Á vefsvæðinu krist.blog.is má finna upplýsingar um „Kristinn þjóðarflokk“ sem eru kristileg stjórnmálasamtök. Samtökin virðast leidd áfram að miklu leyti af Jóni Vali Jenssyni en aðrir sem virðast þátttakendur í þeim eru Snorri Óskarsson og Þorsteinn bróðir hans sem gengu til liðs við samtökin í upphafi árs skv. síðunni. Aðrir einstaklingar eru einnig hluti af samtökunum sem virðast telja milli 15-20 manns miðað við grunna skoðun á færslum og upplýsingum á síðunni.
Stjórnmálaflokkar sem kenna sig við kristna trú og kristin gildi eru víðsvegar starfandi og áhugavert verður að sjá hvernig þessi flokkur mun koma fram, hvort hann muni vera uppbyggður á svipaðan hátt og flokkar í nágrannalöndum okkar eða hvort hann muni breyta til.
Nú sem endranær eru ýmis mál sem snerta trúmál og siðferðismál í höndum Alþingis, sveitarstjórnar og fleiri aðila og það er ekki úr vegi að spyrja hvort ekki sé raunverulega þörf á kristnum stjórnmálasamtökum. Ef svo er, hvernig þurfa slík samtök að vera uppbyggð og á hvaða gildum ber að byggja, í ljósi þess að kristnar kirkjur eru margar, fjölbreyttar og innan þeirra er að finna fjölbreytilegt úrval pólitískra skoðana um hin margbreytilegu mál sem tekin eru fyrir á hinu stóra* sviði stjórnmála.
Á síðunni hefur komið fram að fáar sem engar blaðagreinar hafa verið birtar á vegum samtakanna og lítið hefur verið gert að þeirra frumkvæði við að koma sjónarmiðum þeirra á framfæri. Vonandi verður breyting þar á, sérstaklega ef stefnt er að því að bjóða fram í næstkomandi alþingiskosningum sem og sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík. Enda hlýtur kynning á flokknum og stefnu hans að vera grundvallarforsenda fyrir því að hann nái einhverjum árangri.
-DS
*Sem er heldur lítið hér á Íslandi
Ég þakka ágæta grein og sanngjarna. Taka má fram hér, að til bráðabirgða mynda þeir stjórn Kristinna stjórnmálasamtaka, sem mæta á fundi þess, og hefur enginn verið kosinn þar formaður. Hér er vefsetur samtakanna: http://krist.blog.is
Þakka þér Jón Valur fyrir þessar upplýsingar. Við söknuðum ykkar í hópi framboða í vor, en er stefnt að því enn að bjóða fram í höfuðborginni næstu kosningar?