Ódýr náð þjóðkirkjunnar?

Í gær birtist á miðuopnu Morgunblaðsins aðsend grein eftir séra Geir Waage, sóknarprest í Reykholti. Þar skrifar Geir um ákveðnar breytingar á skipan þjóðkirkjunnar síðastliðin ár undir fyrirsögninni kirkju hinnar ódýru náðar. Greinin virðist að einhverju leiti byggð á fyrri grein Geirs sem birtist í Kirkjuritinu fyrr á þessu ári sem hét „Um Þjóðkirkjuna við tímamót“ og skýtur Geir föstum skotum á lýðræðishugmyndir innan kirkjunnar og það sem Geir segir vera vildarvæðingu innan kirkjuna og vísar til þess að biskupar hafa ræktað þjóðkirkjuna sem leikmannakirkju. Þó að greinin snúi vissulega mikið að innra skipulagi kirkjunnar, sér í lagi hlutverki og ábyrgð sóknarpresta og beri vott um að vera innlegg í umræðu um kirkjupólitísk málefni Þjóðkirkjunnar eru ýmsir hlutar greinarinnar afar áhugaverðir fyrir þá sem standa aðeins utar. Raunar er margt í greininni sem nota mætti sem umræðugrundvöll um fjölmarga þætti innan skipulags kirkjunnar og hugmyndafræði um þátttöku óvígðra innan kirkjunnar, hvers eðlis hún ætti að vera og hvað felist í hlutverki hinna vígðu.

Geir segir m.a.:

Það er athygli vert, að vörnin fyrir kirkjuna gengur svo út á að verja kirkjustofnunina og fjelagsmálaumsvif hennar, ekki fagnaðarerindið og annan menningararf heilagrar kirkju.

Þessi punktur vekur mann til umhugsunar. Hverjar eru áherslurnar útá við sem þjóðkirkjan notar til réttlætingar á tilvist sinni hér á landi, sér í lagi þegar spurningar um tengsl ríkis og kirkju og þjóðkirkju fyrirkomulagið bregst í tal. Geir virðist svíða það að fagnaðarerindið lætur títt í minnipokan fyrir veigaminni umfjöllunarefni (samanborið við mikilvægi fagnaðarerindisins)  sem oft fer þó fram á vettvangi og forsendum kirkjunnar.

Fleiri spurningar koma upp í hugann þegar greinin er lesin sem við vörpum áfram til ykkar.

Á lýðræði heima í kristinni kirkju? Hvert er gildi játningarrita kirkjunnar í dag s.s. Ágsborgarjátningarinnar? Hvað réttlætir sambands ríkis og kirkju? Á að leggja meiri áherslu á félagslegt hlutverk kirkjunnar og þjónustu við landsbyggðina samanborið við fagnaðarerindið eða fer þetta tvennt kannski vel saman? Reynir kirkjan (eða kirkjur í landinu almennt) í daglegri umræðu að verja fagnaðarerindið – eða er því fórnað fyrir fjárhagslega hagsmuni eða jafnvel orðið að feimnismáli?

 

2 hugrenningar um “Ódýr náð þjóðkirkjunnar?

  1. Hjalti

    „Hvert er gildi játningarrita kirkjunnar í dag s.s. Ágsborgarjátningarinnar?“

    Auðvitað er helling af prestum í Þjóðkirkjunni nákvæmlega sama um hvað stendur í Ágsborgarjátningunni, hve margir þærra trúi því til dæmis að við endurkomu sína muni Jesús senda fólk í eilífar kvalir?

  2. Óli

    Ég er sammála séranum að kirkjan virðist vera mun meira í mun að vernda fjárhagslega hagsmuni sína og landareignir hledur en fagnaðarboðskap Jesú krists. Það er sjaldan sem maður heyrir í dag minnt á Jesú í fjölmiðlum þegar kirkjan talar, alltaf snýst umræðan um peninga, sóknargjöld og niðurskurð.

    Hvað komment Hjalta varðar að þá veit ég ekkert hvernig prestar standa gagnvart Ágsborgarjátningunni, en svo virðist sem kirkjan sé búin að þinna hana dálítið út. Hún virðist a.m.k. skipa lítinn sess í praktískum málum kirkjunnar.

Hvað hefur þú um málið að segja?