Greinasafn fyrir merki: Fóstureyðing

Milljónamæringur þökk sé fóstureyðingu

Eftirfarandi myndband hefur vakið sterk viðbrögð. Það sýnir konu sem kemur að hópi fólks í San Francisco sem tók þátt í „Walk for Life“ göngu sem haldin er árlega í tengslum við fóstureyðingar. Konan segir að hún sé milljónamæringur vegna þess að hún hafi farið í fóstureyðingu. Viðmælandi hennar vekur máls á því að þessvegna tali þau um fóstureyðingar sem mannfórn. Því manneskju sé fórnað fyrir bættu lífi annarrar manneskju.

Hérna má lesa meira um myndbandið. Fullyrðing konunnar í myndbandinu stingur mann enda er ótækt að samfélagið íhugi það að setja manneskju í þá aðstöðu að hún þurfi að eyða lífi í móðurkviði sínu til þess að eiga möguleika á bættari framtíð, eða velgengni, menntun eða frama. Konur eiga betra skilið. Nútímasamfélag ætti að leggja mikla áherslu á að fækka fóstureyðingum kvenna. Samfélag þar sem almennt er „þörf“ fyrir fóstureyðingu, sér í lagi af félagslegum ástæðum er samfélag þar sem eitthvað er að. Viljum við búa í samfélagi þar sem mannslífum er reglulega fórnað oft með tilheyrandi tilfinningakostnaði kvenna, fyrir fjárhagslega og félagslega velgengni?

-DS

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum – er vegið að stöðu og tækifærum kvenna?

barn

Í kjölfar greinar okkar „Réttur kvenna yfir eigin líkama og fóstureyðingar“ og pistils ungrar konu sem sagði frá reynslu sinni af fóstureyðingum í síðustu viku verður fjallað í um sjónarmið tengdum fóstureyðingum af félagslegum ástæðum.

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru án nokkurs vafa langtum algengasta ástæðan fyrir því að fóstureyðingar eru framkvæmdar. Á Íslandi voru árið 2011 framkvæmdar 936 fóstureyðingar af félagslegum ástæðum af 969 fóstureyðingum sem framkvæmdar voru það árið. Í nálægum ríkjum þar sem ástæður fóstureyðinga hafa verið kannaðar er félagslegi þátturinn án undantekninga algengasta ástæða fóstureyðinga.

Þessi staðreynd ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir samfélag okkar fyrir margar sakir. Ekki síst vegna jafnréttinda og kvenréttinda sjónarmiða sem venjulega er teflt fram sem réttlæting fyrir frjálsara aðgengi að fóstureyðingum. En jafnframt vegna þess að félagslegar fóstureyðingar eru ákveðinn mælikvarði á velgengni í samfélaginu.

Í upphafi er vert að fjalla örlítið um hvað almennt er flokkað sem fóstureyðing af félagslegum ástæðum. Í lögum nr. 25/1975 er fjallað um þetta.  Þar er fóstureyðing sögð heimil: Þegar þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Félagslegar ástæður eru sagðar vera: 1) Hafi kona alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði 2) Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysi annarra á heimilinu 3) Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt 4) Annarra ástæðna séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.

Framangreint er það sem lögin heimila. Athygli vekur að félagslegar ástæður snúa að neikvæðum áhrifum þess fyrir konuna að eignast barnið. Konum er gefin leið út og undan þessum áhrifum – fóstureyðing. Sumir hafa líkt þessu við kúgun samfélagsins gegn konum, þ.e.a.s. að sú staðreynd að hægt er að losa konuna við barnið með því að bjóða upp á fóstureyðingu veldur því að konan velur þá leið í stað þess að samfélagið kemur til móts við félagslegu erfiðu aðstæður konunnar til þess að hún geti bæði átt barnið og búið við mannsæmandi félagslegar aðstæður.

Því miður eru margar konur sem standa frammi fyrir því að velja milli starfsframa, námsframa eða fjárhagslegrar velgengni annarsvegar og hinsvegar þess að eignast barn. Það að konur séu settar í þá aðstöðu að þurfa að velja milli fóstureyðingar og framangreinds hlýtur frá jafnréttis- og kvenréttindasjónarmiðum að vera óásættanlegt. Í Bandaríkjunum eru til áhugaverð samtök, Feminists for Life, sem berjast fyrir bættum aðbúnaði kvenna þannig að þeim sé ekki ýtt út í fóstureyðingar. Er þörf á slíkum samtökum hér á landi?

Fóstureyðing er kannski auðveld lausn fyrir samfélagið – en byrði fyrir konuna og ógn við kvenréttindi

Samfélagið þarf að bregðast við og tryggja það að konum geti ekki verið þröngvað beint eða óbeint í fóstureyðingu. Ef við skoðum samfélag okkar gaumlega þá sjáum við að fóstureyðing er oft „easy way out“ en ætti ekki að þurfa. Því miður er oft sagt við ung pör að það sé best að bíða með barneignir þangað til eftir nám, eða eftir að starfsframi hefur komist á ról, sama viðhorf er uppi á teningnum í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á skoðanamyndun ungra tilvonandi mæðra þegar þær meta hvort fóstureyðing komi til greina eða ekki.

Í nýlegum pistli sem við vísuðum í um daginn, fjallað ung kona um það hvernig henni var í raun ýtt út í fóstureyðingu af barnsföðurnum. Hún leggur áherslu á að val um fóstureyðingu sé ávallt konunnar sjálfrar án utanaðkomandi áhrifa. En manni er spurn, getur kona valið fóstureyðingu án utanaðkomandi áhrifavalda? Er sanngjarnt að setja konu í þá stöðu að þurf að velja milli þess að eignast barn og búa við félagslegar viðunandi aðstæður? Eins og segir í gamalli auglýsingu er ekki bæði betra? Á kona á 21. öldinni ennþá að vera í þeirri stöðu að þurfa að velja?

Því miður er tilvist hinna afar opnu fóstureyðingamöguleika kvenna til þess fallin að minnka þrýsting á stjórnvöld og samfélag að mæta þörfum þeirra 936 barna og fjölskyldna þeirra sem var eytt í fyrra. Því miður er ekki nægilegur vilji til staðar til að beita þessu í jafnréttis umræðunni, því fóstureyðingar hafa verið brennimerkt sem jákvæður valkostur kvenna frá sjónarhóli kvenréttinda, en raunveruleg áhrif fóstureyðinga, félagslegar, andlega og líkamlega bæta stöðu kvenna ekkert.

Nauðsynlegt er að konum sé boðið upp á valkosti, eins og ættleiðingar, stuðning á meðgöngu og eftir fæðingu og umhverfi sem gerir konum auðvelt að eignast barn hvenær sem er á lífsleiðinni. Skóli eða starfsframi á ekki að koma í veg fyrir að kona geti átt eðlilegt líf sem móðir. Fátækt á ekki að vera ástæða fyrir fóstureyðingum. Aðstæður á heimilinu eiga ekki heldur að vera ástæða fyrir fóstureyðingu. Allt hljóta þetta að vera viðráðanlegar aðstæður ef reynt er til þaula að mæta þörfum hverju sinni. Það er því gleðilegt að sjá samtök eins og Valkostir – Samtök um úrræði við ótímabærum þungunum, tefla fram úrræðum fyrir konum á barneignaraldri. Vonum við að samtökin haldi áfram að stækka og að tilvist þeirra veki máls stjórnvalda á bættari aðbúnaði kvenna og nauðsyn þess að auka við valkostum þeirra.

Það að velja fóstureyðingu er aldrei auðvelt og oft eða nánast alltaf sitja eftir spurningar hjá konum um „Hvað hefði getað orðið?“, „Hvernig hefði barnið mitt litið út?“, „Hvernig móðir hefði ég orðið?“, „Get ég eignast barn aftur?“ og margar aðrar spurningar sem vakna.

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru fóstureyðingar sem tengjast ekki rétti konunnar yfir eigin líkama. Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru fóstureyðingar sem hægt er að koma í veg fyrir í flestum tilfellum.

Viljum við virkilega að konur neyðist til að velja? Viljum við búa í samfélagi þar sem 936 konur búa við þannig aðstæður að þau sjá ekki fram á að geta eignast börn?

-DS

Réttur kvenna yfir eigin líkama og fóstureyðingar

Hversu margar fóstureyðingar eru raunverulega framkvæmdar á grundvelli þess að konan ræður yfir líkama sínum?

modirogbarnÍ vikunni hefur pistill ungrar hugrakkrar konu um reynslu hennar af fóstureyðingum farið um samskiptamiðla á netinu. Pistillinn var birtur undir titlinum „Ég fór í fóstureyðingu – mín saga og má lesa í heild sinni hérna.  Pistillinn er ekkert gamanmál og fjallar um efni sem er afar viðkvæmt, persónulegt og vekur mikilvægar spurningar um fóstureyðingar og það ferli sem val konunnar um fóstureyðingu byrjar. Það hefur vart verið auðvelt fyrir höfundinn að skrifa og birta pistilinn undir nafni og á hún þakkir fyrir að hafa vakið máls á þessu viðkvæma efni frá sjónarhóli sínum.

Pistillinn vekur upp mikilvægar spurningar um fóstureyðingar og regluverk það sem gildir um fóstureyðingar og raunveruleikann sem konur, börn og aðrir sem málið snertir standa frammi fyrir.

Mörg atriði sitja eftir þegar lestri pistilsins er lokið, má þar nefna staða og möguleika maka til að taka þátt í ákvörðunarferlinu, jafnrétti kynjanna, réttur konunnar til að ráða yfir eigin líkama, áhrifavaldar kvenna, félagslegar aðstæður kvenna og misnotkun annarra á stöðu þeirra, nauðung, o.s.frv.

Á næstunni langar okkur að fjalla nánar um sum þessara atriða, sér í lagi tvö þeirra. Annarsvegar rétt konunnar til að ráða yfir líkama sínum, sem ákvörðunarástæðu og þannig velja hvort hún vilji ganga í gegnum meðgönguna eða fara í fóstureyðingu. Hinsvegar er það spurningin um hver raunverulega velur og/eða hefur áhrif á þetta val konunnar um hvort hún fari í fóstureyðingu eða fæði barn sitt.

Réttur kvenna yfir eigin líkama, réttlætingarástæða fóstureyðinga?

Fóstureyðingar eru títt tengdar kvenréttindabaráttu og rétti kvenna, þá sérstaklega yfir líkama sínum. Þetta er eitthvað sem kemur alltaf upp í umræðunni. Í sjálfu sér er það ekki ómálefnalegt að kona geti valið það á fyrstu stigum meðgöngunnar hvort hún vilji ljúka henni snemma og komast hjá áhættunni sem fylgir meðgöngunni. [Innskot 14. feb. 2013: umræðunnar vegna er réttur konunnar til eigin líkama ekki bundinn við að lífshætta steðji að, heldur að konan geti komist hjá hverskyns líkamlegum óþægindum, tímabundnum eða varanlegum með fóstureyðingu, réttur yfir líkama sínum hlýtur þó eingöngu að snúa að áhrifum á líkama konunnar, hversu lítil eða mikil þau eru]. En þó vegast hér á ýmis sjónarmið um lífsvernd barns og rétt konu yfir líkama sínum sem ekki verður farið nánar í hérna. Enda er á fyrstu stigum meðgöngunnar, frá læknisfræðilegu sjónarhorni, minni áhætta að gangast undir fóstureyðingu en að eiga fulla meðgöngu. En í umræðunni og samkvæmt opinberum tölum fara konur sjaldan í fóstureyðingar vegna þess að þær vilja losna undan óþægindum og áhættum meðgöngunnar. Þau sjónarmið virðast ekki vera forsenda fyrir því að einstaklingur velji það að fara í fóstureyðingu.

Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu voru á árinu 2011 framkvæmdar 969 fóstureyðingar hér á landi. Af þeim voru 936 framkvæmdar af félagslegum ástæðum, 30 af læknisfræðilegum ástæðum og 3 framkvæmdar af samblandi af félagslegum og læknisfræðilegum ástæðum. Sú ákvörðun að ganga ekki með barn fulla meðgöngu vegna þeirra afleiðinga sem það hefur á líkama konunnar verður ekki flokkuð sem félagsleg.  Þessi títt nefnda forsenda fyrir frjálsu aðgengi kvenna að fóstureyðingum heldur því ekki nema í miklum minnihluta fóstureyðingar tilvika. Það hlýtur í öllu falli að vera ótækt að nota rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama sem réttlætingarástæðu fyrir fóstureyðingum af félagslegum toga. [Innskot 14. feb. 2013: Vert er að taka það fram að hér er litið svo á að fóstureyðing af félagslegum ástæðum snýr að aðstæðum eftir fæðingu og ástæða fóstureyðingarinnar hefur því ekki með líkama konunnar að gera, heldur þeim aðstæðum sem barnið og konan munu vera í eftir fæðingu, þ.a.l. er varhugavert að beita slíkri réttlætingarástæðu slíkar fóstureyðingar. Hvort ástæður fóstureyðingar séu rétt flokkaðar hjá landlæknisembættinu kemur ekki til skoðunar]  Slíkt er afar varhugavert, enda þarfnast  fóstureyðingar vegna félagslegra aðstæðna annars konar réttlætingu – en slíkar eru frekar til þess fallnar að brjóta gegn konum og geta leitt til þess að þær velji fóstureyðingu gegn sinni sannfæringu.

Fjallað verður nánar um þau tilvik síðar í vikunni og þann mikilvæga punkt pistlahöfundarins að ofan um að konur mega ekki lenda í þeim aðstæðum að annar einstaklingur beint eða óbeint neyðir hana til að fara í fóstureyðingu. En mikil hætta er á slíku þegar kemur að félagslegum fóstureyðingum.

-DS