Biskup á samfélagsvefjum – snilld eða flopp?

TwitterEins og flestir þeir sem skoðað hafa fréttamiðla landsins í dag hafa vafalaust tekið verður predikun frú Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups sett inn á samfélagsvefinn Twitter (hér má finna Twitter síðu biskups). Frú Agnes mun predika við þingsetningarathöfn Alþingis í dag kl 13:30 sem að venju hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með ræðu biskups í gegnum Twitter er því um að gera að fara á vefsíðuna fljótlega eftir klukkan hálf tvö í dag, en guðsþjónustunni líkur klukkan tvö.

Ekki nóg með það að predikunin fari inn á Twitter, heldur er hvatt til samræðna á Twitter um predikunina undir merkinu #thingsetning. Áhugasamir sem kunna á Twitter geta því fylgst vel með gangi mála í Dómkirkjunni á eftir.

Það verður að viðurkennast að ég er ekki viss hver hugmyndafræðin er að baki þessu hjá biskupi. Er ætlunin sú að taka fyrsta skrefið í átt að frekari Twitter-væðingu kirkjunnar og fagnaðarerindisins, er ætlunin sú að auka við þjónustu og fylgja takti tímans hvað tækniframfarir varða? Er markmiðið að bjóða upp á samfélag utanum predikunina á netmiðlum? Er kannski markmiðið að vera reyna að skapa jákvæða fjölmiðlaumfjöllun um guðsþjónustuna við þingsetningu sem því miður hefur í seinni tíð hefur verið uppspretta neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar frá háværum minnihluta þingmanna og lobbýista gegn Þjóðkirkjunni.

Ég vona að þetta framtak sé ekki einhverskonar tilraun til jákvæðrar innantómrar fjölmiðlaumfjöllunar, því hún kemur og fer. Ég vona innilega að þessi nýting kirkjunnar á samfélagsvefjum sé jákvætt skref í átt að frekari útbreiðslu fagnaðarerindisins og hlakka til að sjá hvernig þetta verður framkvæmt og umfram allt hvernig þessu verður tekið.

Þetta gæti verið stórsniðug og þetta gæti orðið að floppi, en það verður ekki tekið frá þeim sem að þessu standa að það þarf hugrekki til nýjunga og það er alltaf gaman að sjá slíkt hugrekki innan kirkjunnar.

Hvað finnst þér um þetta framtak?

-DS

4 hugrenningar um “Biskup á samfélagsvefjum – snilld eða flopp?

 1. Árni Svanur

  Þetta er tilraun til að opna á samtal á nýjum og mikilvægum miðlum og til að vekja athygli á prédikun Agnesar biskups sem er boðun fagnaðarerindisins – eins og prédikanir almennt. Við eigum að vera virk á öllum þessum miðlum, rétt eins og þið notið vefinn og twitter til að miðla.

 2. Trúmál.is Post author

  Það er frábært að heyra. Má þá gera ráð fyrir að þessu verði áframhaldið hvað aðrar prédikanir biskups varðar og/eða presta? Að minnsta kosti ef þið metið það sem svo að tilraunin hafi náð árangri?

 3. Árni Svanur

  Við viljum gjarnan nota samfélagsmiðlana til að eiga svona samtal og til að boða fagnaðarerindið. Þetta er ein leið til þess og mér finnst líklegt að við gerum þetta aftur og oftar. Ég vona líka að fleiri prestar prófi sig áfram með þetta.

  Við erum alltaf að gera tilraunir með notkun samfélagsmiðlanna, svo gildir bara Pálsprinsipið: Prófið allt, haldið því sem er gott er.

  Takk fyrir að vera vakandi yfir þessu!

Hvað hefur þú um málið að segja?