Þjóðkirkja í stjórnarskrá?

Kosningar þær sem haldnar voru síðastliðna helgi hafa verið margumtalaðar og hafa sumir lýst þeim sem skoðanakönnun eða viðhorfskönnun vegna ráðgefandi stöðu þeirra. Eins og alkunna er snérust kosningarnar um tillögu umdeilds skipaðs stjórnalagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga, semsagt nýrri stjórnarskrá. Ferlið frá upphafi, hugmyndafræðin á bakvið stjórnlagaráð og starf þess, umrædd kosning og spurningar þær sem settar voru fram eru allt gagnrýniverðar frá ýmsum sjónarhornum. Svo má lengi deila um nauðsyn þess að umturna stjórnarskrá þeirri sem við í dag eigum.

Áhugamenn um trúmál hafa þó vafalítið fylgst grant með niðurstöðum kosninganna hvað spurningu þrjú á kjörseðlinum varðar. Sú spurning hljómaði svona:

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Við þessari spurningu gátu hinu ráðgefandi kjósendur valið eða Nei. Niðurstaða ráðgefandi atkvæðagreiðslunnar er sú að 51,1% svöruðu játandi og 38,3% svöruðu neitandi. En hvað þýðir þetta?

Þetta eru um margt athyglisverðar tölur. Ef við gerum ráð fyrir því að þeir sem greiddu atkvæði hafi skilið spurninguna svo að þeir vildu halda núverandi skipan mála að þá virðast niðurstöður þessarar ráðgefandi atkvæðagreiðslu vera í ósamræmi við málflutning ýmissa einstaklinga og félagasamtaka sem barist hafa fyrir fulls aðskilnaðar ríkis og kirkju sem og ákveðinna skoðanakannana um málið.

En hvernig stendur á því að 51,1% hinna ráðgefandi kjósenda hafi svarað þessari spurningu játandi? Greinarhöfundur hefur ekkert eitt svar við þessu, sér í lagi í ljósi þess að greinarhöfundur þekkir þónokkuð af meðlimum Þjóðkirkjunnar sem myndu kjósa annarskonar samband milli ríkis og kirkju en nú ríkir – enda kann núverandi skipan mála að hafa minnst að gera um trú manna og meira að gera um venjur og hefðir sem Íslendingar halda fast í. Hvað haldið þið?

Skoðun greinarhöfundar er raunar sú að það eru ýmsir kostir og gallar fyrir kirkjuna hvort sem hún yrði áfram tengd ríkinu eða ekki – jafnvel væru kostir kirkjunnar meiri en gallarnir við það að skiljast fullkomlega frá ríkinu. Hugsanlega mætti líta á þetta á annan hátt, að ríkið hefði ákveðinna hagsmuna að gæta í þessu og að hagsmunir ríkisins af því að tengjast Þjóðkirkjunni formlega væru sterkir (hér vísa ég ekki einvörðungu til hugsanlegra fjárhagslegra hagsmuna tengdum umdeildum 1997 samkomulagi milli ríkis og kirkju).

Þá er jafnframt óljóst að hvernig afstaða þeirra sem ekki kusu eða þeirra 10,6% sem ekki tóku afstöðu til spurningarinnar var til kirkjunnar og hver skilningur þeirra sem kusu játandi var á spurningunni.

Miðað við áherslu samfélagsins á því að leggja skuli niðurstöður ráðgefandi atkvæðagreiðslunnar til grundvallar vinnu Alþingis í stjórnskipunarmálum að þá má gera ráð fyrir því að aðskilnaður ríkis og kirkju verði ekki að vænta í náinni framtíð. Baráttumenn fyrir slíkum aðskilnaði munu þó eflaust tvíeflast og hver veit nema samsæriskenningar um smölun, ójafnræði milli hagsmunahópa og kosningaáróður munu líta dagsins ljós í náinni framtíð.

-DS

 

2 hugrenningar um “Þjóðkirkja í stjórnarskrá?

 1. Haukur Ágústsson

  Mér þykir eindregið, að alls ekki eigi að birta ahugasemdir án þess að þess sé getið, hver hefur látið þær frá sér fara. S.s. nafn höundar á að vera með, en ekki t.d. einungis upphafsstafir – eða jafnvel ekki neitt, sem bendir tl höfundar.

  Haukur Ágústsson

 2. Trúmál.is Post author

  Sæll Haukur,

  Þessi síða heimilar ýmsar athugasemdir, ef þær eru málefnalegar, frá einstaklingum sem gefa upp nafn og netfang – við höfum ekki krafist þess að þeir sem skilji eftir athugasemdir gefi upp fullt nafn. IP-tala skráist jafnframt um leið og viðkomandi skráir inn athugasemd sína.

  Hvað greinar, pistla, fréttir og annað efni á síðunni að þá segir undir liðnum „Um Trúmál.is“ hverjir haldi utanum síðuna. Efni sem kemur frá þeim, og/eða öðrum en fyrir tilstilli þeirra er ekki endilega merkt, t.d. ef það heyrir undir „umræður“, „ritstjórn“, „kynningu“ eða „stutt innlegg“ enda er slíkt efni yfirleitt alltaf efni frá þessum aðilum, í það minnsta komið inn fyrir tilstilli þeirra og það þykir óþarfi að merkja það sérstaklega, enda koma þessar upplýsinga fram undir „Um Trúmál.is“. Almennar greinar eru síðan almennt merktar upphafstöfum höfundar ef að hann er annar þeirra sem standa að baki síðunnar, að öðrum kosti birtum við fullt nafn höfundar eins og við höfum ávallt gert á fyrirrennara þessarar síðu, trumal.wordpress.com. Í einstaka tilvikum birtum við þó greinar annarra undir upphafsstöfum þeirra, en þá er alltaf hægt að leita upplýsinga um þann höfund með því að hafa samband við þá sem standa að baki síðunni.

  Almennt um stjórn og utanumhald á síðunni áskiljum við okkur hinsvegar allan rétt til þess að haga síðunni á þann hátt sem við kjósum og breyta stefnu eftir atvikum. Það er síðan lesanda að velja hvort þeir kjósi að lesa síðuna og/eða taka meira eða minna mark á efni þess vegna stefnunnar sem síðan tekur.

Leave a Reply to Trúmál.is Cancel reply