Ég sakfelli þig ekki heldur

997007_10152098223514399_1179281796_nUm daginn var mér hugsað til eftirfarandi Biblíusögu:

Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fór þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“ (Jóh. 8:3-11)

Þegar ég velti þessari sögu fyrir mér, gerði ég mér grein fyrir að (fyrir utan að velta vöngum yfir hvað Jesús skrifaði í sandinn) þá hef ég yfirleitt einungis hugsað um þessa sögu frá sjónarhorni faríseanna og fræðimannanna. Ég tek þá inn skilaboðin að það er ekki mitt hlutverk að dæma aðra. En um daginn gerði ég mér grein fyrir hversu mikið ég er líka eins og konan. Við erum syndarar, tilbúin að verða dæmd og þó að syndir okkar séu kannski dæmdar mismikið af þjóðfélaginu sem við búum í, þá er synd engu að síður synd. Ég velti fyrir mér hvort að konan hafi gert sér fyllilega grein fyrir því hver það var og hvað fólst í því þegar Jesús sagði: Ég sakfelli þig ekki heldur.“

Hér var hann, hinn fullkomni og syndlausi maður sem reyndist líka vera eini maðurinn sem vissi um hvern einasta hlut sem hún hafði nokkurn tímann gert rangt, sérver mistök, sérhverja synd… þessi eini einstaklingur sem vissi þetta allt og var sjálfur fullkominn sagði „ég sakfelli þig ekki heldur.“ Í þessum 5 orðum voru skilaboð um fyrirgefningu, skilning, von og óskilyrtan kærleika. 

Nú þegar jólin ganga í garð minnumst við þess að Jesús fæddist inn í þennan heim. Hann fæddist inn í heiminn með tilgang! Tilgang sem kom til vegna kærleika… kærleika til þíns!

Hann fæddist til að ganga í gegnum lífið sem maður, til að upplifa það sem við göngum í gegnum, jafnt gott sem slæmt, til að sýna okkur skilning. Hann upplfiði: hungur, þorsta og freistingar þegar hann fastaði í eyðimörkinni; reiði, þegar hann sá sölumennina í musterinu; afneitun frá besta vini hans Pétri; svik frá öðrum nánum vini, Júdasi Ískaríot; höfnun frá fólkinu sem hrópaði „krossfestu hann“ þrátt fyrir að sama fólkið hafið fagnað komu hans til Jerúsalem minna en viku áður; ótta er hann bað um að kaleikur krossfestingarinnar væri tekinn frá honum, en þó aðeins ef Faðirinn vildi. Hann upplifði þetta allt og þess vegna getur hann sýnt okkur skilning á því sem við göngum í gegnum.

Þegar hann fullkomnaði verkið á krossinum, þá tók hann refsinguna fyrir syndir okkar á sig og uppfyllti þannig réttlæti Guðs á sama tíma og hann opnaði leið fyrirgefningarinnar fyrir okkur. Hann vissi og veit alla veikleika okkar, syndir og hann fór alla leiðina til að gefa okkur fyrirgefningu synda okkar sem við þörfnumst og láta okkur vita að hann tekur við okkur eins og við erum og mætir okkur þar sem við erum með opnum faðmi. Hann stígur upp þar sem við föllum niður og þörfnumst hans hjálpar.

Hann kom inn í heiminn til að færa von, að í fyrir hann, getum við frelsast og átt eilíft líf með honum. 

Einhver sagði einhvern tímann: „Það besta í lífinu er að finna einhvern sem veit um öll þín mistök og alla þína veikleika og finnst þú samt vera alveg dásamlegur“. Jesús kom til jarðarinnar, var fæddur í jötu af því að honum finnst þú vera alveg dásamlegur og elskar þig skilyrðislaust. 

Hann segir við okkur í dag „ég sakfelli þig ekki heldur“ af því að hann hefur þegar tekið syndir okkar upp á krossinn svo að ef að við viljum, getum við átt eilíft líf með honum. (Hann neyðir engan til að vera hjá sér heldur gefur okkur valið.) En hann stoppar ekki þar. Hann skilur okkur eftir með hvatningu að fara, og „syndga ekki framar“. Hann hvetur okkur til þess að bæta okkur, leggja hart að okkur og stefna hátt, stefna að því að verða líkari honum.

Þetta er lífslangt verkefni og hann veit það, en í gegnum hann sem veitir okkur styrk, getum við komist nær og nær markmiðinu og verðlaununum sem bíða okkar á himnum! :)

Gleðileg jól! :)

 

Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson

Innblástur

blog caspianInnblástur… Hvaðan fær skapandi fólk innblástur sinn? Hvaðan fékk Michelangelo innblástur sinn þegar hann málaði loftið á Sistínsku kapellunni í Vatíkanið? Hvaðan fékk Leonardo da Vinci innblástur sinn við allt sem að hann fann upp á sínum tíma? Hvaðan fékk J. K. Rowling innblástur sinn við sköpun töfraheims Harry Potters?

Þegar svona spurningum er velt upp getur verið erfitt að finna svörin og listafólkið eða skapararnir sjálfir eru oft einir um að vita hvaðan innblástur hinna einstöku verka þeirra komu.

Tveir af mínum uppáhalds rithöfundum sköpuðu báðir ævintýraheima sem hafa fylgt okkur í yfir hálfa öld. J. R. R. Tolkien skapaði heiminn í kringum Hobbitann og Hringardróttinssögu á meðan C. S. Lewis skapaði heim Narníu. Innblástur þeirra hefur eflaust komið frá mörgum mismunandi stöðum en hér langar mig að velta upp hvaðan innblástur ákveðna sena í sögunum kom.

*spoiler alert*

Við lestur sagnanna má sjá að í báðum sögunum kemur sá tími að skógar gegna mikilvægu hlutverki í bardögum. Í Hringadróttinssögu kemur Fangorn skógurinn til bjargar í orrustunni við Hjálmsdýpi (sjá myndband ). Á meðan lifnar skógurinn í Narníu við í sögunni Kaspían Konungsson (e. Prince Caspian) í orrustunni eftir einvígi þeirra Péturs og Míraz.

Fyrir nokkru var ég að lesa í Biblíunni og rakst á eftirfarandi vers: „Bardaginn barst um allt landsvæðið og þennan dag gleypti skógurinn fleiri menn en sverðið.“ (2. Sam. 18:8). Þegar ég las þetta vers komst ég ekki hjá því að hugsa til þessara atburða í Hringadróttinssögu og Narníu. Nú er spurning, gæti verið að þetta vers í Biblíunni hafi verið innblástur fyrir J.R.R. Tolkien og C.S. Lewis þegar þeir skrifuðu þessar senur. Hvað heldur þú?

-Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson

Símtöl páfa

pope-francis_2663236bEitt af því sem hefur aukið vinsældir Frans páfa meðal almennings er að hann á það til að taka upp símtólið og hringja í einstaklinga innan kaþólsku kirkjunnar sem hafa sent honum bréf. Nú nýverið hringdi páfinn í Önnu Romano sem hafði skrifað páfa þar sem hún sagði frá því að hún hefði uppgötvað að barnsfaðir hennar væri giftur. Eftir að hún sagði kærasta sínum frá því að hún væri ólétt, sagði hann henni að hann væri giftur og sagði henni að fara í fóstureyðingu. Fréttasíðum ber ekki saman um hvort þeirra yfirgaf hinn einstaklinginn, en eitt er víst og það er að þau slitu sambandi sínu og hún var staðráðin í að fara ekki í fóstureyðingu.

Þegar símtalið kom brá konunni þegar hún uppgötvaði hver var á línunni. Þegar hún deildi áhyggjum sínum með honum um hvort nokkur prestur myndi vilja skíra barnið, þar sem það var getið utan hjónabands, þá sagði hann henni að ef hún lenti í vandræðum myndi hann sjálfur skíra barnið. Hann uppörvaði hana síðan og sagði henni að hún væri hugrökk og sterk að ákveða að hún myndi halda barninu.

Er þetta jákvætt og hefur aukið vinsældir Frans páfa að hann sé tilbúinn að taka frá tíma til að hringja í „sóknarbörn“ sín sem koma til hans með áhyggjur sínar bréfleiðis.

Heimildir: Hér er frétt breska blaðsins Telegraph um málið og hér má finna umfjöllun National Catholic Register um málið.

-Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson

Vesalingarnir – Biskupinn

VesalingarnirVorið 2012, sá ég leikritið um Vesalingana í fyrsta skipti í Þjóðleikhúsinu á Íslandi. Þessi saga snerti við mér og þegar ég komst að því að kvikmyndin væri í býgerð með Hugh Jackman sem Jean Valjean, þá var ég mjög spenntur. Ég sá myndina, keypti DVD diskinn og undanfarið hef ég verið að hlusta á hljóðbókina á meðan ég hjóla eða er í vinnunni að gera hluti sem þarfnast ekki of mikillar einbeitingar.

Það er margt í sögunni sem vekur upp ýmsar hugsanir en hér langar mig að skrifa aðeins um mikilvægi hlutverk biskupsins. Bókin byrjar með þó nokkrum köflum sem lýsa góðmennsku biskupsins, heilindi hans og þannig byggir bókin rólega upp að því að Jean Valjean sé kynntur til sögunnar og hittir þennan merka biskup. Í kvikmyndinni hins vegar, þá er biskupinn á skjánum í minna en 5 mínútur, en áhrif hans í sögunni eru ótrúleg. Hinn góði biskup er sá sem sýnir Jean Valjean náð og kærleika Guðs í fyrsta sinn. Mig langar því að draga fram nokkur atriði um þetta hlutverk.

  1. Biskupinn sér þörf Jean Valjean, niðurbrotinn manns, og býður honum inn að þiggja næringu og hvíld. Á svipaðan hátt sá Guð okkar andlegu þörf og sendi því son sinn Jesú í heiminn til að mæta þörfinni, gefa okkur sinn Anda og bjóða okkur hvíld í honum: Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. (Matt. 11:28).
  2. Biskupinn kemur fram við Jean Valjean sem jafningja, og ekki bara það heldur sem “virtan gest”. Það sem er biskupsins er einnig Jean Valjean’s því að allt sem að biskupinn á, það á hann til að deila með sér.
    Guð kom til jarðar sem maður í Jesú Kristi, fæddur í jötu og hann mætir okkur að mörgu leyti sem jafningjum jafnvel þótt hann sé Guð. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður. (Filippíbréfið, 2:6-7)
  3. Hann sýndi Valjean náð Guðs þegar hann sagði að Valjean hefði verið að segja satt og tók þannig á sig tap vegna synd Valjeans. En ekki bara það, heldur sýndi biskupinn Valjean líka kærleika með að gefa honum meira silfur. Loksins minnir hann Valjean á að snúa frá gamla lífinu og nota þessa náð sem hann þáði til að verða heiðarlegur maður á ný. Á svipaðan en jafnvel enn stórkostlegri hátt, þá segir Jesús, frammi fyrir Guði, að við eigum ekki að fá neina refsingu vegna neinnar sektar. En hann gerir það ekki með að beygja sannleikann á neinn hátt. Í staðinn þá borgaði Jesús nú þegar fyrir öll okkar mistök og syndir og gefur okkur líf vegna þess hve mikið hann elskar okkur. Hann var tilbúinn að gefa líf sitt fyrir okkur og hvern sem er sem vill þiggja þessa gjöf hans. Á sama tíma, þá minnir hann okkuar á að syndga ekki framar heldur ganga veg réttlætisins.
    Hann rétti sig upp og sagði við hana: “Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?” En hún sagði: “Enginn, Drottinn.” Jesús mælti: “Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.” (Jóh. 8:10-11)

Þessi gæska. Þessi náð. Þessi kærleikur sem biskupinn sýnir Jean Valjean verður til þess að líf hans umbreytist og hann verður að nýjum manni, sem lifir fyrir Guð, hjálpar fátækum og reynir hvað hann getur að gera hið rétta. Hann þarf enn að takast á við erfiðleika lífsins, allt til síns síðasta dag, en engu að síður er mikil breyting á lífi hans.

Það verður alltaf erfiðleikar í lífi okkar þar sem við reynum að gera hið rétta og heiðarlega, en þó að Jean Valjean sé aðeins persóna úr bókmenntum, þá getur hann verið okkur hvatning og hann sýnir okkur hvernig lítið góðverk getur haft jákvæð keðjuáhrif.

-Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson

Nicky Cruz í áhugaverðu viðtali – Myndband

nickycruzogdavidwilkersonNicky Cruz er mörgum kunnur, sérstaklega aðdáendum bókarinnar (og kvikmyndarinnar) Krossinn og hnífsblaðið, eftir David Wilkerson, sem og bókina um hann sjálfan „Run Baby Run“ sem í íslenskri þýðingu heitir Hlauptu drengur hlauptu. Nicky Cruz átti um margt erfiða barnæsku og segist sjálfur ekki hafa upplifað kærleika heimafyrir. Hann fluttist 15 ára frá Púertó Ríkó til New York og byrjaði fljótlega þátttöku í gengjum og var um tíma leiðtogi Mau Mau gengisins í New York.

Myndbandið að neðan er viðtal frá árinu 1991 og er um margt áhugavert, sérstaklega hvað bakgrunn hans varðar og mikilvægi kærleikans. Athyglisverð er frásögn Nicky Cruz af hundi sem kenndi honum sitthvað um kærleika þegar Nicky var átta ára (hann byrjar að ræða þetta á 4. mínútunni. En leyfum Nicky Cruz að segja frá því sjálfur.

Hundavina samkomur í sumar

hundarikirkjuÁ Íslandi færist gæludýraeign í vöxt. Sérstaklega hefur hundaeigendum fjölgað á síðastliðnum árum og er það jákvæð þróun. Samband manns og hunds getur orðið ótrúlega sterkt og viðurnefnið „besti vinur mannsins“ hefur ítrekað sannað sig. Sjálfur á ég hund og hef oft velt fyrir mér að taka hann með mér á sunnudögum í kirkjuna, eða gott betur, að eiga notalega kristilega samverustund  úti með öðrum hundaeigendum.

Nú þegar sumarið er komið er tilvalinn tími fyrir kirkjur að velta fyrir sér hvernig hægt er að nýta sér sumarveðrið á Íslandi sem stoppar allt of stutt við. Hundavina samkomur er einn möguleiki sem ég hvet hugrakka safnaðarleiðtoga til að skoða vel og bjóða upp á.

Þessu tengdu deili ég með ykkur grein um kirkju í Bandaríkjunum þar sem tekin var ákvörðun um að leyfa fólki að koma með hundana sína á samkomur. Þetta hefur að sögn reynst afar skemmtilegt og vakið mikla lukku. Hundarnir eru eigendum sínum til sóma og aðrir safnaðarmeðlimir virðast afar sáttir við þessa nýjung. Meira að segja þeir sem eru með hundaofnæmi hafa ekki látið sig vanta í kirkjuna, enda sitja hundaeigendurnir vanalega aftast í kirkjunni til þess að veita öðrum eilítið meira rými, og hefur uppátækið því ekki valdið neinum ama. Fyrir áhugasama má sjá vídeó og umfjöllun um þessa stórskemmtilegu nýjung og hugrökku kirkju hérna.

Ætli einhver á Íslandi þori að taka skref í þessa átt?

D.S.

Vinsælli en Bieber og Fimmtíu gráir skuggar

Flag_of_Norway.svgÁhugaverð tíðindi berast frá Norðmönnum þessa dagana. Biblían hefur nú verið í toppsætum bókasölulista landsins í samanlagt 54 vikur á síðasta 56 vikna tímabili. Þó það ætti ekki að koma sérstaklega á óvart ef til langstíma er litið, bendir tímaritið Guardian á að vinsældir Biblíunnar hafi á þessu tímabili slegið út „sjálfsævisögu“ Justin Bieber og hina geysivinsælu bók Fimmtíu gráir skuggar. En þetta þykir mörgum ákveðin tíðindi. Um er að ræða nýja norska þýðingu á Biblíunni.

Þessi þróun hefur víða þótt athyglisverð, sérstaklega í ljósi þess að mönnum þykir Norðmenn hafa fjarlægst trúarlegum málefnum á síðastliðnum árum og áratugum og sumir segja Noreg eitt trúlausasta land Evrópu. Kirkjuleiðtogar í Noregi eru þó ekki á einu máli um að umbylting eigi sér stað í Noregi. Ekki er merkjanlegur munur á kirkjusókn, en um 1% þjóðarinnar (í Noregi búa um 5 milljónir) sækir guðsþjónustur reglulega. Aðrir benda á það að Norðmenn eru í eðli sínu lítillátir og iðka trú sína heima hjá sér og sækja ekki endilega trúarlegar samkomur. Engu að síður verður að telja þessar fregnir sé ákveðinn vitnisburður um hugarástand þessarar þjóðar.

Boðskapur Biblíunnar rýrist ekki með árunum, og áhugi okkar á þessari merku bók fer augljóslega ekki minnkandi.

Sjá meira um málið hérna og hérna

-DS