Graham feðgar og mormónar

Fjölmiðlar vestanhafs einbeita sér nú að forsetakosningum þar ytra. Eins og algengt er í bandarískum stjórnmálum skipa siðferðis og trúmál ákveðinn sess í þeirri umræðu sem skapast. Oft taka kirkjur sér saman og hvetja safnaðarmeðlimi sína til þess að kjósa einn frambjóðanda umfram annan.

Að hve miklu leiti kirkjur ættu að blanda sér í pólitík er umdeilanlegt. Hér á Íslandi er ekki mikil hefð fyrir slíku, þó að stöku sinnum geri prestar stjórnmál í landinu að umtalsefni úr ræðupúlti safnaðarins. Þó mönnum finnist þetta oft óþægilegt, eru vafalítið mörg tilvik sem kalla á eðlilega þátttöku kirkju og kristinna einstaklinga í pólitík. Í Bandaríkjunum er þetta afar algengt, t.a.m. hvetja safnaðarleiðtogar, t.d. hinn títt nefndur Rick Warren, leiðtogi Saddleback kirkjunnar í Kaliforníu, meðlimi sína til þess að kjósa mann sem deilir sömu siðferðislegum gildum og trúin leggur upp með. Í því samhengi vísast iðurlega til þriggja atriða, lífs, kynlífs og hjónabandsins. Nú hafa hinsvegar vaknað umræður um opinbera afstöðu og hvatningu Billy Grahams og sonar hans, Franklin Graham til kosningar Mitt Romneys, sem er forsetaframbjóðanda Repúblikana flokksins. Ástæðan fyrir þessari umræðu er að Mitt Romney er Mormóni.

Hversvegna vekur þessi afstaða Graham feðgana slíka athygli? Það er vegna þess að í langan tíma hefur verið litið á Mormónakirkjuna sem „költ“ eða sértrúarsöfnuð og afar fáar kristilegar kirkjudeildir (ef nokkrar) líta á Mormóna sem deild innan kristinnar kirkju. Það vekur vissulega athygli að Obama, sitjandi forseti, sem segist vera kristinnar trúar sé ekki talin vera slíkur vegna afstöðu sinnar til ýmissa siðferðislegra málefna og hljóti þ.a.l. ekki náð fyrir augum Í ljósi þessa finnst mörgum kristnum óþægilegt að fá mann með þennan trúarbakgrunn til þess að taka mikilvægar stjórnmálaákvarðanir. Samhliða hvatningu Graham feðganna um að kjósa Mitt Romney tók Billy Graham út af vefsíðu sinni tilvísun til þess að Mormónar væru hluti af „költ“ ásamt Vottum Jehóva, Vísindakirkjunni, Spíritistum o.fl. (Á Archive.org má sjá umrædda síðu sem hefur verið tekin út.). Ástæðan fyrir þessum breytingum er að sögn talsmanna Billy Grahams sú að þeir vildu ekki fara út í guðfræðilega orðaræðu um eitthvað sem hefur verið gert að pólitísku bitbeini í forsetaframboðinu.

Bæði Bill og Franklin Graham hafa tjáð sig um það að þegar kemur að ákveðnum siðferðismálum að þá standi lífsskoðanir Romneys nær kristnum lífsgildum heldur en þær sem Obama stendur fyrir. Af þessum ástæðum geta kristnir og jafnvel ber þeim að fylkja liði á bakvið Romney.

Það er margt í þessari umræðu allri sem hefur vakið athygli okkar. Í fyrsta lagi er það ofuráhersla Billy Graham og sonar hans á gildum sem hann lýsir sem grundvallar Biblíugildum. Þetta er vernd lífsins og stuðningur við hefðbundinn Biblíuskilning á hjónabandi karls og konu. Þá leggur hann einnig áherslu á stuðning við Ísraelsþjóðina. Í ljósi þessa veltum við því upp af hverju önnur gildi sem Jesús Kristur leggur áherslu á í gegnum guðspjöllin eru ekki talin fram af Billy Graham? Til þess að minnast á örfá þeirra má nefna: elska og hjálpa náunga, fæða hina hungruðu, lækna hina sjúku, hugga hina hrjáðu. Af hverju er fókusinn eingöngu á samkynhneigð og fóstureyðingar en ekki atriði sem hafa með hið daglega líf kristinna einstaklinga að gera? Af hverju er engin áhersla á afstöðu í utanríkismálum til stríðsreksturs erlendis? Eða afstöðu til gróðrar og neysluhyggju sem einkennir um margt Bandaríkin?

Með þessum spurningum er ekki verið að varpa rýrð á þau gildi sem Billy Graham leggur áherslu á. Það er hinsvegar bagalegt að líta einvörðungu á þessi afar pólitískt umdeildu gildi innan Bandaríkjanna, þegar mörg önnur Biblíuleg gildi megi finna í Biblíunni t.a.m. um friðflytjendur og miskunsemi.

Þrátt fyrir framangreint er það ekki afstaða greinarhöfundar að Obama þyki endilega vænni kostur en Romney, né öfugt. Engin afstaða er tekin til þess hér. En þessi atriði og nýleg ráðgefandi atkvæðagreiðsla á Íslandi vekja mann til umhugsunar um að hve miklu leyti rétt sé að blanda saman trú, siðferði og pólitík? Hvað finnst þér? Skipta trúar-eða lífsskoðanir stjórnmálamanna máli? Skiptir máli að Mitt Romney tilheyri hóp sem sé almennt litið á sem sérstrúarhóp eða jafnvel „költ“?

Nánari upplýsingar um mormóna og kristna trú má finna víðsvegar á netinu t.d. hér og hér.

-DS

Ein hugrenning um “Graham feðgar og mormónar

  1. Nils Gíslason

    Ef við leggjum eitthvað til þessara mála þá er hið nýja lögmál sem Jesús gaf okkur, Að elska náungann alla, alltaf. Ef elska stýrir orðum okkar og gjörðum, þá þurfum við ekki að týna frameinhver atriði og deila um þau, heldur sýna elskuna bæði í ORÐUM OG GJÖRÐUM,ALLTAF.

Hvað hefur þú um málið að segja?