Ég sakfelli þig ekki heldur

997007_10152098223514399_1179281796_nUm daginn var mér hugsað til eftirfarandi Biblíusögu:

Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fór þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“ (Jóh. 8:3-11)

Þegar ég velti þessari sögu fyrir mér, gerði ég mér grein fyrir að (fyrir utan að velta vöngum yfir hvað Jesús skrifaði í sandinn) þá hef ég yfirleitt einungis hugsað um þessa sögu frá sjónarhorni faríseanna og fræðimannanna. Ég tek þá inn skilaboðin að það er ekki mitt hlutverk að dæma aðra. En um daginn gerði ég mér grein fyrir hversu mikið ég er líka eins og konan. Við erum syndarar, tilbúin að verða dæmd og þó að syndir okkar séu kannski dæmdar mismikið af þjóðfélaginu sem við búum í, þá er synd engu að síður synd. Ég velti fyrir mér hvort að konan hafi gert sér fyllilega grein fyrir því hver það var og hvað fólst í því þegar Jesús sagði: Ég sakfelli þig ekki heldur.“

Hér var hann, hinn fullkomni og syndlausi maður sem reyndist líka vera eini maðurinn sem vissi um hvern einasta hlut sem hún hafði nokkurn tímann gert rangt, sérver mistök, sérhverja synd… þessi eini einstaklingur sem vissi þetta allt og var sjálfur fullkominn sagði „ég sakfelli þig ekki heldur.“ Í þessum 5 orðum voru skilaboð um fyrirgefningu, skilning, von og óskilyrtan kærleika. 

Nú þegar jólin ganga í garð minnumst við þess að Jesús fæddist inn í þennan heim. Hann fæddist inn í heiminn með tilgang! Tilgang sem kom til vegna kærleika… kærleika til þíns!

Hann fæddist til að ganga í gegnum lífið sem maður, til að upplifa það sem við göngum í gegnum, jafnt gott sem slæmt, til að sýna okkur skilning. Hann upplfiði: hungur, þorsta og freistingar þegar hann fastaði í eyðimörkinni; reiði, þegar hann sá sölumennina í musterinu; afneitun frá besta vini hans Pétri; svik frá öðrum nánum vini, Júdasi Ískaríot; höfnun frá fólkinu sem hrópaði „krossfestu hann“ þrátt fyrir að sama fólkið hafið fagnað komu hans til Jerúsalem minna en viku áður; ótta er hann bað um að kaleikur krossfestingarinnar væri tekinn frá honum, en þó aðeins ef Faðirinn vildi. Hann upplifði þetta allt og þess vegna getur hann sýnt okkur skilning á því sem við göngum í gegnum.

Þegar hann fullkomnaði verkið á krossinum, þá tók hann refsinguna fyrir syndir okkar á sig og uppfyllti þannig réttlæti Guðs á sama tíma og hann opnaði leið fyrirgefningarinnar fyrir okkur. Hann vissi og veit alla veikleika okkar, syndir og hann fór alla leiðina til að gefa okkur fyrirgefningu synda okkar sem við þörfnumst og láta okkur vita að hann tekur við okkur eins og við erum og mætir okkur þar sem við erum með opnum faðmi. Hann stígur upp þar sem við föllum niður og þörfnumst hans hjálpar.

Hann kom inn í heiminn til að færa von, að í fyrir hann, getum við frelsast og átt eilíft líf með honum. 

Einhver sagði einhvern tímann: „Það besta í lífinu er að finna einhvern sem veit um öll þín mistök og alla þína veikleika og finnst þú samt vera alveg dásamlegur“. Jesús kom til jarðarinnar, var fæddur í jötu af því að honum finnst þú vera alveg dásamlegur og elskar þig skilyrðislaust. 

Hann segir við okkur í dag „ég sakfelli þig ekki heldur“ af því að hann hefur þegar tekið syndir okkar upp á krossinn svo að ef að við viljum, getum við átt eilíft líf með honum. (Hann neyðir engan til að vera hjá sér heldur gefur okkur valið.) En hann stoppar ekki þar. Hann skilur okkur eftir með hvatningu að fara, og „syndga ekki framar“. Hann hvetur okkur til þess að bæta okkur, leggja hart að okkur og stefna hátt, stefna að því að verða líkari honum.

Þetta er lífslangt verkefni og hann veit það, en í gegnum hann sem veitir okkur styrk, getum við komist nær og nær markmiðinu og verðlaununum sem bíða okkar á himnum! :)

Gleðileg jól! :)

 

Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson

Hvað hefur þú um málið að segja?