Úrskráning úr þjóðkirkju fyrir geisladisk?

Á útvarpsstöðinni X977 er útvarpsþáttur sem heitir Harmageddon. Um þessar mundir standa þáttastjórnendur þess þáttar fyrir svokölluðum Þjóðkirkjuleik þar sem þeir auglýsa ýmsa „vinninga“ fyrir nokkra heppna þátttakendur í leik sínum sem gengur út á það að skrá sig úr þjóðkirkjunni og senda inn staðfestingu þess efnis á þáttastjórnenduna.

Vinningar virðast m.a. vera pizzaveisla, geisladiskar, bíómiða, tölvuleiki og meira að segja iPhone. Svo segja þeir: „Hver er ekki tilbúinn að selja sál sína fyrir úrval af glæsilegum vinningum.

Þeir sem eitthvað þekkja til útvarpsþáttarins og/eða þáttastjórnenda hans vita að þeir hafa í gegnum tíðina verið óvilhallir kristinni trú og kirkju og beinlínis andstæðingar hennar, sér í lagi þjóðkirkjunnar. Þetta uppátæki þeirra kemur því vart á óvart. Líklegt er að það hafi sprottið út frá nýlegum ráðgefandi kosningum um hugmyndir stjórnlagaráðs og niðurstöðum þeirrar kosningakönnunar um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá. Eitthvað hefur niðurstaða þeirrar könnunar farið fyrir brjóstið á þessum mönnum þannig að þeir vilji sýna fram á að Íslendingar séu ekki kristin þjóð.

Það er merkilegt hve mikil áhersla er lögð á hina opinberu skráningu einstaklinga í trúfélög til sönnunar og/eða afsönnunar á stöðu trúmála á Íslandi og svo virðist sem þetta sé baráttumál ýmissa að opinber skráning í trúfélög séu með ákveðnum hætti. Sú skráning snýst þó fyrst og fremst um ákveðin tekjustofn trúfélaga sem byggir á innheimtu ríkis á sóknargjöldum. En virðist þó vera afar sterk táknmynd, að margra mati, um stöðu trúfélaga, sér í lagi stöðu Þjóðkirkjunnar á Íslandi. Þannig eru margir sem rýna í tölur Hagstofunnar árlega um breytingar á skráningum trúfélaga.

En maður spyr sig, hverjir velja það að skrá sig úr þjóðkirkju (eða í þjóðkirkjuna eða úr/í annað trúfélag) til þess að eiga möguleika á að vinna verðlaun. Er það ekki afskaplega afstöðulítill gerningur? Væri ekki nær að fólk tæki ákvörðun um slíka skráningu út frá afstöðu sinni til trúfélagsins sem skráningin tekur til? Ég vona allaveganna að þeir sem taki þátt geri það í grunninn af annarri ástæðu en að reyna að vinna vinninga í útvarpsleik, því að öðru leiti virðist slík ákvörðun vera á frekar lágu plani.

Vafalítið eru Harmageddon menn að reyna að gera lítið úr trúfélagaskráningu með þessu uppátæki sínu, en væri ekki nær að kalla eftir sterkari afstöðu fólks til málefnisins heldur en þess að vinna bíómiða í útvarpsleik?

Hvað finnst þér um svona?

5 hugrenningar um “Úrskráning úr þjóðkirkju fyrir geisladisk?

 1. Bergur Ísleifsson

  Hmmm … verð að viðurkenna að mér finnst þetta bara skörp ádeila. Ég meina … láta ekki flestir (margir alla vega) krakkar ferma sig vegna gjafanna? Ég held það … og að því leyti er fermingin í raun á jafnlágu plani og þessi „leikur“ þeirra félaga í Harmageddon.

  Þú spyrð: „hverjir velja það að skrá sig úr þjóðkirkju (eða í þjóðkirkjuna eða úr/í annað trúfélag) til þess að eiga möguleika á að vinna verðlaun.“

  Svar: Þeir sömu sem fermast fyrir verðlaun (gjafir).

  Þú spyrð: Væri ekki nær að fólk tæki ákvörðun um slíka skráningu út frá afstöðu sinni til trúfélagsins sem skráningin tekur til?

  Svar: Jú, auðvitað, Og mér finnst að nákvæmlega það sama ætti að gilda um ferminguna. Hún ætti ekki að snúast um gjafirnar eins og hún gerir hjá flestum krökkum heldur um afstöðu þeirra til trúar.

  Að þessu leyti finnst mér þessi „leikur“ Harmageddon-piltanna ágæt ádeila og um leið þörf hugvekja sem er vel þess virði að ræða málefnalega.

 2. Davíð Sveinbjörnsson

  Bergur, þú telur leikinn semsagt vera ádeilu á fermingar innan kirkjunnar (undanskilurðu borgaralegar fermingar)?

  Margt í dæmi þínu gerir það ill samanburðarhæft. S ú mynd sem þú dregur upp af fermingum er stöðugt í umræðunni og stöðugt gagnrýnd innan sem utan við kirkjuna og á lítið skylt við þessa umræðu.

  Að því leiti sem kirkjan eða aðrir hvetja börn til að fermast gjafana vegna er það auðvitað gagnrýnivert og að mér finnst á lágu plani. Ég hef hinsvegar lítid tejið eftir slíkum áróðri frá kirkjunnar mönnum. (en ef hann er til stadar held ég að það ætti að taka það fyrir.)

  Á hvaða forsendum einstaklingar gera ákveðna hluti, segir svo mest um sjálfsímynd þeirra, þroska og afstöðu til málefnisins. Það er eina ádeilan sem ég get séð í þessu. Hvað ertu tilbúin að selja afstöðu þína ódýrt?

  En að hvetja til úrskráningar á þessum forsendum þykir mér hallærislegt og til þess fallið að gjaldfella málefnalega umræðu um málefni trúfélagaskráningar, en það er svo kannski ekkert tilgangurinn með þessu að skapa slíka umræðu, heldur fyrst og fremst að reyna að vera sniðugir.

  1. Bergur Ísleifsson

   Já, ég tók þessu sprelli þeirra Harmageddon-manna þannig að þetta væri ádeila á kirkjulegar fermingar (ekki þessar borgaralegu, sem ég legg ekki að jöfnu) þar sem krakkar fara með kristnar trúarjátningar án þess að hugur fylgi raunverulega máli. Ég tók þessu sem ádeilu á að krakkar skuli játast kristinni trú og „segjast“ trúa á Guð og Jesú Krist þegar það gerir það í raun ekki.

   Ég veit að þetta er ekki þannig í nándar öllum tilfellum. Margir krakkar fermast vafalaust á réttum, og þá raunverulegum trúarlegum forsendum en ádeilan snýr heldur ekkert að þeim heldur hinum sem fermast á röngum forsendum, þ.e. vegna gjafanna.

   Þú segir: „Á hvaða forsendum einstaklingar gera ákveðna hluti, segir svo mest um sjálfsímynd þeirra, þroska og afstöðu til málefnisins. Það er eina ádeilan sem ég get séð í þessu. Hvað ertu tilbúin að selja afstöðu þína ódýrt?“

   Nákvæmlega! Um þetta snýst ádeilan í mínum huga og umhugsunarefnið er eftirfarandi:

   1. Er það rétt af foreldrum, forráðamönnum, prestum og öðrum sem hafa með kristnar fermingar að gera að láta óþroskaða krakka sem hafa bersýnilega ekki enn mótað sína eigin trúarafstöðu fara bersýnilega með falskar trúarjátningar til þess eins að hljóta verðlaun (gjafir/veisla)?

   2. Auðvitað er það hallærislegt að hvetja fólk til að skrá sig úr þjóðkirkjunni á þessum forsendum, en er það þá ekki alveg jafn hallærislegt að ferma fólk og fá það til að játast kristinni trú á þessum sömu forsendum?

   Og ég er ekki sammála um að þetta gjaldfelli málefnalega umræðu um þessi mál, þ.e. sjálfvirka trúfélagsskráningu og fermingar á röngum forsendum. Þvert á móti þá finnst mér þessi ádeila Harmageddon-manna opna sýn á kjarna málsins.

   1. Davíð Sveinbjörnsson

    Nú hef ég lítið heyrt í Harmageddon mönnum upp á síðkastið og veit því ekki hvort þeir hafi fjallað um þennan fermingarvinkil. En ef ekkert hefur verið fjallað um hann þykir mér þú lesa gríðarlega „vel“ og mikið inn í þessa afar svo „málefnalegu“ „ádeilu“ þáttastjórnenda um fermingar – en sá vinkill fór alveg framhjá mér þegar ég sá youtube myndbandið.

    Burtséð frá því – þá virðumst við ekki vera alveg að tala við hvorn annan. Eins og fyrra komment mitt bar með sér er ég sammála því að kirkjan (eða aðrir) eigi ekki að hvetja börn til að fermast (nú eða taka aðra ákvörðun um trúmál/trúleysismál, stjórnmál eða aðra skoðanamyndun) á grundvelli gjafa. Þannig að varðandi dæmi spurningu 1 og 2. að þá tel ég það ekki rétt að fá einstaklinga til að fara með trúarjátningar eða játast trú til að hljóta „verðlaun“. Hér virðumst við ná saman.

    En ég sé það bara ekki gert af hálfu kirkjunnar í miklum mæli. Nú er ég ekki á kafi í kirkjustarfi, en þjóðkirkjan hefur lítið lagt upp úr gjöfum fermingarbarna í mín eyru. Svo virðist sem það sé ákvörðun sem samfélagið og foreldrar hafa í auknum mæli lagt meiri og meiri áherslu á og þrýstingur á foreldra hefur aukist til muna – en hvaðan kemur hann? Er það frá kirkjunni, er það frá samfélagin? Er munur á gjöfum og gjafakröfum samfélagsins hvað kirkjulegar fermingar eða borgaralegar fermingar varðar?.

    Ég hef hinsvegar heyrt reglulega í eyru mér að það ætti að taka meðvitaða ákvörðun um að minnka gjafarugl og umstang í kringum fermingarnar. Hvort meira mætti gera í þeim efnum er önnur umræða útaf fyrir sig.

    Þín dæmi virðast öll ganga út frá því að kirkjan sé að hvetja börn til að fermast og játa trú með gjafirnar sem gulrót. Þar sem ég sé það ekki gert á ég erfitt með að líta svo á að fermingarstrúktúrinn sé sambærilegur við Harmageddon leikinn eins og þú heldur fram. Harmageddon leikurinn sýnist mér snúast um að sýna fram á afstöðuleysi einstaklinga til trúmála, sér í lagi til Þjóðkirkjunnar og slíkt heppnast bara ef þátttaka í honum verður einhver – eða bara eins og oft er með útvarpsleiki, sér í lagi í útvarpsþáttum eins og Harmageddon, að verið er að hæðast að status quo.

    Ég held að þú hefðir getað borið þetta saman við margskonar aðrar ádeilur, en samanburðurinn við fermingarumræðuna gegnur fyrst og fremst upp ef að henni er beint að þeim sem hvetja til fermingar á grundvelli gjafa. Þar held ég að samfélagið og foreldrar eigi stærri hlut en kirkjan. Kirkjan mætti þó vel íhuga það að hækka fermingaraldurinn – en það er önnur umræða útaf fyrir sig.


    Harmageddon hefur oft fengið til sín áhugaverða gesti sem fjalla um trúmál og hafa reglulega snert á efninu – oft á skemmtilegan hátt – ég bara…veit ekki með þetta framtak þeirra…það er eitthvað við það sem virðist bara pínu hallærislegt.

 3. Bergur Ísleifsson

  Já, kannski hef ég lesið of mikið í þessa auglýsingu, þ.e. að ég skyldi taka henni sem ádeilu eins og ég gerði þegar ég sá hana. Þeir Harmageddon-menn útskýra kannski sjálfir – annað hvort með orðum eða athöfnum – hvað þeir eru að fara með þessu. Ef þeir eru að meina þetta í fúlustu alvöru og ætla að fylgja þessu eftir þá er ég alveg sammála þér í því að þeir séu á afar lágu plani.

  En ég skildi ádeiluna heldur ekki þannig að verið væri að deila á að prestar væru að beita veislu og gjöfum til að fá börn til að fermast. Við slíkar aðferðir hjá prestum hef ég a.m.k. aldrei orðið var enda væru þeir þá á sama lága planinu og Harmageddon-menn eru ef þeir eru að meina þetta. Við viljum að sjálfsögðu flest að börnin okkar taki sjálfstæða ákvörðun um hvort þau vilji eða vilji ekki fara með trúarjátningu og byggi þá ákvörðun á eigin forsendum.

  En þetta er bara ekki þannig. Við vitum öll að mörg börn sem fermast að kristnum sið eru alls ekki að gera það út af trúarsannfæringu, heldur veislu og gjöfum. Þau eru einfaldlega ekki orðin nógu gömul til að meta þetta upp á eigin spýtur. Ég kann ekki að segja hve stórt hlutfall af krökkum það er sem fermist af rangri ástæðu, en held að það sé nokkuð hátt enda hef ég séð þetta gerast allt í kringum mig í gegnum árin og tilheyrði þessum hópi sjálfur á sínum tíma, svo og margir vinir mínir og skólafélagar. Við fórum ekki í fermingarfræðsluna og létum ekki ferma okkur af trúarhita eða sannfæringu heldur vegna „verðlaunanna“. Mig minnir reyndar að ég hafi einfaldlega talið það fylgja almennri skólaskyldu að fermast að kristnum sið … að þetta væri „normið“ og að annað væri ekki í boði.

  Og það er þarna sem ég set spurningamerkið. Þar sem við fullorðna fólkið gerum okkur alveg kristaltæra grein fyrir því að mörg börn fermast af rangri ástæðu og eru þar með ekki að segja satt þegar þau fara með trúarjátninguna, er það þá ekki skylda okkar sem forráðamanna að grípa inn í?

  Ber okkur ekki skylda til að koma í veg fyrir að börn okkar játi einhverju sem er ekki satt, bara til að fá veislu og gjafir? Er það ekki siðferðislega rangt af okkur að taka jafnvel orða- og athugasemdalaust þátt í slíkri blekkingu? Þetta eru jú bara ósjálfráða börn. Er ekki rétt af okkur að leiðbeina þeim ef og þegar þau eru um það bil að fara að gera eitthvað sem við vitum fullvel – og betur en þau – að er rangt?

  Vandinn er eins og ég segi að 13 til 14 ára börn eru flest hver allt of ung og óþroskuð til að meta þetta sjálf. Auðvitað eru til börn sem hafa gert upp hug sinn á þessum aldri (ég þekkti líka þannig hugsandi krakka á sínum tíma) og vilja fermast vegna þess að þau eru trúuð, en hvað með öll hin? Væri ekki rétt að gera þeim fulla grein fyrir að þau geta alveg fengið veislu og gjafir án slíkrar falsjátningar … það er, að trúarjátning sé ekki skilyrði fyrir veislu og gjöfum?

  Mér fyndist það a.m.k. vera hið rétta.

  Ég tók þessari auglýsingu þeirra Harmageddon-manna þannig að þetta væri ádeila á nákvæmlega þetta, þ.e. þeir væru að deila á hversu mörg börn fermdust að kristnum sið á röngum forsendum. Mér fannst hún nokkuð beitt og til þess fallin að vekja upp málefnalega umræðu um þessi mál.

  Kannski hef ég misskilið tilgang Harmageddon-manna hrapallega. Þeir einir geta sagt til um það, Sjálfur þekki ég þá ekki neitt og hef aldrei fylgst með þessum útvarpsþætti.