að Rúv muni á næstunni bregðast við áköllum sem fram hafa komið og jafnframt er ekki ólíklegt að þeim verði afhentur undirskriftarlisti með áskorun frá þeim sem er annt um þetta málefni.

D.S.

Rás 1 og bænirnar

ras1.jpgRíkisútvarpið hefur ákveðið að hætta að útvarpa morgunbæn, morgunandakt og Orði kvöldsins á Rás 1 frá og með 28. ágúst næstkomandi samkvæmt fréttum fjölmiðla í vikunni. Samkvæmt dagskrárstjóra stöðvarinnar miða þessar breytingar að því að rásin sinni menningar og samfélagshlutverki sínu betur en hún hefur verið að gera. Þá eru breytingunum einnig ætlað að fella burt uppbrot í dagskránni til að gera hana þéttari og flæðið betra. Af þessu virðist leiða, skv. orðnum dagskrárstjóra, að þættirnir, morgunbæn og Orð kvöldsins sem eru hvor um sig iðulega styttri en þrjár mínútur kvölds og morgna, skuli ekki lengur heyrast í útvarpinu.

Þessi nýjasta ákvörðun er eftirtektarverð fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi hefur verið beðið með eftirvæntingu eftir mörkun dagskrárstefnu nýráðins útvarpsstjóra og stjórnenda útvarpsins og er athyglisvert að sjónum sé strax beint að þessum dagkrárliðum sem sannanlega snúa að kristinni trú. En meðal annarra stuttra (spurning hvað flokkist sem stutt) uppbrota í dagskránni sem hljóma reglulega yfir daginn eða vikuna má nefna, fréttir/fréttayfirlit, veðurfréttir, dánarfregnir, einstaka tónlistarlög og þá er spurning hvort útvarpssagan flokkist sem stutt uppbrot á dagskrám.

Í annan stað var svipuð ákvörðun tekin fyrir fáum árum, eða árið 2007, þegar þáverandi útvarpsstjóri, Páll Magnússon tók af dagskránni Orð kvöldsins. Viðbrögð hlustenda á þeim tíma urðu til þess að innan fárra vikna var Orð kvöldsins komið aftur inn í dagskrá útvarpsins, enda ákall um þennan dagskrárlið hátt.

Í þriðja lagi er athyglisvert að dagskrárstjóri telji nýjan útvarpsþátt, sem er að sögn í pípunum, komi í stað framangreindra dagskrárliða ásamt því sem bænum verði komið fyrir á vefsíðu RÚV. Það sýnir helst til hvað dagskrárstjóri virðist ekki hafa skilning á þýðingu þeirrar þjónustu sem felst í framangreindum dagskrárliðum fyrir helsta hlustendahóp sinn. Margir þeir sem hrópuðu hæst á árinu 2007 voru eldri borgarar og má með nokkurri vissu segja að sá hópur er einn helsti hlustendahópur útvarpsrásarinnar. Þessi hópur á oft vont aðgengi að tölvum og netinu og sumir eiga jafnframt erfitt með lestur sökum versnandi sjónar. Þá er svo notalegt að eiga útvarpið og eiga greiðan aðgang að efni sem menn hafa alist upp með og reiða sig á morgnanna og kvöldin.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, nú þegar hafa fjölmargir tjáð skoðanir sínar í ræðu og riti, á Facebook, í útvarpinu og í prentmiðlum. Eins og oft þegar fjöldinn tjáir skoðanir sínar liggja ýmsar ástæður þar á bakvið. Þó skiptir alltaf miklu að tjá sig málefnalega ef taka á mark á því sem sagt er.

Vissulega vekur þessi ákvörðun upp, sér í lagi í ljósi almennrar umræðu síðastliðinna ára um trú, samfélag og ríkisvaldið, ýmsar spurningar hver sé hvatinn að ákvörðuninni, hvort hann sé faglegur eða byggi á afstöðu til trúarbragða og pólitískum skoðunum um réttmæti bænahalds í ríkisútvarpi. En eins og ákvörðunin hefur verið framsett virðast slíkar hvatir, séu þær til staðar, faldar.

Hvað ákvörðunina sjálfa varðar þá er ljóst að hér er um talsverða þjónustuskerðingu að ræða af hálfu opinbers fyrirtækis. Morgunbænin og Orð kvöldsins hefur fyrir stóran hluta hlustenda Rásar 1 verið mikilvæg og dagleg þjónusta. Með ákvörðun sinni mun nú þessari þjónustu vera hætt, nánast fyrirvaralaust. Það að bænir verði áfram aðgengilegar á vefsvæði Rúv er vísbending um lítinn skilning  á eðli þjónustunnar og hlustendahóp rásarinnar. Væri t.a.m. ásættanlegt fyrir núverandi hlustendur ef dánarfregnir yrðu eingöngu aðgengilegar á vefsvæði Rúv? Ég er ekki viss.

Á meðan Íslendingar eru skuldbundnir til að greiða áskriftarskatt til Rúv eru allar ákvarðanir um dagskrá þess til þess fallnara að skapa umræðu í þjóðfélaginu. Sumar þó heitari en aðrar. Það er eðlilegt að einstaklingar sem nýti sér þjónustu stofnunarinnar tjái sig um það þegar sú þjónusta sem í boði hefur verið um áratugaskeið, er skert.

Framhaldið

Hvert framhaldið verður er sem stendur óljóst. Ýmsir munu vafalítið hafa samband við þingmenn sína, ráðherra, útvarpsstjóra og dagskrárstjóra og lýsa skoðunum sínum. Mögulega mun dagskrárstjóri eða yfirmaður hans sjá að sér og innleiða þessa dagskrárliði aftur, sökum ákalls hlustenda stöðvarinnar, það er alls ekki ólíklegt í ljósi fyrri reynslu.

Í öllu falli er þó rétt að benda á að Íslendingar búa, enn sem komið er, við þau forréttindi að eiga aðgengi að kristilegri útvarpsstöð, Lindinni. Þau forréttindi eru þó háð fjárhagslegum stuðningi hlustenda stöðvarinnar og þeirra sjálfboðaliða og annarra sem styðja vel við starf Lindarinnar. Snúi Rúv ekki við blaðinu er líklegt að fjölmargir hlustendur stöðvarinnar snúi sér annað, m.a. til Lindarinnar. Fyrir Lindina væri það um margt jákvætt, en slík áhrif myndu þó auka á tortryggni gagnvart ákvörðun dagskrárstjóra og hvatana þar á bakvið.

Eitt er þó víst að umræðunni er langt frá því að vera lokið og margir sem munu tjá skoðanir sínar með og á móti munu vart geta talist reglulegir hlustendur rásarinnar. Hvatar þar á bakvið eru ýmsir, sumir stjórnmálalegir aðrir trúarlegir og enn aðrir samfélagslegir. Það er þó von þess, sem þetta skrifar, að ákall hlustenda frá 2007 sé ekki gleymt, og heyrist það aftur muni dagskrárstjóri leggja við hlustir.

-DS