Greinasafn fyrir merki: Játningarrit

Ódýr náð þjóðkirkjunnar?

Í gær birtist á miðuopnu Morgunblaðsins aðsend grein eftir séra Geir Waage, sóknarprest í Reykholti. Þar skrifar Geir um ákveðnar breytingar á skipan þjóðkirkjunnar síðastliðin ár undir fyrirsögninni kirkju hinnar ódýru náðar. Greinin virðist að einhverju leiti byggð á fyrri grein Geirs sem birtist í Kirkjuritinu fyrr á þessu ári sem hét „Um Þjóðkirkjuna við tímamót“ og skýtur Geir föstum skotum á lýðræðishugmyndir innan kirkjunnar og það sem Geir segir vera vildarvæðingu innan kirkjuna og vísar til þess að biskupar hafa ræktað þjóðkirkjuna sem leikmannakirkju. Þó að greinin snúi vissulega mikið að innra skipulagi kirkjunnar, sér í lagi hlutverki og ábyrgð sóknarpresta og beri vott um að vera innlegg í umræðu um kirkjupólitísk málefni Þjóðkirkjunnar eru ýmsir hlutar greinarinnar afar áhugaverðir fyrir þá sem standa aðeins utar. Raunar er margt í greininni sem nota mætti sem umræðugrundvöll um fjölmarga þætti innan skipulags kirkjunnar og hugmyndafræði um þátttöku óvígðra innan kirkjunnar, hvers eðlis hún ætti að vera og hvað felist í hlutverki hinna vígðu.

Geir segir m.a.:

Það er athygli vert, að vörnin fyrir kirkjuna gengur svo út á að verja kirkjustofnunina og fjelagsmálaumsvif hennar, ekki fagnaðarerindið og annan menningararf heilagrar kirkju.

Þessi punktur vekur mann til umhugsunar. Hverjar eru áherslurnar útá við sem þjóðkirkjan notar til réttlætingar á tilvist sinni hér á landi, sér í lagi þegar spurningar um tengsl ríkis og kirkju og þjóðkirkju fyrirkomulagið bregst í tal. Geir virðist svíða það að fagnaðarerindið lætur títt í minnipokan fyrir veigaminni umfjöllunarefni (samanborið við mikilvægi fagnaðarerindisins)  sem oft fer þó fram á vettvangi og forsendum kirkjunnar.

Fleiri spurningar koma upp í hugann þegar greinin er lesin sem við vörpum áfram til ykkar.

Á lýðræði heima í kristinni kirkju? Hvert er gildi játningarrita kirkjunnar í dag s.s. Ágsborgarjátningarinnar? Hvað réttlætir sambands ríkis og kirkju? Á að leggja meiri áherslu á félagslegt hlutverk kirkjunnar og þjónustu við landsbyggðina samanborið við fagnaðarerindið eða fer þetta tvennt kannski vel saman? Reynir kirkjan (eða kirkjur í landinu almennt) í daglegri umræðu að verja fagnaðarerindið – eða er því fórnað fyrir fjárhagslega hagsmuni eða jafnvel orðið að feimnismáli?