Þrjár hártoganir í kjölfar predikunar biskups

Að vanda þykir ákveðnum hópi mikilvægt að gera athugasemdir við orð og verk kirkjunnar sem samrýmast ekki lífsafstöðu þeirra. Í sjálfu sér er þetta ekki slæmt og oft má heyra málefnalega og jafnvel afar mikilvæga gagnrýni á kirkjuna, enda er hún ekki hafin yfir gagnrýni. En stundum koma fram innihaldslitlar athugasemdir sem eru í raun lítið annað en hártoganir og virðast settar fram til þess eitt að gera athugasemdir við eitthvað. Flestir sem fjalla á gagnrýninn hátt um atriði í samfélaginu, sérstaklega á netinu, hafa gerst sekir um að tefla fram slíkum hártogunum og á það jafnt við um trúaða sem trúlausa einstaklinga.

Sigurður Hólm Gunnarsson gerir á vefsíðunni Skoðun þrjár athugasemdir við predikun biskups í grein með sama nafni. Þar setur hann fram athugasemdir við neðangreind ummæli biskups, en athugasemdirnar eru lítið annað en hártoganir þegar greinin er lesin. Afstaða Sigurðar til kirkjunnar hefur vafalaust haft þar áhrif á. Stundum langar greinarhöfundum svo mikið að gagnrýna eitthvað að athugasemdir sem settar eru fram eru lítið annað en leiðinda hártoganir sem afvegaleiða lesendur sem taka skilning greinarhöfundar trúanlega.

Ekki verður hér gerð nokkur tilraun til að verja eða réttlæta ummæli biskups en ég sé ástæðu til að fetta fingur, nú eða hártogast, út í grein Sigurðar.

Í fyrsta lagi sér Sigurður ástæðu til þess að gera athugasemd við eftirfarandi setningu biskups:

„Fyrir 1000 árum eða svo gerði Alþingi, þá samankomið á Þingvöllum sáttmála fyrir hönd þjóðarinnar. Þar var fest í lög „að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka….“ Það var talin forsenda friðar í landinu að við hefðum ein lög og einn sið.“

Athugasemd Sigurðar ætti ekki að beina gegn ummælum biskups, mun frekar ættu þau að beinast gegn sögu og menningu þess tíma sem um ræðir. Því miður var hugtakið trúfrelsi lítið þekkt og mannréttindi eins og við þekkjum þau í dag enn minna þekkt á þeim tíma sem biskup vísar til. Þá virðist það hafa verið pólitísk afstaða ráðandi aðila á þeim tíma að með einum lögum og einum siði kæmist á friður í landinu, en einhver ófriður virðist hafa ríkt á þessum tíma sem nauðsyn þótti að kveða niður. Sigurður kvartar yfir því að aldrei megi minnast á aðferðarfræði við „kristnun“ landsins. En það er útúrsnúningur því ummæli biskups snúa ekki að þessu.

Í öðru lagi gerir Sigurður athugasemd við eftirfarandi ummæli biskups:

„Þátttaka þingheims og gesta í guðsþjónustu fyrir þingsetningu ár hvert minnir á þennan sáttmála er Alþingi gerði fyrir hönd þjóðarinnar á Þingvöllum forðum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar stendur að íslensk þjóðmenning verði í hávegum höfð, en sú menning er sprottin úr þeim kristna jarðvegi er festur var á Þingvöllum forðum.“

Enn og aftur snýr gagnrýni Sigurðar ekki svo mikið að ummælum biskups eins og hún snýr að ríkjandi afstöðu samfélagsins á Íslandi (og raunar meirihluta heimsins, hverrar trúar eða þjóðernis þeir voru) fyrir 1000 árum, sér í lagi hvað jafnrétti kvenna og umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum á Íslandi varðar. Athugasemdin missir því marks því hún stendur ekki í samhengi við ummæli biskups.

Að lokum gerir Sigurður athugasemd við eftirfarandi:

Kirkjan hefur það hlutverk að gæta menningarverðmæta þjóðarinnar. Hún hefur það hlutverk að þjóna öllum þeim er til hennar leita.“

Hér er það sem ég myndi kalla klassíska hártogun. Vissulega er það rétt að tiltekin þjónusta kirkjunnar er samkvæmt innri reglum hennar ekki í boði fyrir þá sem standa utan við Þjóðkirkjunnar. En hvað felst raunverulega í ummælum biskups. Biskup segir að hlutverk kirkjunnar er að þjóna öllum sem til hennar leita. Þessi setning er rétt og í samræmi við boðskap Jesú. Kristin kirkja á að sýna þeim sem hún mætir kærleika og á að þjóna þeim. Hvort kirkjan standi sig í þessu hlutverki er umdeilanlegt og hverskonar þjónusta um ræðir má vafalítið hártogast um. Biskup heldur því ekki fram að kirkjan fullnægi þessu hlutverki sínu, en það breytir í engu að hlutverk kirkjunnar sannanlega er að þjóna þeim sem til hennar leita. Kristin trú setur háleit markmið sem erfitt eða jafnvel ómögulegt er að ná á einni ævi, en markmiðin og hlutverkið standa engu að síður.

Að því marki sem athugasemdum Sigurðar var beint að ræðu og orðum biskups misstu þau því marks.

-DS

16 hugrenningar um “Þrjár hártoganir í kjölfar predikunar biskups

 1. hjaltirunar

  Davið, síðustu ummælin eru það sem biskupinn og aðrir kirkjunnar menn segja í sífellu: Þjóðkirkjan þjónar öllum landsmönnum (og þess vegna á hún skilið forréttindi).

  Sú staðreynd að hún neitar ákveðnum hópi um þjónustu vegna trúfélagaskráningar hans er í algerri mótsögn við þá fullyrðingu.

 2. Davíð Sveinbjörnsson

  Hjalti, er málið raunverulega svo einfalt?

  Eins og ég segi að ofan má vafalaust deila um það hvort kirkjan standi sig í hlutverki sínu. En sú deila er afar ómarkviss ef menn eru ósammála um hvert sé hlutverk kirkjunnar og þá sérstaklega hverskonar þjónustu um ræðir og hverskonar þjónustu það er sem kirkjunni ber að mati almennings og hennar sjálfrar að veita.

  Ég las athyglisvert dæmi frá þér, Hjalti, á annarri vefsíðu, þar sem þú líkir kirkjunni við matvöruverslun sem afgreiði alla en neiti að selja svertingjum ávexti. Ég get ekki tekið undir þessa samlíkingu. Sú gagnrýni sem ég hef orðið var við er líkari því að kirkjan sé kjötbúð sem grænmetisætur fara fram á að selji sér grænmeti.

  En skoðum þetta nánar, hverskonar þjónusta er það sem þjóðkirkjan neitar mönnum venjulega um? Eru menn að ræða giftingu, og þá sérstaklega giftingu samkynhneigðra? Eru menn að ræða útfarir? Eru menn að ræða hjálparstarf kirkjunnar? Hverskonar þjónustu er um að ræða og hverskonar þjónustu er eðlilegt að kirkjan sinni annarsvegar gagnvart sínum meðlimum og hinsvegar gagnvart öllum? Er eðlilegt að sóknarmeðlimir njóti forgangs og að kirkjan sinni tilteknum verkefnum gagnvart þeim fyrst og láti aðra mæta afgangi, s.s. hvað giftingar varðar (en giftingar verða, frá sjónarhóli Biblíunnar, seint taldar grundvallastoð nú eða grundvallarþjónusta sem kirkjunni ber að veita, nema þá hugsanlega ef um kaþólska kirkju er að ræða)

  Í þjónustuumræðunni hefur verið vísað til 13. tl. III. kafla Samþykkta um innri málefni Þjóðkirkjunnar í þessu samhengi, en þar segir:

  „Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.“

  Það verður seint talin grunnþjónusta þjóðkirkju nú eða biblíulegt hlutverk kirkju að leigja út eða lána húsnæði sitt til annarra trúfélaga og/eða lífsskoðunarfélaga til athafna sem samrýmast ekki tilgangi hennar. Að túlka þetta á annan veg er augljós hártogun og afvegaleiðir alla málefnalega umræðu um það hvort kirkjan sé að standa sig í þeirri þjónustu sem hún er skv. Biblíunni og grundvallarkenningum sínum kölluð til að sinna. (En það er umræða sem er vel þess virði að skoða og mikilvægt að minna sig reglulega á. Sé umræðan tekin frá þeim vinkli kæmi það mér ekki á óvart ef víða finnist pottur brotinn)

  Þessi þjónustu umræða hefur oft verið tekin útfrá hjónavígslu, sérstaklega hvað varðar hjónaband samkynhneigðra og val presta um að framkvæma slíkt. Þetta er sérumræða í sjálfu sér, en menn hljóta þó að vera sammála um að þjónustuveitandi mega bjóða upp á þjónustu á sínum forsendum, og vart er hægt að ætlast til þess að þjónustuveitandi veiti þjónustu á forsendum sem er ósamrýmanleg þeim reglum, viðmiðum, stefnum sem þjónustuveitandi stendur fyrir og/eða starfar samkvæmt.

  Það er svo afar athyglisvert að einhverjir einstaklingar utan Þjóðkirkjunnar myndu vilja fá ókunnugan prest til að gefa sig saman á forsendum Þjóðkirkjunnar, en það hljóta að vera einu forsendurnar sem hægt er að ætlast til að Þjóðkirkja gefi tvo einstaklinga saman, og ég hef a.m.k. ekki orðið var við að hafi tveir einstaklingar viljað gefast hvort öðru í helgiathöfn innan kirkjunnar að þeim hafi verið sérstaklega meinað um slíka þjónustu. En það kann þó að vera. Ég hef þó heyrt um presta sem hafa ekki viljað gefa saman einstaklinga sem hafa jafnframt viljað stjórna með öllu hvað presturinn segir við athöfnina, þ.á m. meinað honum að framkvæma hana sem helgiathöfn, slíkar kröfur hlýtur prestur að geta hafnað án þess að í því felist þjónustusynjun, enda er þá ekki verið að synja þjónustu sem kirkjunni ber að veita.

  Svo ég endurtaki ofangreinda samlíkingu (og við höldum okkur við matvörurnar sem þú hefur áður lagt upp með) þá verður afgreiðslumaður í kjötverslun ekki krafinn um það að bjóða jafnframt grænmeti til sölu til þess að þóknast grænmetisætum.

  En að hugtakinu „þjónusta“ að þá er ekki úr vegi, fyrir áhugasama, að velta fyrir sér hvað felist raunverulega í þessu blessaða hugtaki, kannski er gott að líta á samþykkt um innri málefni Þjóðkirkjunnar sem áður hefur verið vísað til. Þar er ítarleg upptalning í II. kafla undir millifyrirsögninni þjónusta, á ýmsum atriðum sem kirkjan ætlar sjálfri sér að sinna.

  Enn alltaf má gera betur, og ef við skoðum þá þjónustu sem kirkjunni ber að veita samkvæmt grundvallarkenningum og Biblíunni að þá er líklegt að kirkjan eigi langt í land með að ná þeim „þjónustumarkmiðum“ sem þar eru framsett…en það er önnur umræð. Sú sem hér hefur verið gerð að umtalsefni er lítið annað en útúrsnúningur og er auðvitað nátengd umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju og tilvist þjóðkirkju, og er augljóslega pólitískt skot á Þjóðkirkjunna, en eins og með mörg skotin í stjórnmálalegri umræðu (og raunar trúmálaumræðunni líka) er um lítið annað en hártogun að ræða.

 3. Einar Steingrimsson

  Það er makalaust að lesa „röksemdafærslu“ hins nafnlausa höfundar hér, a.m.k. hvað varðar síðustu athugasemd Sigurðar Hólm. Það er morgunljóst að staðhæfing biskups um að kirkjan þjóni öllum sem til hennar leiti er röng. Það hefur oft verið bent á þetta áður, auk þess sem gera verður ráð fyrir að biskup viti hver afstaða kirkjunnar er í þessum málum.

  Að kalla það hártoganir sem augljóslega eru lygar er ömurlegur subbuskapur, og það fólk sem kennir sig við kristni og þykist fylgja því sem Kristur kenndi en hagar sér með þessum hætti er engu skárra en Farísearnir. Það er svo alveg sérstaklega kaldhæðnislegt að þetta lið sem hefur lagt sig fram um að kenna skólabörnum landsins kreddur sínar skuli sjálft hafa miklu minni skilning á því en við hin hversu augljóst það er að Kristur hefði hent ykkur öfugum út úr musterinu, á eftir hinum víxlurunum, þótt þið braskið með aðra hluti en víxlarar þess tíma gerðu.

 4. Davíð Sveinbjörnsson

  Sæll Einar og velkominn á síðuna.

  Það er makalaust að lesa athugasemd þína sem einkennist af fullyrðingagleði.

  Innantómar fullyrðingafærslur eru iðulega byggðar á misskilningi eða jafnvel þekkingarleysi, nú eða skrifaðar í einhverskonar reiði og þín athugasemd virðist engin undantekning. Í upphafi er vert að leiðrétta þann augljósa misskilning að umrædd grein sé skrifuð undir nafnleynd. Svo er ekki. Allar greinar á síðunni eru skrifaðar undir nafni, en vegna þess að flestar, ef ekki allar eins og staðan er í dag, eru skrifaðar af þeim sem standa að baki síðunni skammstöfum við nöfn okkar við þær greinar sem við skrifum. Undir liðnum „Um okkur“ má finna upplýsingar um þetta, en aldrei höfum við reynt að leyna nöfnum okkar. Eins og sjá má af upphafsstöfunum DS skrifaði ég sjálfur ofangreinda grein.


  Má annars lesa það úr athugasemd þinni að þú fallist á að fyrri tvær athugasemdir Sigurðar sé réttilega lýst sem hártogun?

  Að kalla athugasemd Sigurðar hártogun verður seint með réttu lýst sem lygum eða ömurlegum subbuskap, vissulega mætti kalla það hártogun, útúrsnúning eða kannski helst smámunasemi. En eins og Sigurður teflir athugasemd sinni fram er hún að mínu mati lítið annað en hártogun, í það minnsta er umrædd afstaða, á þeim forsendum sem henni hefur verið teflt fram í skrifum Sigurðar og öðrum sambærilegum skrifum, byggð á ofureinföldun á því hvað felist í þeirri þjónustu sem Þjóðkirkjunni ber að veita þeim sem til hennar leita. Vísa ég þér á viðbrögð mín við athugsemd Hjalta Rúnar sem finna má hér að ofan hvað þetta varðar.

  Ég hef hvatt til þess og bent á það í framangreindum skrifum mínum að þetta velti að miklu leyti á því hvernig við skiljum orðið þjónusta, hvernig við síðar metum árangur kirkjunnar, nú eða vilja kirkjunnar til að veita umrædda þjónustu. Ég hef jafnframt sagt að ég telji kirkjuna ekki endilega fullnægja því þjónustuhlutverki sem henni ber að veita, en það hef ég ekki metið sérstaklega, en hefði gaman af því að skoða það útfrá forsendum sem ég minnist á hér að ofan.

  En hvað athugasemd Sigurðar varðar, gef ég lítið fyrir hana eins og hún er framsett.

 5. Einar Steingrimsson

  Varðandi nafnleyndina, sem greinilega er ekki, þá mætti benda ykkur á að haga ykkur eins og almennt er gert á netinu, þ.e.a.s. að nafngreina fólk skýrt og greinilega. Það er ekki gert hér, og aulalegt að tala um það sem svo að öðrum eigi að vera augljóst hvernig þeir eigi að finna út úr þessu hjá ykkur, í stað þess að gera það augjóst eins og annað fólk er vant að gera á netinu.

  Það væri áhugaverðara að heyra hvaða fullyrðingar mínar það eru sem eru of „glaðar“ að þínu mati en að sjá bara þessa fullyrðingagleði þína um það.

  Nei, ég hef sannarlega ekkert gefið í skyn (eins og ætti að vera þér ljóst) um hinar tvær fullyrðingar Sigurðar, og skil satt að segja ekki hvað það kemur athugasemd minni við.

  Það sem þú segir sjálfur í lokin um skilgreininguna á þjónustu er einmitt það sem þú byggðir gagnrýni þína á grein Sigurðar á, þ.e.a.s. hártogun. Hártogun þess sem á vondan málstað að verja, en reynir samt að verja hann, í stað þess að gangast á hönd þeim öflum sem setja sannleikann ofar öðru.

  Þú virðist, því miður, Davíð, vera dæmigerður fulltrúi ríkiskirkjunnar. Þú ert fullur af þeim hroka og vandlætingu sem Kristur reyndi að kenna ykkur að leggja af. Þú eyðir orku þinni í að berja á góðu fólki, til að verja þá vondu stofnun sem þú tilheyrir, stofnun sem er eins langt frá því að vera kristin og hægt er að hugsa sér.

  Eitt af því sem ég lærði í skóla, og fannst ansi gott, var sagan um Faríseann. Þú ert eitt skýrasta dæmið sem ég hef lengi séð um slíkt fólk.

 6. Davíð Sveinbjörnsson

  Sæll aftur Einar,

  Ábendingin um fyrirkomulag á nafngreiningu höfunda er vel tekið og við munum meta það hvort ástæða sé til að breyta síðunni í fyrra horf þar sem fullt nafn höfundar kom fram við hverja grein. Þangað til höfum við bætt við textaboxi til hliðar við síðuna til útskýringar. En líklegt þykir í ljósi ítrekaðs misskilnings að greinin sé skrifuð undir nafnleynd að við munum endurskoða fyrirkomlag okkar, en þegar við settum síðuna upp aftur þótti okkur full formlegt að tiltaka í við hverja grein fullt nafn höfundar, sérstaklega þegar síðan er nokkurskonar greinasíða þeirra einstaklinga sem að henni standa, og nöfn þeirra koma skýrlega fram undir liðnum „Um okkur“. En ábendingunni er vel tekið.

  Þér virðist heitt í hamstri af skrifum þínum að dæma, þá sér í lagi lýsingum þeim sem þú notar um mig, en það kann þó að vera misskilningur. Ég verð að viðurkenna að ég kem af fjöllum þegar þú segir mig dæmigerðan fulltrúa ríkiskirkjunnar og segir mig verja vondan málstað, ég er einnig afar hissa þegar þú segir mig eyða orku í að berja á góðu fólki til að verja þá vondu stofnun sem ég tilheyri. Nú virðist þú annaðhvort hafa farið mannavillt eða þú hefur, enn og aftur, ekki kynnt þér málin nægilega vel, og þá síðu sem þú hefur ákveðið að kíkja inn á í kvöld.

  Til að upplýsa þig um bakgrunn minn (sem tengist ekki þeirri stofnun sem þú virðist vísa til hér að framan) væri ég meira en til í að hitta þig og þá fengi ég kannski að kynnast þér í leiðinni. Ég býð þér því að ræða við mig yfir kaffibolla í vikunni, ef þú hefur tækifæri til. Ef þú hefur áhuga getur þú sent mér línu á netfangið trumal@trumal.is og við getum skipst á upplýsingum og fundið hentugan tíma til að ræða saman. Láttu mig endilega vita.

  En mér sýnist lítið varið í því að ræða frekar um þessi mál við þig á þessum vettvangi og býð þér góða nótt.

 7. Einar Steingrimsson

  Ég verð ekki á landinu fyrr en viku af júlí, en myndi sannarlega vilja ræða þessi mál við þig yfir kaffibolla síðar í sumar, ef þú nennir að minna mig á það. Netfang mitt er einar@alum.mit.edu.

  Góða nótt.

 8. Hjalti Rúnar

  „En að hugtakinu „þjónusta“ að þá er ekki úr vegi, fyrir áhugasama, að velta fyrir sér hvað felist raunverulega í þessu blessaða hugtaki, kannski er gott að líta á samþykkt um innri málefni Þjóðkirkjunnar sem áður hefur verið vísað til. Þar er ítarleg upptalning í II. kafla undir millifyrirsögninni þjónusta, á ýmsum atriðum sem kirkjan ætlar sjálfri sér að sinna.“

  Davíð, Þjóðkirkjan flokkar hjónavígslu sem grunnþjónustu hennar, ef þú ert að velta því fyrir þér.

  Sú gagnrýni sem ég hef orðið var við er líkari því að kirkjan sé kjötbúð sem grænmetisætur fara fram á að selji sér grænmeti.

  En nú er það þannig að Þjóðkirkjan veitir ákveðna þjónustu (sem hún flokkar sem hluta af grunnþjónustunni sinni: hjónavígslu.

  Og samkvæmt reglum hennar, þá mega prestar ekki veita fólki sem er utan Þjóðkirkjunnar þessa þjónustu. Hérna er sú regla (ég sé að Sigurður Hólm vitnar ekki í þetta):

  Prestar þjóðkirkjunnar eru vígslumenn að lögum einungis þegar annað hjónaefna eða bæði tilheyra þjóðkirkjunni.

  Í dæminu þínu er verslunin að neita að veita öllum sem til hennar koma vöru sem hún selur ekki, en raunin er sú að kirkjan selur ákveðna vöru (hjónavígslu) en neitar fólki um þá vöru eftir því hvort það er skráð í hana eða ekki. Þannig að þetta er eins og kjötverslun myndi neita að selja ákveðnum hópi (utan-Þjóðkirkjufólki, svertingjum eða eitthvað) t.d. svínakjöt.

 9. Davíð Sveinbjörnsson

  Ég reyni að muna þetta Einar og stefni að því að senda þér línu í lok júní og heyri hvernig dagskráin þín verður.

 10. Davíð Sveinbjörnsson

  Sæll Hjalti, eins og ég vona að komi skýrlega fram, bæði í upprunalega texta mínum sem og svörum mínum við þínu innleggi, að þá tel ég það vafa undirorpið hvað felist í þjónustuhugtakinu og er ekki fullkomlega sammála því að hjúskaparvígsla heyri þar skýrlega undir, þó vissulega megi færa fyrir því sterk rök.

  Burtséð frá því hef ég einnig imprað á því að hjónavígsla og hjónavígsla er ekki endilega sami hluturinn. Hér kann að skipta máli hvort hjónavígsla sem farið sé fram á sé í samræmi við þá hjónavígslu sem kirkjan er þá kölluð til að halda utanum. Að mér læðist sá grunur að í þeim tilvikum þar sem prestar hafa synjað um hjónavígslu einstaklinga utan þjóðkirkjunnar hafi synjunin ekki verið „af því bara“ heldur vegna þess að viðkomandi einstaklingar hafi viljað sleppa „trúarhlutanum“ sem hlýtur þó að teljast grundvallarforsenda fyrir hjónavígslu innan kirkjunnar.

  Ekki má líta framhjá því sem felst í þeirri fínu setningu sem þú vísar til „Prestar þjóðkirkjunnar eru vígslumenn að lögum einungis þegar annað hjónaefna eða bæði tilheyra þjóðkirkjunni.“ Í þessari setningu er óbein tilvísun til þess að lög takmarki heimild presta til að vígja hjónaefni þegar hvorugt þeirra tilheyri þjóðkirkjunni.

  Þessi skilningur sem kirkjan virðist hafa á takmörkunum laga er ekki úr lausu lofti gripinn, en kannski er hún einnig úr sér gengin. Í eldri hjúskaparlögum nr. 60/1972 var skýrlega kveðið á um að prestar þjóðkirkjunnar hefðu eingöngu heimild til að framkvæma hjónavígslu ef annað hjónaefni heyrði þjóðkirkjunni til. Orðrétt sagði í 15. gr. þeirra laga:


  „Kirkjuleg hjónavígsla er heimil: 1. Innan þjóðkirkjunnar, ef annað hjónaefni heyrir henni til.“

  þá sagði í 16. gr.


  „Prestar þjóðkirkjunnar annast kirkjulega hjónavígslu innan kirkju sinnar.“

  Þessi lagaskilningur virðist síðan hafa fests sem einhverskonar venja eða venjubundin túlkun á heimildum presta til vígslu þegar núgildandi hjúskaparlög nr. 31/1993 voru sett, þrátt fyrir að breyting á lögunum hafi jafnvel verið ætlað að opna fyrir því að prestar gætu gefið saman einstaklinga sem ekki væru hluti af trúfélagi þeirra.

  En skilningurinn virðist hafa haldist nokkuð því í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 65/2010 (varðaði breytingu á núgildandi hjúskaparlögum) segir m.a.:


  „Með hliðsjón af stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi þykir mega stefna að því að allir muni geta notið kirkjulegrar vígslu innan þjóðkirkjunnar ef annað eða bæði hjónaefna tilheyra þjóðkirkjunni þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns.“

  Og ekki má gleyma því að jafnvel þó að báðir aðilar séu innan þjóðkirkjunnar getur tiltekinn prestur neitað að gefa saman einstaklinga í hjónaband. En þá stendur einstaklingum til boða að leita til annarra presta. Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að ímynda mér þær aðstæður að fjöldi presta hafi neitað einstaklingum um hjónavígslu á forsendum kirkjunnar, á þeirri einu ástæðu að viðkomandi einstaklingar væru ekki innan þjóðkirkjunnar, nema þá ef presturinn hafi ekki talið heimilt (sbr. framangreindan lagaskilning) að framkvæma slíka hjónavígslu.

  Í raun er ekki óeðlilegt að framangreindur lagaskilningur sé til verndar ríkinu sem veitir prestum og forstöðumönnum heimildina til að framkvæma hjónavígsluna og vill stjórna því hvernig þessum réttindum er beitt.

  En að öllu þessu sögðu furða ég mig á því hverskonar einstaklingar óski eftir að ókunnugur prestur gefi þau saman á forsendum lútherskrar kirkju, kjósi þau ekki að tilheyra sömu kirkju eða kirkju sem starfar á sömu forsendum. Trúfélagsskráning utan þjóðkirkjunnar er í sjálfu sér ákveðin yfirlýsing viðkomandi um afstöðu sína til tiltekinna mála, og er þar með, gagnvart prestum, ákveðin vísbending um afstöðu til þeirrar helgiathafnar sem um ræðir. Ég hefði mikinn áhuga á að fá að heyra meira og betur um þessi tilvik þar sem prestar neita að gefa saman einstaklinga í hjónaband sem vilja gera slíkt á forsendum lútherskrar kirkju, án þess að aðrar forsendur hafi spilað þar inn í. Jafnframt væri áhugavert að sjá hvort þeir einstaklingar hafi leitað til fleiri en eins prests, enda getur hvaða prestur sem er synjað á sínum persónulegum forsendum um að gefa saman tiltekna einstaklinga í hjúskap, en í því felst ekki sjálfkrafa að um óforsvaranlega „þjónustusynjun“ þjóðkirkjunnar sem stofnunar sé að ræða.

  Vert er að hafa í huga að þau dæmi sem Sigurður nefnir í þeim greinum sem hann vísar til snúa að:

  1. Útleigu á húsnæði undir kirkjulegar athafnir s.s. hjónavígslu (sem sbr. fyrri samskipti okkar falla augljóslega utan við „þjónustu“ hugtakið.

  2. Hjúskap samkynhneigðra – sem eins og alkunna er hefur verið umdeilt hvort samrýmist trúarkenningum Biblíunnar, slíkur hjúskapur yrði því jafnvel, hvað afstöðu Þjóðkirkjunnar varðar, litið á sem grænmeti, í kjötverslunardæminu okkar.

  3. Hjónavígslu þar sem viðkomandi vildi ekki að athöfnin hefði trúarlegt inntak – enn og aftur er hér ekki um sambærilega þjónustu og um ræðir. Varan er því ekki sú sama, ef við notum verslunardæmið okkar aftur.

  Um aðra þjónustu Þjóðkirkjunnar hefur Sigurður ekki fjallað um, en að byggja aðdróttanir um lygar á þessum dæmum er í besta falli útúrsnúningur á því hvaða kröfur megi gera til þjónustuveitingu þjóðkirkjunnar.

  Hvað dæmið þitt varðar getum við leikið okkur að því endalaust, en mikilvægt er að velta fyrir sér hugtakanotkun þ.á m. hvort varan sé „hjónavígsla trúaðra“ eða bara „hjónavígsla“? Er munur þar á? Er varan kannski „hjónavígsla trúaðra í samræmi við boð Biblíunnar“? Enn og aftur veltur þetta á því hvernig við skiljum þetta hugtak „þjónusta“.

  Að lokum ætla ég ekki frekar að réttlæta eða agnúast út í hverja þá afstöðu sem þjóðkirkjan kann að hafa til þeirra kröfu sem gera má til hjónavígslu innan kirkjunnar, sé sú afstaða yfir höfuð að fullu kunn.

  Eins og ég hef ýjað að hér að framan, tel ég að það megi vel vísa til annarra þátta í starfsemi kirkjunnar (bæði þjóðkirkjunnar sem og annarra trúfélaga) þar sem þjónustuhlutverki hennar er ábótavant. En eins og Sigurður teflir athugasemd sinni fram er þetta meira og minna útúrsnúningur enda byggir hann aðallega á því að Þjóðkirkjan eigi að leigja hverjum sem er kirkjubyggingar sínar til annarrar starfsemi, en í annan stað á hjónavígslum sem samrýmast illa eða deilt er um hvort samrýmist hlutverki og trúarkenningum kirkjunnar. Útleiga eða lán á kirkjubyggingum eða hjónavígslur án trúarlegs innihalds (eða í mótsögn við trúarlegar kenningar) verða ekki talin til þjónustu kirkjunnar. Við hljótum að geta verið sammála um það Hjalti.

 11. Davíð Sveinbjörnsson

  Fyrir áhugasama að þá hefur verið vísað í grein Trúmál.is á eftirfarandi vefslóðum:

  Í athugasemdum við upprunalega grein Sigurðar Hólm á slóðinni http://skodun.is/2013/06/07/thrjar-athugasemdir-vid-predikun-biskups/

  - Hér er sett fram einföld fullyrðing af hálfu Sigurðar um að framangreind umfjöllun mín sé hártogun – meira er ekki sagt.

  Í grein Valgarðs Guðjónssonar á slóðinni http://valgardur.wordpress.com/2013/06/09/frumleg-skilgreining-a-hartogunum/

  -Valgarður virðist fastur í útúrsnúningum Sigurðar um að biskup sé vísvitandi að ljúga að almenningi og tekur einhverskonar fótboltaúrslita dæmi sem er úr öllu samhengi við umræðuefnið.

  Og í athugasemdum við vísun Vantrúar á grein Sigurðar á slóðinni http://www.vantru.is/2013/06/08/14.00/

  -Athugasemd á síðu Vantrúar hefur verið minnst á í framangreindri umræðu milli mín og Hjalta og þarf ekki frekari umfjöllun hérna.

  Umræða þeirra sem mótfallin eru þjóðkirkjunni er afar einsleit og skiljanlega svo, þessir einstaklingar eru síst líklegir til að viðurkenna nokkuð jákvætt um þessa kirkju, hvað þá að viðurkenna útúrsnúninga sína. Og hvorum megin sem einstaklingar standa í þessum málum er stutt í áróðurstimpilinn á málflutninginn.

  Hafið í huga við lestur framangreinds að bæði Sigurður Hólm og Valgarður Guðjónsson eru meðlimir í Siðmennt (og eru opnir um þessa staðreynd á vefsíðum sínum), þeir hafa því hagsmuni, félags síns vegna og í samræmi við stefnu þess, að koma höggi á kirkjuna, í pólitískum tilgangi. Að lesa texta þeirra um þessi mál ætti því a.m.k. að lesast með svipuðu hugarfari og þegar umfjöllun sjálfstæðismanns um mikilvægi einkavæðingar er lesin, umfjöllun Greenpeace um vernd hvala er lesin nú eða umfjöllun pírata um mikilvægi netfrelsis er lesin.

  Hvað umfjöllun mína varðar, er ég ekki í þjóðkirkjunni og hef enga sérstaka hagsmuni af því að verja þjóðkirkjuna. Þvert á móti hefur þessi síða iðulega bent á það sem betur má fara innan þjóðkirkjunnar sem annarra trúfélaga og hefur ekki falið skoðaðnir sínar á þeim vanköntum sem þar kunna að vera.

  En ég er áhugamaður um sanngjarna umfjöllun um málefni trúar- og lífsskoðunarfélaga og tel að síendurteknir útúrsnúningar séu leiðinlegir og þola vel, annað veifið, umfjöllun, jafnvel smámunasama umfjöllun sem endurspeglar áróður hártogarans.

 12. Hjalti Rúnar

  að þá tel ég það vafa undirorpið hvað felist í þjónustuhugtakinu og er ekki fullkomlega sammála því að hjúskaparvígsla heyri þar skýrlega undir, þó vissulega megi færa fyrir því sterk rök.

  Hvað svo sem þér finnst, þá skilgreininir Þjóðkirkjan sjálf hjónavígslu sem grunnþjónustu.

  Hvað dæmið þitt varðar getum við leikið okkur að því endalaust, en mikilvægt er að velta fyrir sér hugtakanotkun þ.á m. hvort varan sé „hjónavígsla trúaðra“ eða bara „hjónavígsla“? Er munur þar á? Er varan kannski „hjónavígsla trúaðra í samræmi við boð Biblíunnar“? Enn og aftur veltur þetta á því hvernig við skiljum þetta hugtak „þjónusta“.

  Davíð, þetta finnst mér vera hártogun.

  Ef ég ætti hárgreiðslustofu og segðist þjóna öllum landsmönnum, en þegar það væri beint á að ég vildi bara klippa hvítt fólk, þá væri svarið mitt að ég þjónaði vissulega öllum landsmönnum, en varan mín væri „klipping hvíts fólks“.

  Ef Þjóðkirkjan skilgreinir eitthvað sem „grunnþjónustu“ hennar, og aðeins fólk sem er skráð í hana getur fengið þá þjónustu, þá er augljóst að hún þjónar ekki öllum, Þjóðkirkjufólk hefur forréttindi.

  Mér finnst í sjálfu sér ekkert rangt við það, en þá ætti Þjóðkirkjan að hætta að tala í sífellu um að fólk sé aldrei spurt út í trúfélagaskráningu sína þegar það biður um þjónustu frá Þjóðkirkjunni.

  Svo hef ég enga hagsmuni af því að ráðast á Þjóðkirkjuna!

  1. Davíð Sveinbjörnsson

   Hjalti, þú segir þetta vera hártogun, ég segi það vera nákvæmni að gera greinarmun á trúarlegri hjónavígslu og borgaralegri hjónavígslu. Kirkjan á Íslandi framkvæmir trúarlegar hjónavígslur á forsendum Biblíunnar, en lagaumhverfi okkar býður kirkjunni og öðrum söfnuðum að slá tvær flugur í einu höggi og slíkar hjónavígslur eru staðfestar jafnframt af ríkisvaldinu. Þetta er ekki svona í fjölmörgum löndum í kringum okkur.

   Það er nákvæmni sem felst í því að skilja hér á milli því við erum að ræða epli og appelsínur. Þegar einstaklingar leita eftir þjónustu kirkjunnar hvað hjónavígslu varðar eru þau að óska eftir helgiathafnar þjónustu. Óski slíkir einstaklingar eftir hjónavígslu á forsendum sem eru andstæðir Biblíunni og/eða eru án trúarlegs inntaks er í raun ekki verið að óska eftir þjónustu kirkjunnar, þá er verið að óska eftir borgaralegri þjónustu sem ríki og sveitarfélög sinna. Sú þjónusta sem kirkjan býður upp á, hvað hjónavígslu varðar, er fyrst og fremst trúarleg. Borgaralegi hluturinn er í rauninni bara kostur sem einfaldar líf þeirra er leitast eftir trúarlegum vígsluathöfnum. Að gera ekki þennan greinarmun er afar villandi.

   1. Hjalti Rúnar

    Davíð: Allt í lagi. Hjónavígsla er „trúarleg þjónusta“ og þess vegna er eðlilegt að kirkjan geri þá kröfu að amk annar vígsluþeginn sé skráður í Þjóðkirkjuna.

    En ef svo er, þá er rangt að segja að kirkjan þjóni öllum, spyrji aldrei um trúfélagsaðild og svo framvegis. Hluti af grunnþjónustu hennar er þá bara fyrir meðlimi hennar.

 13. Sigurður Hólm Gunnarsson

  Greinaritari tekur undir nákvæmlega það sem ég er að segja um þjónustu kirkjunnar en gefur í skyn að ég sé að meina eitthvað annað. Það er óheiðarlegt. Kirkjan þjónar þeim sem eru kristinnar trúar og ekki samkynhneigðum ef prestar vilja það ekki. Sem er fínt.

  Eða eins og ég segi í þessari grein: http://skodun.is/2012/10/11/hvada-ahrif-mun-ny-stjornarskra-hafa-a-stodu-thjodkirkjunnar/

  „Hafa ber í huga að Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla þó talsmenn hennar tali þannig á tyllidögum. Það er til dæmis ekki sjálfsagt að samkynhneigt fólk fái þá þjónustu sem það vill frá kirkjunni. Einstaka prestar ráða því þannig hvort þeir vilja blessa samband samkynhneigðra eða ekki.

  Ég veit svo til þess að fólki hefur verið vísað frá kirkjunni með athafnir vegna þess að það vildi ekki að athöfnin hefði trúarlegt inntak.

  Þjóðkirkjan þjónar ekki öllum og hún á ekki að gera það. Trúfélög eiga að hafa frelsi til að mismuna fólki eftir trúarskoðunum. En slíkt frelsi er ekki viðeigandi á meðan Þjóðkirkjan nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá og stjórnendur hennar tala eins og Þjóðkirkjan sé fyrir alla landsmenn.“

  1. Davíð Sveinbjörnsson

   Sigurður, hornsteinn og meginatriði þjónustu kirkjunnar er í flestum tilvikum háð trúarlegu inntaki. Það er því hreinlega villandi að segja kirkjuna neita fólki um þjónustu þegar kirkjan neitar að framkvæma athöfn án trúarlegs inntaks. Það er engin mismunun sem felst í því. Það er vel þess virði að hafa í huga að þjónusta kirkjunnar er margþætt, sum þjónusta er trúarleg fræðsla og helgihald, önnur þjónusta er líkari samfélagsþjónustu þar sem trúarlegt inntak er ekki endilega forsendan fyrir þjónustunni (eins og með messuhald o.þ.h.) þó að trúin kunni að vera ákveðin drifkraftur þjónustunnar. Hér má nefna hjálparstarf kirkjunnar og margskonar félagsleg aðstoð, og stuðningur þegar sorgin ber að garði. Hér er augljós greinarmunur.

   Það ber líka að halda því til haga að einstaka prestar ráða því einnig hvort þeir vilji gefa saman einstaklinga af gagnkvæmu kyni, ég veit ekki til þess að prestar hafi verið neyddir til að framkvæma hjónavígslur. Í því felst heldur ekki mismunun stofnunarinnar sem slíkrar, samviska hvers einstaklings og sannfæring hlýtur að mega ráða gjörðum þess einstaklings. Þó að krefja megi stofnun um að framkvæma eitthvað er ekki eðlilegt að krefja megi tiltekna einstaklinga innan stofnunar að framkvæma eitthvað, hér hljótum við að gefa einstaklingum svigrúm til að athafna sig skv. sinni persónulegu trúarsannfæringu.

   Hvað tilvitnun þína varðar þar sem þú segir: „Það er til dæmis ekki sjálfsagt að samkynhneigt fólk fái þá þjónustu sem það vill frá kirkjunni.“ lýsir einmitt því viðhorfi sem er afar villandi og raunar svolítið frekt. Auðvitað er ekki sjálfsagt að fólk fái þá þjónustu sem það vill. Fólk kann að vilja allskonar þjónustu, en það þýðir ekki að slík þjónusta sé í boði. Hjónavígsla samkynhneigðra er þjónusta sem var ekki einu sinni í boði borgaralega fyrr en fyrir mjög skömmu og hefur í raun aldrei verið í boði sem slík innan kirkjunnar. Það fer því fjarri að nota slík dæmi til þess að segja kirkjunnar menn ljúga, slíkt er augljós hártogun. Svo vísa ég einnig til viðbragða minna til Hjalta sem þú sérð að ofan.

Hvað hefur þú um málið að segja?