Umræða um trúmál á villigötum?

2013Nú þegar örfáar klukkustundir eru eftir af árinu 2012 er vert að velta fyrir sér þeim atburðum sem hafa gerst á árinu. Margir þeirra snúa að trúmálum og í mörgu hefur kristin kirkja staðið sig feiknar vel, en árið hefur einnig einkennst af mikilli umræðu um trúfélög og trúfrelsi, sér í lagi hér á Íslandi og þá sérstaklega í tengslum við breytingar á stjórnarskránni og reglur Reykjavíkurborgar um samskipti leikskóla og skóla við trúfélög, afsögn og kjör nýs Biskups Þjóðkirkjunnar og breytingartillögur á lögum um trúfélög svo fátt eitt sé nefnt.

Umræðan er vissulega þörf, en oftar en ekki er hún ómarkviss, illa ígrunduð og tilfinningar einstaklinga ráða miklu. Skiptir hér engum toga hvort um trúaða einstaklinga er að ræða eða trúlausa einstaklinga, né hverrar trúar og/eða lífsskoðunar þátttakendur í umræðunni hafa. Trúmál eru vissulega oft mikið tilfinningamál og þegar kemur að jafnræði, trúfrelsi og sanngirni snertir umræðan jafnvel viðkvæma og afar persónulega hluta lífs okkar. En ef á að nást sátt og einhverskonar sanngjörn niðurstaða í þessum málum, þá sér í lagi er varða trúfrelsi og afskipti/afskiptaleysi hins opinbera af trúmálum þarf að eiga sér stað hugarfarsbreytingar og áherslubreytingar jafnt hjá trúuðum sem trúlausum. Tel ég jafnframt að það myndi þjóna báðum aðilum betur, umræðunnar vegna, að skilja tilfinningahita frá umræðunni og líta bæði nær og fær eftir fyrirmyndum og lausnum á þeim ágreiningsefnum sem uppi eru í þjóðfélaginu.

Hér þykir jafnframt mikilvægt að koma sér saman um sameiginlegan og rökstuddri afstöðu til þess hvað felist í hugtakinu „trúfrelsi“ og að hvaða leiti samspil ríki milli „tjáningarfrelsis“ og „trúfrelsis“ og jafnframt að hvaða leiti hið opinbera geti takmarkað „tjáningarfrelsi trúfrelsisins“ innan bygginga sinna.

Afstaða ríkja og einstaklinga til hugtaksins trúfrelsi eru afar mismunandi og hafa margir bent á tvær mismunandi afstöður til inntaks hugtaksins. Sumir segja að í trúfrelsinu felist „frelsi frá trúarbrögðum“ aðrir segja að í trúfrelsinu felist „frelsi trúarbragðanna“. Þegar litið er til ríkja sem halda uppi trúfrelsi og tjáningarfrelsi sem grundvallarmannréttindum er jafnframt athyglisvert að sjá hversu fjölbreytilega meðferð kirkjur fá frá ríkisvaldinu í hverju landi.

Nauðsynlegt er, umræðunnar vegna, að Íslendingar hafi sameiginlega afstöðu til þessa hugtaks þannig að allir séu að ræða sama hlutinn þegar málefni trúfrelsis og tjáningarfrelsi eru rædd, er þetta sérstaklega mikilvægt við samningu nýrrar stjórnarskrár

Það hefur hinsvegar vakið athygli þess sem þetta ritar hve títt ráðist er gegn kirkjunni sem og kristinni trú í opinberri umræðu hér á landi. Margt er hægt segja um þessar árásir og því miður virðast þær oft vera ómálefnalegar og byggðar á einhverskonar furðulegri tísku að vera á móti kristinni trú og kirkju frekar en vel ígrundaðri afstöðu. Þó að það verðskuldi vissulega skrif að fjalla um þessar árásir og fjölmiðlaumfjöllun henni tengdri á gagnrýnan hátt er einnig mikilvægt að líta sér nær.

Kristnar kirkju hafa tilhneigingu til að standa lítið saman en jafnframt tilhneigingu til að taka lítinn sem engan þátt í opinberri umræðu og í þau fáu skipti sem þær gera slíkt er slíkt gert með óundirbúnum hætti og án ígrundunar þannig að illmögulegt er að samfélagið og jafnvel skoðunarbræður kirkjunnar geti tekið undir málflutning kirkjunnar eins og hann er svo oft framsettur.

Á nýju ári er það vona okkar að umræðan um trúmál fái markvissari meðhöndlun, en jafnframt að kristnar kirkjur og kristnir einstaklingar taki alvarlega til skoðunar hvort/hvernig eigi að hátta þátttöku um málefni sem snerta kirkjuna, hvort sem það snertir hagsmuni kirkjunnar beint eða snertir gildin sem kirkjan heldur uppi.

Við þökkum samfylgdina á árinu sem nú er að líða og biðjum Guð að gefa ykkur yndislegt og lærdómsríkt ár.

Hvað hefur þú um málið að segja?