Ögmundur: Siðmennt en ekki Kárahnjúkar

Ögmundur Jónason innanríkisráðherra gerir andstöðu við frumvarp um lífsskoðunarfélög að umtalsefni í aðsendri grein Fréttablaðsins í dag. Þar rekur hann í stuttu máli að andstæðingar frumvarpsins hafi hingað til komið í veg fyrir atkvæðagreiðslu en frumvarpið snýst um viðurkenningu á lífsskoðunarfélögum á borð við Siðmennt þannig að þau njóti jafnrar stöðu á við trúfélög gagnvart ríkisvaldinu. Í aðsendri grein sinni kallar Ögmundur eftir því að þeir sem standi gegn þessu frumvarpi geri grein fyrir afstöðu sinni og þeim hagsmunum sem í húfi séu, enda sé Siðmennt hvorki Kárahnjúkar né bankaeinkavæðing heldur hefur félagið uppskorið almenna viðurkenningu og virðingu skv. orðum ráðherrans.

Nú þekkjum við ekki hverjir helstu andstæðingar frumvarpsins eru sem Ögmundur reynir að skora á, en frumvarpið virðist hafa dagað uppi á síðastliðnu þingi og er komið inn aftur og inn í allsherjar- og menntamálanefnd á yfirstandandi þingi.

Í fyrra komst frumvarpið þó á það stig að umsagnir hagsmunaðila bárust nefndinni. Meðal þeirra sem sendu inn umsagnir voru: Biskupsstofa, Hvítasunnukirkjan Fíladelfía, KFUM og K, Baháí, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Umboðsmaður barna, og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Engin þessara umsagnaraðila mótmælti meginmarkmiðum frumvarpsins. Þvert á móti var því iðulega fagnað. Þessi fórnarlambsleikur ráðherrans vekur því strax upp spurningar. Athygli vekur einnig að Siðmennt skilaði ekki umsögn til þingsins, en það skýrist hugsanlega af því að Siðmennt tók afar virkan þátt í samningu frumvarpsins innan ráðuneytisins umfram aðra aðila, sem kann einnig að vekja sýnar spurningar.

Meðal athugasemda og ábendinga sem fram komu í umsögnum aðila við frumvarpið var ábending Biskups Íslands um orðalag 14. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um lög um mannanöfn. En þar segir m.a. að eftir breytingu skuli 2. mgr. 2. gr. mannanafnalaganna hljóma svona: „Barn öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi.“ Biskup Íslands stingur hinsvegar upp á eftirfarandi orðalagi: „Nafn barns skal skráð við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi…“ og útskýrir það á hinn eðlilega hátt að skírnin sé ekki nafngjöf heldur trúarleg athöfn en að skráning nafns fari iðulega fram samhliða þessari athöfn. Meira að segja stingur Biskup Íslands upp á að það þurfi ekki að tiltaka þjóðkirkjuna sérstaklega og spyr: „Af hverju er það ekki bara: …skráð við skírn í trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Þjóðskrár … Af hverju þarf að nefna þjóðkirkjuna sérstaklega?

Þetta er afar athyglisvert í ljósi opinberar umræðu um Þjóðkirkjuna sem margir telja vera með yfirgang þegar kemur að lögum landsins. Jafnframt er enn athyglisverðara að hið nýframlagða frumvarp hefur ekki verið uppfært með tilliti til þessara né annarra framkominna ábendinga (utan einnar varðandi 4. gr. frumvarpsins), þó að töluvert ráðrúm hafi vissulega gefist til þessa af hálfu hins háttvirta innanríkisráðherra.

Um aðrar athugasemdir var iðulega bent á að umsögn fjárlagaskrifstofu væru alvarlegar fyrir fjárhagslega hagsmuni trúfélaga, sem og lífsskoðunarfélaga, en þar er gefið til kynna að fjárframlög   með hverjum skráðum meðlimi muni minnka ef lífskoðunarfélög bætist við. Ef slík ákvörðun er tekin með litlum fyrirvara skapar slíkt afar óþægilega stöðu fyrir starfandi trúfélög sem hafa gert áætlanir byggða á núverandi skipulagi og ekkert óeðlilegt að starfandi trúfélög geri alvarlegar athugasemdir við slíka skipan mála.

En það var einna helst 9. gr. frumvarpsins sem vakti umræðu umsagnaraðila, en hún snýr að skráningu barna í trúfélag og gerir hlut feðra jafnan mæðrum þegar kemur að skráningu í trúfélög. Þá er fjallað um þá aðstöðu ef foreldrar barna koma sér ekki saman um skráningu þess í trúfélag. Við þær aðstæður hlýtur barnið svokallaða „ótilgreinda“ stöðu. Barnið er þá í raun skráð utan trúfélaga. Þetta orkar vissulega tvímælis og leiðir til ófullnægjandi niðurstöðu, sér í lagi í tilvikum þar sem annað foreldri kann að standa utan trúfélags en hitt hluti af trúfélagi. Þetta kerfi skapar þær aðstæður að foreldri sem stendur utan trúfélags geti skapað ágreining og viðhaldið hann og þannig tryggt að barnið sitt verði skráð utan trúfélaga, sem leiðir til ójafnrar aðstöðu þeirra sem eru hluti af trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og þeirra sem standa utan við slíka skráningu. Þetta er sérstaklega óþægilegt í þeim aðstæðum þar sem barn kann að hafa persónulega skoðun á því að vera hluti af tilteknu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi.

Þó að margt annað í frumvarpinu og innsendum umsögnum vekur tilefni til frekari skrifa látum við þetta duga í bili en hvetjum lesendur til þess að kynna sér bæði frumvarpið og umsagnir þær sem fylgdu því á síðasta þingi. Jafnframt hvetjum við háttvirtan innanríkisráðherra að kynna sér þær umsagnir sem bárust í fyrra og reyna að aðlaga frumvarpið að þeim umsögnum, enda eru þær ábendingar sem fram hafa komið flestar til þess fallnar að tryggja betur jafna stöðu lífsskoðunarfélaga samanborið við trúfélög í dag og falla vel að meginmarkmiðum frumvarpsins.

Hvetjum við jafnframt innanríkisráðherran að benda á þá aðila sem hafa barist svona ötulega gegn framgangi frumvarpsins. Við spyrjum hinsvegar að lokum – getur verið að ástæða mótmæla sem Ögmundur skynjar megi rekja til slælegra vinnubragða ráðuneytisins við undirbúning á frumvarpinu og metnaðarleysi ráðuneytisins og þingmanna við aðlögun þess að vel meintum ábendingum umsagnaraðila.

-DS

2 hugrenningar um “Ögmundur: Siðmennt en ekki Kárahnjúkar

  1. Bjarni Randver Sigurvinsson

    Ég skrifaði ásamt Pétri Péturssyni prófessor grein um drögin að frumvarpinu í Morgunblaðið 24. nóvember 2011. Greinin er byggð á athugasemdum okkar til ráðuneytisins 14. nóvermber 2011 þegar drögin voru fyrst kynnt. Eins og sjá má af athugasemdum okkar þá snúast þær fyrst og fremst um þann greinarmun sem gerður er á trúfélögum og lífsskoðunarfélögum í drögunum. Það er mikilvægt að lögin taki mið af því að trúarhugtakið er hægt að skilgreina með ýmsum hætti og vel er hægt að flokka hin svonefndu lífsskoðunarfélög sem trúfélög enda þótt þau kjósi að skilgreina sig frá hvers kyns trú út frá eigin forsendum. Það eru sjálfsögð réttindi allra lífsskoðunarfélaga sem uppfylla skilyrði um skráningu að fá að skilgreina sig ýmist til tiltekinnar trúar eða frá hvers kyns trú enda þótt til séu viðurkenndar skilgreiningar innan trúarbragðafræða sem geri þau öll að trúfélögum í fræðilegu samhengi. Það væri hins vegar stórslys ef fest yrði í lög umdeild aðgreining milli trúfélaga og lífsskoðunarfélaga þar sem trúarhugtakið yrði skilgreint eingöngu út frá forsendum þeirra sem kjósa að aðgreina sig frá því með öllu. Má vera að ástæða sé til að skoða þennan flöt betur í nýja frumvarpinu. Grein okkar Péturs er að finna hér: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1401137/

  2. Trúmál.is Post author

    Þetta er þörf ábending sem Bjarni og Pétur benda á í grein sinni og við hvetjum lesendur okkar til þess að kynna sér greinina og ennfremur hvetjum við Ögmund og aða þá sem hafa áhrif á afgreiðslu þingsins á frumvarpinu.

Leave a Reply to Trúmál.is Cancel reply