Að geta tekið réttmætri gagnrýni – Rúv og bænirnar aftur…

rúvSíðastliðna daga hafa ýmsir kristnir einstaklingar orðið afar sárir yfir ákvörðun Rúv um að taka af dagskrá Rásar 1 stutt bænainnlegg sem hafa verið á dagskrá síðastliðna áratugi. Ákvörðunin kemur flatt upp á marga og eru ýmsir sem eru afar sárir yfir ákvörðuninni. En því miður virðist sem stór hópur þessara sáru einstaklinga eigi erfitt með að taka réttmætri gagnrýni á mótmæli þeirra. Það er miður, því það getur veikt málstaðinn og rýrt trúverðugleika.

Á þessari síðu hefur verið tekið undir þau sjónarmið að ákvörðunin snertir sannanlega tiltekinn hóp á Íslandi sem þykir afar vænt um þessa dagskrá. Þá hefur einnig verið bent á það að opinberar ástæður ákvörðunarinnar virðast ekki ganga upp að öllu leyti fyrir utanaðkomandi aðila. Þá virðist ákvörðunin ekki taka tillit til þess hlustendahóps sem hlýðir gjarnan á þennan dagskrárlið.

Athygli vekur að opinberar ástæður ákvörðunarinnar hafa ekki snert á trúarlegu eðli þessa dagskrárliðs, þvert á móti hefur Rúv t.a.m. sagt að messuhald muni áfram vera útvarpað og aðrir svipaðir dagskrárliðir. Í ljósi stefnu ríkisfjölmiðla í nágrannalöndum myndi það aukinheldur vekja upp spurningar hversvegna þeir ríkisfjölmiðlar, sem starfa vissulega í fjölmenningarlegu samfélagi, jafnvel  við aukna fjölbreytni samanborið við íslenskt þjóðfélag, sjái sér fært að bjóða upp á bænahald í útvarpinu en Rúv gerir það ekki.

Í ljósi alls þessa og þeirra opinberu umræðu sem hefur verið í gangi á síðastliðnum árum hvað varðar tengsl trúar, ríkis og samfélagsins, hafa kristnir upp til hópa tekið þessari ákvörðun illa og tekið veikum röksemdum Rúv sem yfirskin yfir pólitíska stefnu er varðar trúmál. Kemur það því ekki á óvart að málið í dag nær útfyrir þann hlustendahóp sem hlýðir á útvarpsstöðina, enda hafa ýmsir tjáð sig opinberlega bæði með og á móti þessum hugmyndum, og má vel áætla að tiltekið hlutfall þeirra séu ekki reglulegir hlustendur stöðvarinnar.

Það eru m.a. þessi sjónarmið sem hafa orðið til þess að stór hópur fólks einbeitir sér að ákvörðun Rúv í stað þess að skoða aðra möguleika á því að þiggja umrædda þjónustu, s.s. að aðrar útvarpsstöðvar veiti hana. Vissulega er (eða ætti) dreifing Rúv að vera öruggari og meiri en flestra annarra útvarpsstöðva í landinu, og landsbyggðasjónarmið kunna því að skipta máli, en það er sannanlega réttmætt að benda á aðrar útvarpsstöðvar geti þjónustað með þessum hætti. Áframhaldandi starfsemi slíkra útvarpsstöðva er þó ekki jafntrygg og ríkisútvarpsins sem þiggur almannafé til að standa undir kostnaði.

Hádegisfréttir Rúv og skráningar í Facebook hópinn

Í hádegisfréttum Rúv í dag var fjallað örstutt um Facebook hóp sem stofnaður hefur verið, og vísað hefur verið til á síðum Trúmál.is, og mótmælir ákvörðun Rúv. Kom þar fram afar réttmæt gagnrýni á hópinn og stærðar hans. Þar er á það bent að hægt er að skrá einstaklinga í  hópinn án þess að þeir átti sig endilega á því (sér í lagi ef þeir eru óvirkir eða lítt virkir Facebook notendur) og án þeirra samþykkist. Einstaklingur sem skráður er í hópinn getur þó ákveðið að skrá sig úr honum, og jafnframt komið í veg fyrir frekari skráningar í hópinn með því að haka við þar til gert box.

Facebook skilaboðÞví miður hefur þessi gagnrýni fréttastöðvarinnar verið illa tekið af einstaklingum í hópnum sbr. t.d. athugasemdina hér til hliðar, en gagnrýnin á þó fyllilega rétt á sér. Það að í dag séu yfir 6000 manns skráðir í hópinn er afar flott og almennt er fólk afar upptekið af fjölda þeirra sem skráir sig í svona hópa. „Því fleiri því öflugri hópur“ er iðulega hugsunin. Það að þessir 6000 einstaklingar hafi í raun ekki tekið afstöðu í málinu, er afar mikilvægt og rýrir sannanlega áhrif þessara tölu. Þessi gagnrýni er því réttmæt og stjórnendur síðunnar ættu að taka tillit til hennar og reyna að sporna við því að einstaklingum sé bætt í hópinn án vitundar eða, eftir atvikum, vilja þeirra. Í stað þess að hafa hóp á Facebook, hefði t.a.m. mátt setja upp „vegg“ sem fólk líkar við.

Hvort það skipti svo raunverulega einhverju máli, eða ætti að skipta einhverju máli, hversu margir hafa skráð sig í tiltekinn hóp á Facebook er svo önnur ella. Rafrænar undirskriftarherferðir hafa orðið afar vinsælar í seinni tíð og í sumum umræðum er teflt fram skráningartölum í hópum gagnstæðra fylkinga sem vísbendingu um „vinsældir“ tiltekinnar afstöðu. Í lýðræðisþjóðfélagi þykja svo slíkar vinsældir skipta máli við ákvarðanatöku. Það verður sagt hér að fjöldi manna í tilteknum Facebook hóp getur vissulega þótt vísbending um þá sem láta sér tiltekið málefni varða, en verður þó að taka með varúð. Skynsemi verður jafnframt að beita við móttöku rafrænna undirskrifta, sem og skriflegra.

Þá má líka velta fyrir sér hversu oft Rúv eða aðrir fjölmiðlar hafi bent á slík vinnubrögð hér áður, hvort það sé sérstök ástæða fyrir því að fréttastofa fjölmiðilsins sem verið er að gagnrýna telji rétt að rýra málstað og málflutning mótmælenda sérstaklega, án þess að hafa gert slíkt í öðrum sambærilegum tilvikum. Rannsókn á slíku bíður betri tíma.

D.S.

Hvað hefur þú um málið að segja?