Greinasafn fyrir merki: Kirkjan

Predikarar með lífverði og fljúgandi um á einkaþotum?

einkaþotaEr eðlilegt eða réttlætanlegt að kristnum predikara sem gengur vel í lífinu, selur t.d. mikið af bókum, er með sjónvarpsþátt, fljúgi um á einkaþotu, sé með lífverði, gisti á flottustu hótelherbergjum o.s.frv.? Skiptir það okkur yfir höfuð máli? Ætti það að skipta okkur máli?

Í gær á vefsíðu Charisma Magazine var að finna afar áhugaverða grein eftir J. Lee Grady undir fyrirsögninni „No More Pentecostal Popemobiles“. Þó að tilefni greinarinnar sé að einhverju leiti kjör Frans páfa, að þá snýr greinin að sjálfsgagnrýni á hin yfirdrifnu veraldlegu gæði sem margir söfnuðir, og sér í lagi margir predikarar og prestar leggja áherslu á, hvort heldur það er í persónulega lífinu eða í krafti hlutverks síns innan kirkjunnar.

Við hvetjum þá sem hafa góð tök á ensku að smella hérna og lesa greinina sjálfa, því hún er vel þess virði að lesa. En fyrir þá sem hafa minni tíma eða kjósa lestur á íslensku er vel þess virði að snerta á nokkrum þeim atriðum sem greinin snýr að.

——

POPEFRANCISGreinarhöfundur er ekki kaþólskur og hefur s.s. ekki fylgst náið með né skilið þá kirkjupólitík sem á sér stað innan Vatíkansins og veltir því upp hversvegna í ósköpunum þessi nýji páfi sem er frá Argentínu sé svona vinsæll.

Það er kannski auðvelt að skilja það. Hann er auðmjúkur. Hann eldar fyrir sjálfan sig. Hann valdi að lifa í lítilli íbúð í Buenos Aires í stað hallar erkibiskupsins. Og þegar hann var leiðtogi kaþólskra Argentínumanna tók hann strætó til að komast á milli staða. Hann tók strætó aftur eftir að hann var kosinn páfi í síðustu viku í Róm.

Páfinn meira að segja skaust út úr Vatíkaninu eftir kosninguna til þess að lofa Guð með almenningi – án lífvarða og án páfabílsins sem ýmsir kalla „Popemobile“.

Að sögn bað hann kolelga sína í Argentínu að sleppa því að mæta til Rómarborgar þegar hann verður settur í embættið og gefa þess í stað peningana sem þeir hefðu eytt í flugfarið til fátækra.

Að þessu sögðu er rétt að velta fyrir sér hvort lesendur sjái einhvern greinarmun á einföldum lífstíl Frans páfa og þeirri yfirdrifnu velmegun sem sést stundum hjá sumum hvítasunnu og karísmatískum leiðtogum.

Því miður er það þannig, þó sem betur fer sé ástandið ekki með þessum hætti á Íslandi, a.m.k. ekki svo ég viti til, að sér í lagi í Norður-Ameríku misnota kristnir leiðtogar það fjármagn sem þeim stendur til boða og jafnvel eyða því í vitleysu.

Það er ekki verið að kalla eftir því að prestar og kristnir leiðtogar lifi í fátækt og neiti sér um allt veraldlegt. Heldur er greinin ákveðin áskorun til kristinnar kirkju að gefa gaum að þeim sem minna mega sín og vara á sama tíma við þá miklu eyðslu, sem er í  raun misnotkun á auð, sem því miður sést stundum.

lifverdirÞó að við á Íslandi verðum lítið vör við lífverði, hótelherbergi sem kosti milljón krónur hver nótt, einkaþotur, kröfur um limmósínur eða stöðugt betl sjónvarpspredikara (kannski einna helst þetta síðastnefnda), að þá getum við samt haft áhrif til hins betra. Við ættum t.d. ekki að leyfa gestapredikurum að komast upp með fáránlegar kröfur ef þær eru gerðar, jafnvel þó að viðkomandi sé nafntogaður og frægur. Slíkt á ekki að skipta máli.

——

Við á Trúmál.is vonum að sjálfsögðu að Frans páfi haldi áfram að vera sú fyrirmynd sem hann virðist hafa verið argentínsku kirkjunni. Jafnframt vonum við að leiðtogar kirkna um allan heim verði vakandi yfir málefnum þeirra er minna mega sín og hlutverki kirkjunnar gagnvart þeim. Einnig er mikilvægt að kirkjan sé meðvituð um hættuna sem felst í þeirri mistnokun á fjármunum sem stundum vill eiga sér stað innan kirkjunnar. Þá erum við ekki að vísa til fjárdráttar, heldur óábyrga notkun og umframeyðslu á fjármunum sem kirkjunni hefur verið falið af fúsum gefendum til þess að ávaxta, til að vinna þá vinnu sem Jesús hefur falið henni.

-D.S.

Gagnrýni á söfnun kirkjunnar? Ber að undrast?

Er það einkennilegt að þjóðkirkjan telji það hlutverk sitt að safna fé fyrir Landspítalann eftir að hafa þrýst á um og fengið tugmilljóna aukafjárframlag, vegna fjárkorts kirkjunnar eins og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis heldur fram skv. frétt RÚV um málið?

Fyrr í dag fjölluðum við um átak það sem kirkjan hyggst standa fyrir um söfnun vegna tækjakaupa Landspítalann, en Agnes Sigurðardóttir, biskup, sagði m.a. að kirkjan vildi taka þeirri áskorun að vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landsspítalanum. Við lístum þessu sem skref í rétta átt á nýju ári og fjölluðum um það verkefni sem Jesús kallar kristna til þess að vinna, að þjóna fátækum, sjúkum og öðrum þeim sem minna mega sín.

Nú hafa hinsvegar margir sem lesið hafa fréttina tjáð sig um það að þeim þyki nú ómakleg orð og gagnrýni þingmannsins. Að einhverju leiti má vissulega taka undir það, en þó verður líka að viðurkennast að þingmaðurinn setur fram gagnrýni sína á afar málefnalegan hátt og hlutar hennar ættu vissulega að vera kirkjunni og öðrum umhugsunarefni.

SIIÍ fyrsta lagi er vert að vekja athygli á því að þingmaðurinn er ekki að gagnrýna ætlun kirkjunnar til tækjakaupasöfnunar sjálfstætt, heldur virðist gagnrýnin snúa að því að kirkjan taki sér þetta fyrir hendur samhliða því að hafa fengið tugmilljóna aukafjárframlag vegna meints fjárskorts. Jafnframt ýjar þingmaðurinn að því að kirkjan sé að „básuna“ þessu góðverki sínu og að einhverskonar auðmýkt kunni að skorta sem ýmis frjáls félagasamtök hafi í gegnum tíðin jafnvel staðið sig heldur betur.

Þingmaðurinn tekur jafnframt fram að hún sé að sjálfsögðu þakklát fyrir það eins og aðrir borgarar landsins að keypt séu tæki á Landspítalann og jafnframt segir þingmaðurinn: „Mér finnst það kanski ekki rangt [að kirkjan standi að fjársöfnun - innskot fréttamanns RÚV í umfjöllun sinni]…“ Það sem virðist fara í taugarnar á þingmanninum er að kirkjan fái greidda fjármuni frá ríkinu sem gætu eins runnið til þess málefnis sem kirkjan stefnir að því að vinna fjáröflun vegna.

AgnesStefna kirkjunnar í þessu máli er engan vegin yfir þessa gagnrýni hafin, sérstaklega í ljósi hinna fjárhagslegu tengsla sem til staðar eru milli Kirkjunnar, ríkisins og Landsspítalans, og sérstaklega þegar óljóst er hvernig að fjáröfluninni verði staðið og t.a.m. hver kostnaður við hana verður – mun aukafjárveitingin sem kirkjan fékk t.a.m. dekka kostnaðinn við fjáröflunina og það sem til safnast til Landsspítalans?

Á meðan því er vissulega fagnað að kirkjan taki þetta skref að standa fyrir söfnun að þá er þetta vonandi fyrsta skref af mörgum, og vonandi verður þátttaka og þjónusta kirkjunnar í samfélagsþjónustu stór og eðlilegur hluti af kjarnahlutverki kirkjunnar í samfélaginu. Slíkt myndi vafalítið hafa þau áhrif að kirkjan þarf ekki að „básúna“ um það, en slíkt ber eðlilega að varast og samræmist ekki boðskapi Biblíunnar. En í Matt. 6:1-4 segir m.a.:

1Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.
2Þegar þú gefur ölmusu skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.
3En þegar þú gefur ölmusu viti vinstri hönd þín ekki hvað sú hægri gerir 4svo að ölmusa þín sé í leynum og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Hvort biskup hafi verið að „básúna“ þetta eða bara láta vita af þessu á kurteisislegan hátt má vissulega hártogast um lengi, en ljóst er að ef þetta verður hluti af hversdagsstarfi kirkjunnar að þjónusta samfélagið án tilgerðar, án tilkynningar, í auðmýkt og með boðskap Jesú Krists að leiðarljósi verður gagnrýni þingmannsins seint að fréttaefni. Kannski segir það meira um vanrækslu kirkjunnar á þessu samfélagsþjónustu hlutverki sínu til þessa að þingmaðurinn telur sig þurfa að fjalla um það en hitt að þingmaðurinn sé ómaklega að vega að kirkjunni með orðum sínum?

-DS

 

Skref í rétta átt á nýju ári

kirkjanFramtak það sem Agnes M. Sigurðardóttir, biskup hefur sagt frá, að Þjóðkirkjan muni standa fyrir söfnun til tækjakaupa fyrir Landspítalann ber tvímælalaust að hrósa. Það er gott, raunar er það meira en gott það er nauðsynlegt að kirkjan setji sér stefnu í upphafi árs að gefa af sér til samfélagsins. Kirkjan á ekki að vera gróðrafyrirtæki eða safna fjármagni til þess að vera ávallt með flottasta orgelið, fínustu kertin á altarinu, þægilegustu stólana, flottustu hljóðnemana og hátalarana og glæsilegustu listaverkin í húsnæði sínu. Allt eru þetta þó hlutir sem margir myndu gjarnan vilja að tilheyrðu kirkjunni og vissulega væri hægt að færa ýmiskonar rök fyrir eyðslu fjármuna í þessa hluti.

Nauðsynlegt er þó að kirkjan, og þá á ég ekki einvörðungu við Þjóðkirkjuna, einbeiti sér jafnframt að því sem Jesús snerti ótal sinnum á í samskiptum sínum við lærisveina sína og aðra samferðarmenn, að hjálpa þeim sem minna mega sín og nýta fjármuni sína og tíma til þess að styðja við þá sem ganga í gegnum erfiða tíma og hjúkra þeim sem eru sjúkir. Lengi vel hefur slík samfélagsþjónusta verið beinn hluti af starfsemi kirkjunnar og er vert að minnast á sjúkrahús sem t.a.m. Kaþólska kirkjan hafði forgöngu um að stofna og stendur að enn í dag víðsvegar um heiminn. Á Íslandi þekkja vel flestir Landakotsspítala sem var lengi vel aðalsjúkrahús landsins og var stofnaður af St. Jósefssystrum, en spítalinn var ekki byggður fyrir skattpening borgaranna heldur erlent samskota og sjálfsaflafé reglusystranna ásamt fé sem hafði verið gefið frá öðrum til byggingar holdsveikraspítala. (Sjá meira http://www.laeknabladid.is/2009/05/nr/3503)

Þetta er því ekki í fyrsta sinn sem kristið samfélag ákveður að taka höndum saman um að styðja við samfélagslegt málefni sem tengist heilbrigðisgeiranum. Hinsvegar verður að viðurkennast að kirkjan mætti án efa vera talsvert duglegri að sinna þessu og gera slíkt í samræmi við áhersluna sem lögð er á þessa þjónustu kirkjunnar í orðum Jesú Krists í Biblíuna. Eins og oft er sagt á enskunni: „if you’re going to talk the talk you’ve got to walk the walk“.

Það er von okkar að þetta góða framtak sé ekki einstakt framtak sem ætlað sé að vari í eina viku af þeim 52 sem mynda árið 2013 (eins og fram kemur í frétt á mbl.is um málið), heldur að framtakið sé fyrsta framtakið af mörgum sem kirkjan mun standa að allt árið í kring og mun verða mikilvægur hornsteinn í starfi kirkjunnar – að samfélagsþjónustan eigi sér ekki eingöngu stað í skammtímaátökum og söfnunum eða innan sérafmarkaðs hjálparstarfs kirkjunnar, heldur verði hluti af reglulegri þjónustu presta og safnaðarmeðlima allt árið í kring, með orð Jesú Krists að leiðarljósi. Þannig ættu prestar og leiðtogar kirkjunnar ekki eingöngu að hvetja aðra til góðra verka með orðum einum heldur og í verki eins og fyrirmynd okkar gerði á þessari jörð og gerir enn í dag.

(Dæmi um staði í Biblíunni þar sem Jesús fjallar um að sinna fátækum og þeim sem minna mega sín: Matt. 5. kafla og 6. kafla og Lúk. 6. kafla, Lúk 3:11, Lúk 12:33; Matt. 19:20, Matt. 25:31-46, svo fáein dæmi séu nefnd)

-DS