Útvarpa nágrannaþjóðirnar bænum?

BBC4Það er óhætt að segja að mikill fjöldi hefur tjáð sig opinberlega og/eða við Rúv, um ákvörðun stofnunarinnar að taka bænir og stuttar hugleiðingar af dagskrá Rásar 1. Stofnaður hefur verið hópur á Facebook sem á örfáum dögum telur nú tæplega 5000 manns. Hópurinn heitir „Orð kvöldsins og morgunbæn verði áfram á Rúv“. Hvetjum við áhugasama að kynna sér síðuna og líka við hana ef efni hennar höfðar til þeirra.

DRP2Eins og fyrra innlegg okkar bar með sér er ákvörðun Rúv um margt áhugaverð. Ákveðið var að kanna stuttlega hvernig málum væri háttað í ríkisfjölmiðlum nágrannaþjóða okkar, og voru vefsíður ríkisútvarpanna í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Bretlandi skoðaðar. Lausleg athugun leiddi í ljós að öll löndin bjóða í dagskrá sinni upp á  bænastundir og/eða trúarlegar hugleiðingar, við yfirborðskennda athugun okkar virtist þetta alltaf vera kristilegt efni. Þó að það sem nágrannaþjóðir okkar taka sér fyrir hendur eigi ekki sjálfkrafa að vera fyrirmynd fyrir Íslendinga höfum við í gegnum tíðina gjarnan litið jákvæðum augum á það sem vel hefur tekist hjá frændþjóðum okkar. Mögulega ættu dagskrárstjóri Rásar 1 og útvarpsstjóri Rúv að kynna sér af hverju nágrönnum okkar til vesturs og suðurs þykir rétt að bjóða upp á umrædda dagskrárliði.

Fyrir áhugasama eru tenglar á vefsíður ríkisútvarpanna og bænaefnið hér að neðan:

BBC 4 Prayer for the day

DR 2 Morgenandagten

NRK Morgenandakten

Sverigesradio Morgonandakten

Hvað fyrstu viðbrögð Ríkisútvarpsins varðar má hér sjá það sem virðist vera nokkuð staðlað svar dagskrárstjóra og útvarpsstjóra við þeim tölvupóstum sem þeim hefur borist um málið:

„Í lok ágúst hefst vetrardagskrá RÚV og þá mun dagskrá Rásar 1 taka nokkrum breytingum sem miða að því að rásin sinni menningar- og samfélagshlutverki sínu með enn öflugri hætti en hingað til. Stefnt er að því dagskráin verði markvissari, betri og skýrari gagnvart hlustendum RÚV. Breytingarnar miða að því að sækja fram í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar, án þess þó að gera neinar grundavallarbreytingar á hlutverki eða dagskrá Rásarinnar. Sem fyrr mun Rás 1 bjóða upp á framúrskarandi og vandað menningarefni og hvetja til samfélagslegrar umræðu á víðum grunni. Nýir kraftar bætast í öflugan hóp dagskrárgerðarmanna Rásar 1 sem fyrir er og stefnt er að auknu samstarfi Rásarinnar við aðra miðla RÚV.

Hluti breytinganna snýr að því að skerpa á dagskrársetningu og fækka stuttum uppbrotum á dagskránni en mæta því með markvissari dagskrárgerð á tíma sem betur hentar viðkomandi dagskrárefni. Meðal stuttra dagskrárliða sem falla úr dagskrá eru Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldsins en í staðinn verður efnt til nýs þáttar á besta útsendingartíma eftir kvöldfréttir á sunnudögum þar sem fluttar verða hugleiðingar um trú, menningu og samfélag. Um er að ræða pistlaröð þar sem prestar, guðfræðingar og annað fólk innan þjóðkirkjunnar hefur orðið ásamt fleirum sem hugleitt hafa samspil trúar, menningar og samfélags fyrr og nú. Markmiðið er að efla umræðu um þetta mikilvæga viðfangsefni og um leið að beina sjónum hlustenda að gildi trúarlífs í menningu okkar og samfélagi. Með þessu er stefnt að því að umrætt efni nái eyrum fleiri landsmanna en þeir dagskrárliðir sem falla burt. Hlustun á þá hefur verið afar lítil. Samhliða verður bænaefni gert aðgengilegt á nýjum vef sem fer í loftið í haust og þannig verður fjölda bæna gerður aðgengilegur þegar hverjum og einum hentar. Leitað hefur verið til Biskupsstofu um að tilnefna höfunda í nýja pistlaröð. Rás 1 og þjóðkirkjan hafa átt í löngu og farsælu samstarfi sem meðal annars hefur heyrst í messuflutningi á hverjum sunnudegi og á hátíðisdögum kirkjunnar. Messur verða áfram á dagskrá Rásar 1.

Bestu kveðjur,
Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1 og
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri „

Þó að bréfið sé væntanlega vel meint, sýnir afstaðan ekki mikinn skilning gagnvart ástæðum sem liggja að baki mótmælum ákvörðunarinnar. Málið snýst einfaldlega ekki um að fjöldi fólks vilji lengri menningarþætti um trúmál. Þá má velta fyrir sér á hverju dagskrárstjórinn byggir afstöðu sína um að dagskrárliðirnir njóti lítillar hlustunnar.  Dagskrárliðirnir sem hann segir að hafi litla hlustun eru á tímum þar sem margir eru sofandi, seint á kvöldin og snemma á morgnanna og njóta eðli málsins samkvæmt lítillar hlustunar. Þá er jafnframt eðlilegt að taka tillit til þess að fjöldi þeirra sem eru komnir á eftirlaunaaldurinn (65+) á Íslandi eru um fjörtíu þúsund talsins, hvort að þeirra þáttur í könnunum sem gerðar eru, komi sanngjarnlega fram, veit ég ekki, en af einfaldri skoðun virðast kannanir ekki taka tillit til aldurshóps sem er kominn yfir 80 árin en þeir einstaklingar eru töluvert margir og þeirra skoðanir virðast ekki fá að heyrast, sem er afar sorglegt.

Það er von að Rúv muni á næstunni bregðast við áköllum sem fram hafa komið og jafnframt er ekki ólíklegt að þeim verði afhentur undirskriftarlisti með áskorun frá þeim sem er annt um þetta málefni.

D.S.

2 hugrenningar um “Útvarpa nágrannaþjóðirnar bænum?

  1. Gunnlaugur Þorleifsson

    Ég segi bara það að ég er kominn yfir áttrætt og sakna ekki bænaþruglsins í útvarpinu. Tel raunar að fyrirbænir og annað prestasnakk eigi alls ekkert erindi í ríkisútvarp allra landsmanna. Ríkið er ekki trúarstofnun, ríkið er og á að vera veraldlegt. Veit ekki betur en að starfandi séu í landinu sjónvarps- og útvarpsstöðvar sannra trúmenna. Öllum er frjálst að njóta þeirra. Ég vil hnykkja á og segi: Burt með messurnar úr útvarpinu! En menningarefni skal eiga greiðari aðgang en verið hefur: Velkomnir Bach og Buxtehude, Beethoven og Mahler. Og allir hinir tónjöfrarnir, jafnvel líka Arvo Pärt og Messiaen þótt meinkristnir séu og með leyfi að segja, dálítið leiðinlegir.

Leave a Reply to Nils Gíslason Cancel reply