Nemendur og trú

Það er margt sem er að gerast í trúmálum á Íslandi í dag. Á meðal þess sem hefur borið á upp á síðkastið er framtaksemi samtaka sem kalla sig „Nemendur og trú“. Félagið var stofnað fljótlega í kjölfar þess að Reykjavíkurborg setti umdeildar reglur um samskipti við trúfélög. Nemendur og trú hefur þann tilgang að verja og standa vörð um trúfrelsi nemenda og hefur nánar skilgreind markmið  sem snúa að þessum tilgangi. Hægt er að fá nánari upplýsingar um félagið á vefsíðu þess http://www.nemendurogtru.is.

Í Morgunblaðinu í gær birtist frétt um að félagið Nemendur og trú hefði upp á síðkastið skilað inn umsögn og athugasemdum til nefnda Reykjavíkurborgar vegna reglna um samskipti skóla við trúfélög og jafnframt sent bréf til Innanríkisráðuneytisins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna sömu reglna. Aðalefni fréttarinnar snéri þó að því að félagið hyggst senda Umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna reglnanna. (Fréttina má m.a. lesa hérna)

Samtökin eru frábært framtak og ber að fagna. Það er mikilvægt að foreldrar nemenda sem er umhugað um trúfrelsi innan veggja skólans hafi vettvang til að safnast saman og ræða um málefnið. Jafnframt er starfsemi félagsins afar opin sbr. upplýsingaflæðið á vefsíðu þess, en þar má m.a. finna þau bréf sem hafa verið send stjórnvöldum. Mikill metnaður virðist ríkja innan félagsins og baráttu andinn vegna málefnisins skín í gegn.

Trúmál.is hefur ekki haft tækifæri til að kynna sér ítarlega öll lagaleg sjónarmið sem tengjast reglum Reykjavíkurborgar er varða samskipti skóla og trúfélaga en eftir stuttlega yfirferð eru vissulega ýmis mannréttindasjónarmið sem hægt er að fjalla um í tengslum við trúfrelsi almennt og þær stefnur sem virðast vera teknar í þeim efnum á vettvangi borgarinnar. Hvort það sé strategísk rétt ákvörðun að fara með málið í kvörtunarfarveg hjá Umboðsmanni Alþingis er hinsvegar umdeilanlegt og óljóst hvort slíkt sé gagnlegt eða tækt til meðferðar hjá umboðsmanni.

Eins og málið stendur í dag er það fyrst og fremst pólitískt en hefur, vegna eðlis þess, verið sett í búning mannréttindaumræðunnar. Slík umræða hefur verið einfölduð til muna í opinberri umræðu. Hugsanlega er jafnvel vænlegra til árangurs að opinber umræða verði komið á réttan kjöl þar sem staðreyndir um inntak trúfrelsishugtaksins og réttinda þeim tengdum ásamt hugmyndafræði um fjölmenningarleg samfélög og virðingu fyrir trú nemenda og hlutverki ríkisvaldsins í þeim efnum verður tekið fyrir. Hver veit nema Nemendur og Trú verði leiðandi í þeim efnum.

-DS

6 hugrenningar um “Nemendur og trú

 1. matti

  Það er á engan hátt vegið að trúfrelsi þó trúboð sé ekki stundað í skólum á skólatíma. Trúað fólk hefur fullt frelsi til að trúvæða börn sín utan skólatíma og enginn sem hindrað það í því.

  1. Davíð Sveinbjörnsson

   Ætli undirliggjandi umræðunni sé ekki mismunandi afstaða manna til inntaks hugtaksins trúfrelsi annarsvegar og skilning á því hvað teljist trúboð hinsvegar.

 2. matti

  Við þetta má bæta að samtökin Nemendur og trú eru nátengd Gídeon – sem vill fá að dreifa Nýja testamentinu í skólana en sættir sig ekki við að það gerist utan skólatíma. Bent hefur verið á þá lausn að Gídeon dreifi NT einfaldlega í fermingarfræðslu en félagið sættir sig ekki við málamiðlanir – trúaráróðurinn skal fara fram í kennslustund.

 3. Davíð Sveinbjörnsson

  Fyrir forvitnis sakir, hefur þú verið í beinum samskiptum við félagið um málamiðlanir? Hefur Reykjavíkurborg verið í ríkum samskiptum við félagið og stungið upp á málamiðlanir?

 4. Bakvísun: Trúmál í skólakerfinu – Harmageddon o.fl. | Trúmál.is

Hvað hefur þú um málið að segja?