Sóknargjald eða ríkisframlag?

kirkjanogpeningarUmræða um sóknargjöld og eðli þeirra sprettur reglulega upp. Iðulega er það í tengslum við umræðu um hvort þjóðkirkjan sé eiginleg ríkiskirkjan, en jafnframt í tengslum við jafnrétti og mismunun gagnvart þeim sem standa utan trúfélaga.

Sóknargjalda umræðan náði sig á flug þegar frumvarp um breytingar á lögum um trúfélög var til meðferðar á Alþingi. Í nefndarálitum var ítrekað lögð áhersla á afstöðu nefndarinnar (bæði meirihluta og minnihluta) að væru félagsgjöld sem íslenska ríkið hefur tekið að sér að innheimta en ekki framlög úr ríkissjóði með einstaklingum sem ríkissjóður greiði sóknargjöld með. (Sjá nefndarálit hér, hér og hér og fjölmiðlaumfjöllun hérna).

Vert er að taka það fram að þessi afstaða virðist vera í samræmi t.a.m. við afstöðuna sem fram kemur í samningi milli þjóðkirkjunnar og ríkisins um kirkjujarðir frá 1997 (sem finna má hérna). Því hefur verið haldið fram að umræddur samningur vísi til þess, (í 7. gr. og undir „um 7. gr.) að sóknargjöld séu styrkur. En slíkt virðist af textanum sjálfum ekki fá staðist, þvert á móti virðist samningurinn einmitt ganga útfrá því að um innheimtuhlutverk ríkisins sé að ræða. Ef skýring um 7. gr. er skoðuð segir:

„Átt er við styrki samkvæmt ákvörðun Alþingis, samningsbundnar og lögboðnar greiðslur, ss. greiðslur til Skálholtsstaðar, Hallgrímskirkju, Hóladómkirkju, Kirkjumiðstöðvar Austurlands, Löngumýrar í Skagafirði og Skálholtsskóla. Auk þess innheimtir ríkissjóður eins og verið hefur sóknar– og kirkjugarðsgjöld fyrir þjóðkirkju Íslands og innir af hendi lögbundnar greiðslur í…“

Með orðalaginu „Auk þess innheimtir ríkissjóður eins og verið hefur sóknar- og kirkjugarðsgjöld, er ljóst að það er ekki hluti af „styrkjum“, heldur þvert á móti aðskilið frá því. Og notkun hugtaksins „innheimtir“ vísar til innheimtuhlutverks ríkissjóðs.

Hér á árum áður voru sóknargjöld ekki innheimt af ríkinu, en lagaheimild var fyrir því að innheimta sóknargjöld samkvæmt ákveðnum reglum og í ákveðnu hlutfalli. Sóknir gátu haft talsverð áhrif á þetta hlutfall og veitt fjölskyldum sem áttu fjárhagslega erfitt afslátt eða jafnvel fellt niður sóknargjald vegna tiltekins tímabils.

peningarÍ dag verður þó að viðurkennast að lög um sóknargjöld sýna ekki jafnskýrlega að um sé að ræða „innheimtu“ hlutverk ríkisins. Þvert á móti virðist um styrk frá ríkinu að ræða. Núgildandi lög nr. 91/1987 segja í 1. gr. að þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt eftir því sem lög þessi ákveða. Þá segir í 2. gr., að ríkissjóður skuli skila 15. hvers mánaðar, af óskiptum tekjuskatti, fjárhæð er rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga. Lögin bera það ekki með sér að um sérstaka innheimtu sé að ræða, þó að vissulega hafi það að hafa verið tilgangurinn og skilningur manna framan af.

Sú framkvæmd sem í dag hefur myndast skapar þó viss vandkvæði sem gott væri fyrir alla aðila málsins að skoða. Svo virðist sem sóknir landsins og trúfélög fái sóknargjöld greidd frá ríkinu burtséð frá því hvort að allir sóknarmeðlimir yfir 16 ára aldri hafi greitt tekjuskatt eða ekki til ríkisins. Þetta felur það í sér að af tekjuskatti tekjuhárra einstaklinga kunni einhver fjárhæð að renna sem sóknargjald fyrir aðra einstaklinga sem kunna að vera tekjulágir eða tekjulausir, enda hafi þeir ekki greitt tekjuskatt né útsvar. Þetta er afar annkaraleg niðurstaða. Óþægilegra er þó sú aðstaða sem í dag er komin upp þar sem þeir sem standa utan trúar- og lífsskoðunarfélaga er mismunað þar sem þeir greiða í engu lægri tekjuskatt en þeir sem greiða sóknargjöld og fer fjárhæðin beint í ríkiskassan en ekki t.d. til Háskóla Íslands eins og áður var. Þá er hafa trúfélög ekkert um það að segja hver fjárhæð sóknargjaldsins er hverju sinni - sem er í ósamræmi við hugmynd um að sóknargjöld séu raunverulega innheimt meðlimagjöld kirkjunnar. Þannig getur trúfélag í fjárhagslegum erfiðleikum ekki aukið sóknargjöld sín til að mæta raunverulegri fjárþörf sinni.

peningarogkirkjanÞessi framkvæmd kann að vekja raunverulegar spurningar um eðli sóknargjaldsins í dag – burtséð frá hverskonar hefðum eða skilningi sem menn hafa í gegnum árin lagt í sóknargjaldið. Mikilvægt hlýtur að vera í ljósi afstöðu Alþingis skv. framangreindum nefndarálitum að skýra eðli sóknargjaldsins betur í lögum um sóknargjöld og gera innheimtu þeirra gegnsærri á sama hátt og innheimta vegna ríkisútvarpsins og framkvæmdastjóðs aldraða er afar skýr í ágúst árlega.

Trúfélög hljóta þó að þykja mikilvægt að vera óháð ríkisvaldinu og vera raunverulega sjálfstæð. Þannig hljóta trúfélög í landinu að vilja vera laus við þá hættu að ríkið velji að hætta innheimtuhlutverki sínu án mikils fyrirvara og þannig skapa trúfélögum erfiðleikum hvað tekjustofna sína varðar og/eða hafa bein áhrif á fjárhæð sóknargjalda. Trúfélag sem er háð innheimtu ríkisins á sóknargjöldum hlýtur að vilja endurskoða stöðu sína og leggja áherslu á það að afla teknu sjálfstætt án íhlutunar, aðstoðar eða aðkomu ríkisins. Það hlýtur að vera gott fyrir alla aðila og trúfélagsmeðlimi að vinna að því að breyta núverandi fyrirkomulagi í þrepum þannig að sjálfstæði trúfélaga um innheimtu sóknar og/eða meðlimagjalda færist til trúfélaga og þ.a.l. ákvörðun fjárhæðarinnar eða að lágmarki að núverandi kerfi verði gert gegnsærra og skýrt til muna.

-DS

2 hugrenningar um “Sóknargjald eða ríkisframlag?

 1. Hjalti Rúnar

  Ég er sammála því að túlkun Svavars á samningnum er röng. Og ég er líka sammála því að þó svo að þeir sem sömdu sóknargjaldalögin hafi eflaust hugsað um þau sem félagsgjöld, þá er fyrirkomulagið samt sem áður klárlega þannig að þetta eru framlög frá ríkinu.

  …og fer fjárhæðin beint í ríkiskassan en ekki t.d. til Háskóla Íslands eins og áður var.

  Mér finnst þetta hljóma eins og þú teljir að það hafi á einhvern hátt verið betra fyrirkomulag að láta þennan pening renna til HÍ. Er það svo? Og ef svo er, af hverju er það betra?

  Það hlýtur að vera gott fyrir alla aðila og trúfélagsmeðlimi að vinna að því að breyta núverandi fyrirkomulagi í þrepum þannig að sjálfstæði trúfélaga um innheimtu sóknar og/eða meðlimagjalda færist til trúfélaga og þ.a.l. ákvörðun fjárhæðarinnar eða að lágmarki að núverandi kerfi verði gert gegnsærra og skýrt til muna.

  Þessu er ég algerlega sammála. Þjóðkirkjan hefur gífurlega hagsmuni af því að þetta verði á einhvern hátt raunveruleg félagsgjöld, því að stór hluti skráðra meðlima í henni tengist henni á afskaplega lítinn hátt og myndi eflaust skrá sig úr henni, ef það myndi spara þeim ~8.000 krónur árlega.

 2. Davíð Sveinbjörnsson

  Sæll Hjalti, þú spyrð hvort þetta sé á einhvern hátt betra fyrirkomulag að láta peninginn renna til HÍ en beint óskilgreint í ríkissjóð.

  Svo ég vísi í umfjöllunn Gunnars Má Jakobssonar í ritgerð sinni Trúfrelsi og jafnrétti trúfélaga sem aðgengileg er á http://www.skemman.is að þá eru einstaklingar sem standa utan trúfélaga í dag í raun að greiða hærri bein fjárframlög í ríkissjóð en þeir sem eru meðlimir trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Ef fyrirkomulagið þótti á gráu svæði hér áður fyrr má segja að svæðið hafi í það minnsta dökknað með þessari breytingu, a.m.k. frá lagalegu sjónarhorni. Benda má á að í þessu fyrirkomulagi hefur sá sem stendur utan við trúfélög minni upplýsingar og minna að segja um hvernig umræddum fjármunum er ráðstafað heldur en þegar þeim var ráðstafað í sérstakan sjóð hjá Háskólanum (þó að nýting hans hafi ekki endilega verið jafn gagnstæð og helst yrði á kosið).

  Hversu mikið „betra“ þetta fyrirkomulag er læt ég ósagt, en það er eðlismunur, frá lögfræðilegu sjónarhorni, á núverandi fyrirkomulagi og því fyrirkomulagi sem á undan var við lýði.

  Ég vona að þetta svari spurningu þinni Hjalti.

Hvað hefur þú um málið að segja?