Gleymdi biskup Jesú? Er kirkjan of stofnanavædd?

madurarsinsMargir fylgdust með Kryddsíldinni á Stöð 2, en eins og gjarnan er um áramót er gaman að fara yfir helstu mál liðins árs og þá eru fréttaannálar og stjórnmálaumræður ofarlega á baugi. Í Kryddsíldinni síðastliðinn gamlársdag var tilkynnt um val Stöðvar 2 á manni ársins. Að þessu sinni varð fyrir valinu frú Agnes M. Sigurðardóttir sem tók við biskupsembætti Þjóðkirkjunnar fyrr á þessu ári og er fyrsta konan til þess að gegna þessu embætti á Íslandi frá upphafi. Það er einmitt þetta sem varð einna helst til þess að hún varð fyrir valinu.

Það er ekkert út á val Stöðvar 2 að setja, en það hefur vakið athygli og borist til eyrna að í viðtali Stöðvar 2 við biskup hafi ef til vill skort á einhverju sem a.m.k. einhverjir kirkjumeðlimir vonuðust til að heyra um - það vakti nefnilega athygli að biskup minntist ekki einu orði á hver meginboðkapur kirkjunnar sé né á Jesú Krist, en kirkjan hefur nýlokið við að minnast fæðingar hans sérstaklega. Ef til vill er þetta pínuósanngjarnt að ætlast til þess að biskup vekji máls á frelsarann sjálfan, verk Hans og boðskap í viðtali sem snérist um persónulegan frama hennar og jafnréttisárangur kirkjunnar í heild. Jafnframt hlýtur að vera ósanngjarnt að krefjast þess að biskup Íslands minnist á Jesú í hvert skipti sem biskupinn fær tækifæri til þess að tjá sig opinberlega í fjölmiðlum. 

En af hverju stingur þessi skortur, í tæplega átta mínútna viðtali við andlit kirkjunnar útá við, suma? Kannski má rekja það til þeirrar umræðu sem kemur oftar og oftar upp í samfélaginu að Þjóðkirkjan sé of stofnanavædd og hafi misst sjónar á boðskap Jesú krists. Spjátrungar hafa ítrekað talað um grænsápuguðfræði og grænsápuþvott kirkjunnar. Kannski upplifa sumir áheyrendur að biskup skammist sín fyrir boðskapinn um Jesú krist og mikilvægi fórnardauða hans, eða kannski þykir það slæm taktík hjá kirkjunni að fjalla um Jesú sem lifandi einstakling opinberlega í viðtali. Ætli það sé ekki betra að viðtöl sem þessi snúist um mannfólkið að upphefja annað mannfólk sem nær tilteknum frama. Hugsanlega áttu sumir von á því að biskup myndi af einskærri hógværð nefna það að það væri ekki hún sem væri maður ársins í krafti þess að vera fyrsti kvennmaðurinn til að gegna þessu embætti, heldur væri það Jesú kristur, sjálfur frelsarinn, sem væri maður ársins. Enda hefði hún aldrei orðið maður ársins nema fyrir Hann og fyrir þá staðreynd að hún væri að gegna tiltekinni þjónustu fyrir Hann…eða hvað?.

Viðtalið má hlusta á hérna og frétt kirkjunnar um efnið má finna hérna.

-DS

2 hugrenningar um “Gleymdi biskup Jesú? Er kirkjan of stofnanavædd?

 1. Jakob 'Agúst Hjálmarsson

  Sá sem skrifar þessa grein verður óhjákvæmilega grunaður um að hafa nánast af ásetningi litið framhjá mjög eindregnum trúarboðakap biskupsins í hverju viðtali af öðru og því hversu Jesús er heimilisfastur í hjarta hennar.

 2. Davíð Sveinbjörnsson

  Sæll Jakob Ágúst og þökk fyrir innlitið

  Sá sem ofangreinda grein ritaði var undirritaður.

  Hann leit ekki framhjá eindregnum trúarboðskap biskupsins í hverju viðtali af öðru né hversu Jesú er heimilisfastur í hjarta hennar, enda hefur hann engar sérstakar forsendur til að meta heimilisfesti Jesú í hjarta hennar né annarra sem á vegi undirritaðs rata. Vert er að vekja athygli þína á öðrum skrifum sem hér koma fram undir fyrirsögninni „Skref í rétta átt á nýju ári“ þar sem orðum og tillögum biskupsins er fagnað og mikilvægi samfélagslegaðstoðar kirkjunnar áréttað.

  Sá sem greinina skrifaði setur hér að ofan fram vangaveltur í kjölfar samskipta við ýmsa einstaklinga og notar nýlegt viðtal við biskup útgangspunkt fyrir vangaveltur um hverskonar kröfur eðlilegt er að gera til þess sem gegnir biskups embættinu hverju sinni, sem og hvort umrætt viðtal sé einkennandi, ekki fyrir persónulega trúarafstöðu og/eða sannfæringu biskups, heldur stofnanastöðu Þjóðkirkjunnar sem í dag er hártogast um í fjölmiðlum af krafti (af einhverju leiti vegna þess hvernig sóknargjöld eru innheimt)..

  Vert er að vekja athygli á því að greinarhöfundur er afar meðvitaður um það að ekki er endilega um að ræða sanngjarna gagnrýni á biskup, og tekur það sérstaklega fram, enda er eingöngu um eitt viðtal að ræða. Eins og að ofan greinir er ósanngjarnt að einhverju leiti að gera ekki greinarmun á einstaklingnum sjálfum og embættinu sem einstaklingurinn gegnir, oft er nauðsynlegt að veita einstaklingnum svigrúm og svo er jafnréttisárangur kirkjunnar einnig vel þess virði að fjalla um sjálfstætt – þar eiga vissulega margir stórt hrós skilið.

  En kveikjan að umræðunni hér að ofan, sem er þetta litla viðtal við stórt tilefni, breytir ekki réttmæti umræðunnar sjálfrar og vangaveltna undirritaðs um stöðu Þjóðkirkju sem á stundum virðist ekki vilja tefla fram játningarafstöðu sinni af fullum krafti sökum pólitískra leikja í fjölmenningarsamfélagi því sem ríkir á Íslandi þar sem hægt og rólega hefur fjarað undan stoðum kirkjunnar. En kirkjan hefur átt í stöðugt vaxandi barráttu um stöðu sína gagnvart stjórnvöldum og almenningi síðastliðin ár og var, eins og þér er vafalítið kunnugt um, mikið um stöðu kirkjunnar rætt í aðdraganda og í kjölfar kosninga um tillögu stjórnlagaráðs til nýrra stjórnskipunarlaga.
  ´
  Í öllum hamagangi síðastliðinna ára, þar sem biskup hefur sagt af sér, þar sem neikvæð fjölmiðlaumfjöllun um kirkjuna og kirkjur í samfélaginu almennt hafa reglulega sprottið upp, þar sem kosið hefur verið um framtíðar stöðu kirkjunnar í stjórnskipunarlögum með tilheyrandi spennu og baráttur, er þá óeðlilegt að velta fyrir sér hvort að jafnbeittur boðskapur, og boðskapur Jesú krists er, sé vísvitandi – og kannski á réttmætan strategískan hátt – haldið utan við tiltekna viðburði, ræður, þar sem „vinsælli“ og – strategískt betri – boðskapur er borinn fram – eins og einnar heilla viku söfnun kirkjunnar fyrir tækjakaupum á Landsspítalanum?

Hvað hefur þú um málið að segja?