Réttur kvenna yfir eigin líkama og fóstureyðingar

Hversu margar fóstureyðingar eru raunverulega framkvæmdar á grundvelli þess að konan ræður yfir líkama sínum?

modirogbarnÍ vikunni hefur pistill ungrar hugrakkrar konu um reynslu hennar af fóstureyðingum farið um samskiptamiðla á netinu. Pistillinn var birtur undir titlinum „Ég fór í fóstureyðingu – mín saga og má lesa í heild sinni hérna.  Pistillinn er ekkert gamanmál og fjallar um efni sem er afar viðkvæmt, persónulegt og vekur mikilvægar spurningar um fóstureyðingar og það ferli sem val konunnar um fóstureyðingu byrjar. Það hefur vart verið auðvelt fyrir höfundinn að skrifa og birta pistilinn undir nafni og á hún þakkir fyrir að hafa vakið máls á þessu viðkvæma efni frá sjónarhóli sínum.

Pistillinn vekur upp mikilvægar spurningar um fóstureyðingar og regluverk það sem gildir um fóstureyðingar og raunveruleikann sem konur, börn og aðrir sem málið snertir standa frammi fyrir.

Mörg atriði sitja eftir þegar lestri pistilsins er lokið, má þar nefna staða og möguleika maka til að taka þátt í ákvörðunarferlinu, jafnrétti kynjanna, réttur konunnar til að ráða yfir eigin líkama, áhrifavaldar kvenna, félagslegar aðstæður kvenna og misnotkun annarra á stöðu þeirra, nauðung, o.s.frv.

Á næstunni langar okkur að fjalla nánar um sum þessara atriða, sér í lagi tvö þeirra. Annarsvegar rétt konunnar til að ráða yfir líkama sínum, sem ákvörðunarástæðu og þannig velja hvort hún vilji ganga í gegnum meðgönguna eða fara í fóstureyðingu. Hinsvegar er það spurningin um hver raunverulega velur og/eða hefur áhrif á þetta val konunnar um hvort hún fari í fóstureyðingu eða fæði barn sitt.

Réttur kvenna yfir eigin líkama, réttlætingarástæða fóstureyðinga?

Fóstureyðingar eru títt tengdar kvenréttindabaráttu og rétti kvenna, þá sérstaklega yfir líkama sínum. Þetta er eitthvað sem kemur alltaf upp í umræðunni. Í sjálfu sér er það ekki ómálefnalegt að kona geti valið það á fyrstu stigum meðgöngunnar hvort hún vilji ljúka henni snemma og komast hjá áhættunni sem fylgir meðgöngunni. [Innskot 14. feb. 2013: umræðunnar vegna er réttur konunnar til eigin líkama ekki bundinn við að lífshætta steðji að, heldur að konan geti komist hjá hverskyns líkamlegum óþægindum, tímabundnum eða varanlegum með fóstureyðingu, réttur yfir líkama sínum hlýtur þó eingöngu að snúa að áhrifum á líkama konunnar, hversu lítil eða mikil þau eru]. En þó vegast hér á ýmis sjónarmið um lífsvernd barns og rétt konu yfir líkama sínum sem ekki verður farið nánar í hérna. Enda er á fyrstu stigum meðgöngunnar, frá læknisfræðilegu sjónarhorni, minni áhætta að gangast undir fóstureyðingu en að eiga fulla meðgöngu. En í umræðunni og samkvæmt opinberum tölum fara konur sjaldan í fóstureyðingar vegna þess að þær vilja losna undan óþægindum og áhættum meðgöngunnar. Þau sjónarmið virðast ekki vera forsenda fyrir því að einstaklingur velji það að fara í fóstureyðingu.

Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu voru á árinu 2011 framkvæmdar 969 fóstureyðingar hér á landi. Af þeim voru 936 framkvæmdar af félagslegum ástæðum, 30 af læknisfræðilegum ástæðum og 3 framkvæmdar af samblandi af félagslegum og læknisfræðilegum ástæðum. Sú ákvörðun að ganga ekki með barn fulla meðgöngu vegna þeirra afleiðinga sem það hefur á líkama konunnar verður ekki flokkuð sem félagsleg.  Þessi títt nefnda forsenda fyrir frjálsu aðgengi kvenna að fóstureyðingum heldur því ekki nema í miklum minnihluta fóstureyðingar tilvika. Það hlýtur í öllu falli að vera ótækt að nota rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama sem réttlætingarástæðu fyrir fóstureyðingum af félagslegum toga. [Innskot 14. feb. 2013: Vert er að taka það fram að hér er litið svo á að fóstureyðing af félagslegum ástæðum snýr að aðstæðum eftir fæðingu og ástæða fóstureyðingarinnar hefur því ekki með líkama konunnar að gera, heldur þeim aðstæðum sem barnið og konan munu vera í eftir fæðingu, þ.a.l. er varhugavert að beita slíkri réttlætingarástæðu slíkar fóstureyðingar. Hvort ástæður fóstureyðingar séu rétt flokkaðar hjá landlæknisembættinu kemur ekki til skoðunar]  Slíkt er afar varhugavert, enda þarfnast  fóstureyðingar vegna félagslegra aðstæðna annars konar réttlætingu – en slíkar eru frekar til þess fallnar að brjóta gegn konum og geta leitt til þess að þær velji fóstureyðingu gegn sinni sannfæringu.

Fjallað verður nánar um þau tilvik síðar í vikunni og þann mikilvæga punkt pistlahöfundarins að ofan um að konur mega ekki lenda í þeim aðstæðum að annar einstaklingur beint eða óbeint neyðir hana til að fara í fóstureyðingu. En mikil hætta er á slíku þegar kemur að félagslegum fóstureyðingum.

-DS

3 hugrenningar um “Réttur kvenna yfir eigin líkama og fóstureyðingar

 1. Lilja Írena Guðnadóttir

  „Enda er á fyrstu stigum meðgöngunnar, frá læknisfræðilegu sjónarhorni, minni áhætta að gangast undir fóstureyðingu en að eiga fulla meðgöngu.“ Mér þætti vænt um að fá heimildir fyrir þessu, enda er ég stöðugt að heyra um fleiri og fleiri líkamlega áhættuþætti fyrir að fara í fóstureyðingu.

 2. Davíð Sveinbjörnsson

  Þetta var eitt af því sem Hæstiréttur Bandaríkjanna í hinu víðfræga máli Roe v. Wade byggði einna helst á í niðurstöðu sinni. En jafnframt má vísa til nýlegrar greinar „The Comparative Safety of Legal Induced Abortion and Childbirt in the United States“ í Obstetrics & Gynecology, febrúar útgáfunni frá árinu 2012 sem hægt er að finna á eftirfarandi slóð: http://journals.lww.com/greenjournal/Fulltext/2012/02000/The_Comparative_Safety_of_Legal_Induced_Abortion.3.aspx

  Vert er að taka fram að fullyrðingin hér að framan er sett fram fyrst og fremst umræðunnar vegna, enda snýr greinin ekki að því að ræða hversu réttmætt það er að fara í fóstureyðingu vegna áhættu konunnar af meðgöngu. Þvert á móti að benda á að þessi réttlætingarástæða, sem iðulega er teflt fram í baráttu þeirra sem vilja sem opna möguleika á fóstureyðingum, skiptir í raun engu máli í flestum þeim tilvikum sem fóstureyðingar eru framkvæmdar, því þar er um félagslegar ástæður að ræða en ekki heilsufarslegar ástæður móðurinnar. Við munum svo fjalla um félagslegar fóstureyðingar seinna í vikunni en slíkar fóstureyðingar ætti ekki að þurfa í nútímasamfélagi.

  Útgangspunkturinn er að umræðan og röksemdir sem reyna að réttlæta fóstureyðingar á ofangreindum forsendum um rétt konunnar yfir eigin líkama, afvegaleiðir umræðuna og almenning því sú ástæða er sjaldnast ákvörðunarástæðan fyrir fóstureyðingum.

  Vissulega eru ýmsar rannsóknir sem benda á að áhætta móður sem fer í fóstureyðingu t.d. að fá brjóstakrabbamein og/eða fósturlát í framtíðinni eykst og ýmis önnur áhrif sem fóstureyðing getur haft á heilsufar móður. En vegna ofangreinds útgangspunkts var ákveðið að fara ekki út í það heldur gefa sér framangreinda fullyrðingu umræðunnar vegna og til einföldunnar.

 3. Bakvísun: Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum – er vegið að stöðu og tækifærum kvenna? | Trúmál.is

Hvað hefur þú um málið að segja?