Eyðileggjum ekki umræðuna með óþarfa

ras1.jpgÞví miður er það svo að þegar trúmál, stjórnmál og önnur málefni sem iðulega snerta tilfinningar fólks að þá er stutt í óæskileg, dónaleg og jafnvel meiðandi ummæli séu sett fram. Slík ummæli eiga það til að geta gjaldfellt málstað annars eða beggja aðila að samtalinu og jafnvel umræðuna sem slíka. Nýleg dæmi er mikill áhugi tiltekinna framsóknarmanna á  múslimum í aðdraganda síðustu sveitastjórnarkosninga.

Þegar ákvarðanir stjórnvalda eða annarskonar yfirvalda verða umdeildar þá ákveða sumir að „ráðast“ í orði á þá einstaklinga sem ákvörðunina tóku. Oft er þeim gerðar upp skoðanir eða vanhæfni langt útfyrir efni ákvörðunarinnar. Slík ummæli geta leitt til þess að málflutningurinn missir marks og eru iðulega persónumeiðandi þegar menn fara úr hófi fram í gagnrýni sinni.

Í kjölfar ákvörðunar Rúv um að taka bænir af dagskrá Rásar 1 hefur því miður borið á því að einstaka aðilar tjái sig, mögulega í miklu tilfinningahita, þannig að málflutningurinn getur vart talist málefnalegur og kann að gjaldfella umræðuna. Sem dæmi um slík ummæli má nefna:

„Ef að þessir menn hlusta ekki á hlustendur rásar eitt þá eiga þeir að fjúka á haf út það er þeim til skammar því þetta er dagskráliður sem fólk vill hafa í útvarpi allra landsmanna rás eitt, Vonandi taka þeir sér tak og láti af sinni þvermóðsku og láti þennan dagskrálið í friði á rás eitt því fólk vill hafa bænar lestur áfram þar og hana nú..!“

Ummælin bera þess merki að hafa verið skrifuð „í hita leiksins“ og það er það sem oft vill gerast. Að þessir menn eigi að „fjúka á haf út“ er varla raunverulegur vilji þess sem þetta skrifar, jafnvel þó við gerum ráð fyrir að höfundurinn vilji eingöngu láta reka stjórnendurna eru ummælin ekki falleg og ekki til þess fallin að njóta neinnar samúðar þeirra sem ekki eru skoðanabræður þessa einstaklings, og jafnvel heldur ekki skoðanabræðra hans. Það að mennirnir skuli vonandi láta af  „sinni þvermóðsku“ er líka spurning. Nú er ekki liðin vika frá því að fréttir um þetta bárust fyrst, er ekki eðlilegt að bíða með að gera stjórnendum Rúv upp þvermóðsku þangað til lengri tími er liðinn þar sem afstaða þeirra kemur betur í ljós.

Sumir hafa tjáð sig á þann hátt að menn eigi að missa vinnuna fyrir þær einar sakir að taka ákvörðun sem þeim er ekki þóknanleg, og oft er hrokinn í ummælunum allnokkur. Aftur eru slíkar athugasemdir ekki til þess fallnar að koma málefnalegri afstöðu um það sem deilt er á framfæri.

Leiðinlegust eru ummælin er tengja ákvörðunina beint við ádeilu á kristinfræðikennslu í skólum, snúa að múslimahræðslu eða eru með öllu útfyrir velsæmi og almenna kurteisi. Sem betur fer er hlutfallslega lítið af slíkum ummælum. Þá eiga stjórnendur hópsins á Facebook „Orð kvöldsins og Morgunbæn verði áfram á RÚV hrós skilið því flest allt efni sem sett hefur verið í hópinn og er meiðandi eða fer vel útfyrir efnið hefur verið eytt. Auðvitað er framsetning einstaklinga mismunandi og tjáningarfrelsið almennt ríkt en vinnubrögðin í hópnum eru almennt til fyrirmyndar.

Eyðileggjum ekki umræðuna, höldum henni málefnalegri…en þó beittri!

D.S.

Hvað hefur þú um málið að segja?