Hallærisleg gagnrýni?

POPEFRANCISNú þegar Kaþólska kirkjan hefur kynnt heiminn fyrir Frans, nýjan páfa, hafa fjölmiðlar um allan heim grandskoðað forsögu hans og sagt frá. Það er athyglisvert, hverrar skoðunar sem menn kunna að vera á kaþólsku kirkjunni, að fjölmiðlar, stjórnmálamenn og félagssamtök einblína á ummæli páfa í garð samkynhneigðra.

Það er í raun ótrúlegt hvað skoðanir Frans á samkynhneigðu líferni virðast vera mikill fréttamatur. Í raun er þetta hallærislegt í ljósi skýrrar afstöðu kaþólsku kirkjunnar til þessa málaflokks, og hefur sú afstaða ekki tekið neinum breytingum upp á síðkastið og lítið sem bendir til þess að þetta sé að fara að breytast. Þetta eru því algjörar ekki-fréttir.

Án þess að gera lítið úr þeim einstaklingum sem berjast fyrir auknum réttindum þess hóps manna og kvenna sem teljast ekki gagnkynhneigð, eru mörg málefni sem eru mun meira mein á alþjóðasamfélaginu í heild heldur en fordómar gagnvart samkynhneigðum og birtingarmyndir þeirra (hér er þó ekki verið að draga úr því að birtingamynd ofbeldis gagnvart samkynhneigðum, hvort heldur það er líkamlegt eða andlegt er afar alvarlegt mál og með öllu óásættanlegt).

Kaþólska kirkjan hefur lengi vel verið í fararbroddi um allan heim, sérstaklega í þróunarríkjum, þegar kemur að þjónustu og stuðning við þá sem minna mega sín. Þannig starfrækir kirkjan um allan heim sjúkrahús og býður upp á ýmiskonar grunnþjónustu fyrir sjúka og fátæka víðsvegar. Meðfylgjandi er áhugaverð mynd sem lýsir starfi Kaþólsku kirkjunnar í Afríku. Á meðfylgjandi tengli hérna má svo finna nánari upplýsingar um tölfræði kaþólsku kirkjunnar þar sem koma fram upplýsingar um ýmis verkefni kirkjun nar og dreifingu verkefnanna um heiminn.

Kaþólska kirkjan í Afríku

Markmið á vettvangi alþjóðastofnanna, s.s. Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja mikla áherslu á útrýmingu fátæktar, aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun og baráttu gegn alvarlegum sjúkdómum. Allt eru þetta markmið sem kaþólska kirkjan hefur í starfi sínu unnið að.

Þegar við lítum á umfjallanir um Frans ætti nafnaval hans og líferni að vekja mikla athygli með tilliti til þess mikla meins sem fátækt í heiminum er, en fátæktin og slæmt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun elur af sér mörg önnur samfélagsmein.

Samkvæmt umfjöllunum fjölmiðla hefur Frans lifað látlausu lífi og neitað að búa við þá velmegun sem stöðu hans vegna honum bauðst. Hann velur sér sama nafn og Frans frá Assíssí sem er  hvað þekktastur fyrir að vera verndari hinna fátæku og bjargarlausu. Jafnframt var hann mikill náttúruunnandi.

Þegar horft er til þessara atriða er það furðulegt að fjölmiðlar hafi ekki, í umfjöllunum sínum, verið spenntari yfir hugsanlega auknum áherslu á samfélagsþjónustu kirkjunnar og útrýmingu fátæktar í heiminum með tilkomu nýs páfa. Slíkt ber að fjalla um og hvetja til og fagna í stað þess að eyða mesta púðrinu í að úthúða, enn á ný, alþekktri afstöðu kirkjunnar til málefnis samkynhneigða.

Þá mætti jafnframt vekja enn meiri athygli á að Frans hefur talað gegn því að prestar neiti að skíra börn sem fæðst hafa utan hjónabands. Hann hefur þannig barist fyrir því að konur, sem verða þungaðar utan hjónabands, verði ekki fordæmdar sem oft vill leiða til aukinna tíðni fóstureyðinga, heldur þvert á móti að kirkjan fagni hugrekki þeirra að fæða barnið í þennan heim og neiti barninu ekki um skírnina.

En þetta fær litla umfjöllun…af hverju?

-D.S.

5 hugrenningar um “Hallærisleg gagnrýni?

 1. Davíð

  Eitt sem vantar þarna í Afríkumyndina hjá þér. Kaþólska kirkjan fordæmir notkun getnaðarvarna og hefur jafnvel gengið svo langt að segja að það sé ekki góð leið í baráttunni gegn HIV. Það þarf væntanlega ekki að nefna hversu alvarlegt vandamál HIV er á mörgum stöðum í Afríku.

  1. Trúmál.is Post author

   Eins og þú væntanlega gerir þér grein fyrir vantar ekki umfjöllun um afstöðu kirkjunnar til getnaðarvarna og hugsanlegra afleiðinga þeirrar afstöðu. Efnistökin snúa að öðru en guðfræðilegri afstöðu kirkjunnar í þeim efnum sem þú vísar til.

 2. Ólafur

  Við megum ekki gleyma því að þó að samkynhneigðir hafi það ágætt hérlendis eru þeir útskúfaðir, fangelsaðir og/eða aflífaðir í flestum löndum. Ofsækjendur samkynhneigðra bera trú oftast fyrir sig sem afsökun og útskýringu á ofsóknum sínum. Eflaust hefur margt gott komið frá kaþólsku kirkunni en þegar æðsti embættismaður(segir maður það?) einnar útbreiddustu trúar jarðar ákveður að viðhalda kreddum og fordómum í mörg ár í viðbót og á þessum tímum, finnst mér það einmitt vera fréttamatur. Pope Francis on gay marriage:“Let’s not be naive: this isn’t a simple political fight, it’s an attempt to destroy God’s plan.“

 3. Davíð Sveinbjörnsson

  Sæll Ólafur, og takk fyrir að gefa þér tíma til að skrifa athugasemd þína hérna. Í upphafi bið ég þig og beini þessu jafnframt til Davíðs hér að ofan, að skrifa frekari athugasemdir undir nafni og eftirnafni í samræmi við umgjörð þá sem við viljum hafa hér á síðunni og nánar er lýst undir „Um trúmál.is“.

  Varðandi athugasemd þína þá vil ég í engu gera lítið úr því ofbeldi sem samkynhneigðir eru beittir um allan heim, hvort heldur birtingarmynd þess er andleg eða líkamleg. En mér hefur seint þótt óbreytt afstaða kaþólsku kirkjunnar til þessa málaflokks vera fréttaefni, og stend við það. Með því er ekki verið að gleyma óréttmætu ofbeldi gegn einstaklingum, hvers kyns, kynhneigðar þeir séu. Ég held að þrátt fyrir afstöðu kaþólsku kirkjunnar til samkynhneigðra séu afstaða þar á bæ einnig sú að ofbeldi í hverskonar mynd, hvort heldur það beinist gegn gagnkynhneigðum eða samkynhneigðum einstaklingum óásættanlegt. Að hvaða leiti kenna má kirkjunni um slíkt þegar trú er borin fyrir sig sem afsökun er afar umdeilanlegt, en ég hef alltaf ákveðin vara á þegar trú, lífsskoðun eða stjórnmálaskoðun tiltekinna ofbeldismanna er beitt sem afsökun eða ákvörðunarástæða fyrir ofbeldi.

  Hitt þykir mér merkilegra, og meiri fréttamatur, að nú hefur tekið við páfi sem hefur í starfi sínu innan kirkjunnar, sem og í sínu eigin hversdagslífi, tekið afstöðu um að sinna þeim sem eru fátækir og bjargarlausir. Hann virðist jafnframt leggja áherslu á bætta stöðu kvenna, og barna sem hafa hjúskaparstöðu sinnar vegna í gegnum tíðina verið útskúfað úr kirkjunni. Það er von mín að hann geti og muni beita sér áfram fyrir þessum málaflokkum á alþjóðavísu. Þetta þykir mér afar fréttnæmt og ætti að vekja áhuga þeirra sem hafa fylgst með áherslumálum á alþjóðavettvangi s.s. markmiðum þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Hvað hefur þú um málið að segja?