Greinasafn fyrir merki: Fjölmiðlar

Krossinn í fjölmiðlum – safnaðarátökin

dvlogoÁ síðum DV, sem oft hefur verið litið niður á sem ófréttnæmur fjölmiðill, hafa síðastliðna daga birst fréttir af átökum innan Krossins. Að vanda ber fjölmiðlaflutningurinn æsifréttabrag á sér og manni er um margt spurn hvað er fréttnæmt við átök á aðalfundi safnaðar þar sem eru færri en 500 meðlimir (þó að vissulega kunni lögreglumál almennt að vera fréttaefni). Svo virðist sem þeir sem standi málinu næst kunni vel við umfjöllun blaðsins um átökin en blaðið vísar talsvert til ummæla nafngreindra sem ónafngreindra heimildarmanna sem hika ekki við að segja frá gangi mála innan safnaðarins.

Því miður er það þó svo að umrædd átök hljóta í besta falli að vera fjölskylduharmleikur. Svo virðist sem fjölskyldumeðlimir sláist um völd og titla innan safnaðarins. Þetta er um margt sorglegt og á allan hátt er þetta slæmt fordæmi fyrir starfsemi kristilegra safnaða í landinu. Að leiða söfnuð er í sjálfu sér ekki eftirsóknarvert hlutverk frá sjónarhorni heimsins, enda er fyrst og fremst um þjónustuhlutverk að ræða, en því miður hefur maðurinn skapað þvílíka umgjörð og upphafið tiltekna einstaklinga þannig að sóst er eftir leiðtogahlutverkum kirkjunnar með kjafti og klóm og án þess að hvatinn til þjónustunnar ráði þar mestu.

KrossinnÍ ljósi fjölskyldutengsla þeirra sem þarna eigast við er manni hugsað til kaþólsku kirkjunnar og þess fyrirkomulags sem þar hefur ríkt í aldarraðir að prestar gifti sig ekki og eigi þ.a.l. ekki börn sjálfir. Þó að það fyrirkomulag hafi verið gagnrýnt málefnalega í gegnum tíðina og oft með réttu, er ljóst að það fyrirkomulag hefur vafalítið komið í veg fyrir fjölskylduátök svipuð þeim sem nú eru í gangi innan Krossins og hefðu jafnvel komið í veg fyrir þau átök sem við nú verðum vitni að.

En það læðist að manni grunur að ætlun þessara einstaklinga sé ekki endilega að starfa fyrir Drottinn Jesú í þjónustuhlutverkis safnaðarhirðis og forstöðumanns kirkju sem þjónar 500 einstaklingum. Manni er sannanlega spurn hvert raunverulegt markmið þessara einstaklinga sé, og hver raunveruleg afstaða þeirra til hlutverksins sem þau sækja eftir sé, þ.e.a.s. enda virðast átökin þvílík að beita þurfi atbeina lögreglu til þess að friða hópinn.

Því miður er það svo að í aldanna rás hefur kirkjupólítík verið þvílík átakapólitík og málefnin eru oft afar viðkvæm og persónuleg, hvort sem um fjölskyldutengsl er að ræða eða ekki. En betur má ef duga skal, átakapólitíkin sem ríkt hefur innan kirkjunnar á að sjálfsögðu ekki heima þar.

Við vonumst til þess að sá ágreiningur sem til staðar er innan safnaðarins ljúki í sátt og hafi ekki slæm áhrif á söfnuðinn. Í ljósi fjölskylduáhrifanna veltir maður fyrir sér hvort það væri ekki heillavænlegast að umrædd fjölskylda sem stýrt hefur söfnuðinum í áratugi stigi til hliðar, þó ekki væri nema um stundarsakir, og byggði þess í stað upp framtíðarleiðtoga og þjóna innan safnaðarins til þess að taka við því mikla ábyrgðarhlutverki sem forstöðumannshlutverkið er.

-DS