Greinasafn fyrir merki: Kirkjupólitík

Krossinn í fjölmiðlum – safnaðarátökin

dvlogoÁ síðum DV, sem oft hefur verið litið niður á sem ófréttnæmur fjölmiðill, hafa síðastliðna daga birst fréttir af átökum innan Krossins. Að vanda ber fjölmiðlaflutningurinn æsifréttabrag á sér og manni er um margt spurn hvað er fréttnæmt við átök á aðalfundi safnaðar þar sem eru færri en 500 meðlimir (þó að vissulega kunni lögreglumál almennt að vera fréttaefni). Svo virðist sem þeir sem standi málinu næst kunni vel við umfjöllun blaðsins um átökin en blaðið vísar talsvert til ummæla nafngreindra sem ónafngreindra heimildarmanna sem hika ekki við að segja frá gangi mála innan safnaðarins.

Því miður er það þó svo að umrædd átök hljóta í besta falli að vera fjölskylduharmleikur. Svo virðist sem fjölskyldumeðlimir sláist um völd og titla innan safnaðarins. Þetta er um margt sorglegt og á allan hátt er þetta slæmt fordæmi fyrir starfsemi kristilegra safnaða í landinu. Að leiða söfnuð er í sjálfu sér ekki eftirsóknarvert hlutverk frá sjónarhorni heimsins, enda er fyrst og fremst um þjónustuhlutverk að ræða, en því miður hefur maðurinn skapað þvílíka umgjörð og upphafið tiltekna einstaklinga þannig að sóst er eftir leiðtogahlutverkum kirkjunnar með kjafti og klóm og án þess að hvatinn til þjónustunnar ráði þar mestu.

KrossinnÍ ljósi fjölskyldutengsla þeirra sem þarna eigast við er manni hugsað til kaþólsku kirkjunnar og þess fyrirkomulags sem þar hefur ríkt í aldarraðir að prestar gifti sig ekki og eigi þ.a.l. ekki börn sjálfir. Þó að það fyrirkomulag hafi verið gagnrýnt málefnalega í gegnum tíðina og oft með réttu, er ljóst að það fyrirkomulag hefur vafalítið komið í veg fyrir fjölskylduátök svipuð þeim sem nú eru í gangi innan Krossins og hefðu jafnvel komið í veg fyrir þau átök sem við nú verðum vitni að.

En það læðist að manni grunur að ætlun þessara einstaklinga sé ekki endilega að starfa fyrir Drottinn Jesú í þjónustuhlutverkis safnaðarhirðis og forstöðumanns kirkju sem þjónar 500 einstaklingum. Manni er sannanlega spurn hvert raunverulegt markmið þessara einstaklinga sé, og hver raunveruleg afstaða þeirra til hlutverksins sem þau sækja eftir sé, þ.e.a.s. enda virðast átökin þvílík að beita þurfi atbeina lögreglu til þess að friða hópinn.

Því miður er það svo að í aldanna rás hefur kirkjupólítík verið þvílík átakapólitík og málefnin eru oft afar viðkvæm og persónuleg, hvort sem um fjölskyldutengsl er að ræða eða ekki. En betur má ef duga skal, átakapólitíkin sem ríkt hefur innan kirkjunnar á að sjálfsögðu ekki heima þar.

Við vonumst til þess að sá ágreiningur sem til staðar er innan safnaðarins ljúki í sátt og hafi ekki slæm áhrif á söfnuðinn. Í ljósi fjölskylduáhrifanna veltir maður fyrir sér hvort það væri ekki heillavænlegast að umrædd fjölskylda sem stýrt hefur söfnuðinum í áratugi stigi til hliðar, þó ekki væri nema um stundarsakir, og byggði þess í stað upp framtíðarleiðtoga og þjóna innan safnaðarins til þess að taka við því mikla ábyrgðarhlutverki sem forstöðumannshlutverkið er.

-DS

Gleymdi biskup Jesú? Er kirkjan of stofnanavædd?

madurarsinsMargir fylgdust með Kryddsíldinni á Stöð 2, en eins og gjarnan er um áramót er gaman að fara yfir helstu mál liðins árs og þá eru fréttaannálar og stjórnmálaumræður ofarlega á baugi. Í Kryddsíldinni síðastliðinn gamlársdag var tilkynnt um val Stöðvar 2 á manni ársins. Að þessu sinni varð fyrir valinu frú Agnes M. Sigurðardóttir sem tók við biskupsembætti Þjóðkirkjunnar fyrr á þessu ári og er fyrsta konan til þess að gegna þessu embætti á Íslandi frá upphafi. Það er einmitt þetta sem varð einna helst til þess að hún varð fyrir valinu.

Það er ekkert út á val Stöðvar 2 að setja, en það hefur vakið athygli og borist til eyrna að í viðtali Stöðvar 2 við biskup hafi ef til vill skort á einhverju sem a.m.k. einhverjir kirkjumeðlimir vonuðust til að heyra um - það vakti nefnilega athygli að biskup minntist ekki einu orði á hver meginboðkapur kirkjunnar sé né á Jesú Krist, en kirkjan hefur nýlokið við að minnast fæðingar hans sérstaklega. Ef til vill er þetta pínuósanngjarnt að ætlast til þess að biskup vekji máls á frelsarann sjálfan, verk Hans og boðskap í viðtali sem snérist um persónulegan frama hennar og jafnréttisárangur kirkjunnar í heild. Jafnframt hlýtur að vera ósanngjarnt að krefjast þess að biskup Íslands minnist á Jesú í hvert skipti sem biskupinn fær tækifæri til þess að tjá sig opinberlega í fjölmiðlum. 

En af hverju stingur þessi skortur, í tæplega átta mínútna viðtali við andlit kirkjunnar útá við, suma? Kannski má rekja það til þeirrar umræðu sem kemur oftar og oftar upp í samfélaginu að Þjóðkirkjan sé of stofnanavædd og hafi misst sjónar á boðskap Jesú krists. Spjátrungar hafa ítrekað talað um grænsápuguðfræði og grænsápuþvott kirkjunnar. Kannski upplifa sumir áheyrendur að biskup skammist sín fyrir boðskapinn um Jesú krist og mikilvægi fórnardauða hans, eða kannski þykir það slæm taktík hjá kirkjunni að fjalla um Jesú sem lifandi einstakling opinberlega í viðtali. Ætli það sé ekki betra að viðtöl sem þessi snúist um mannfólkið að upphefja annað mannfólk sem nær tilteknum frama. Hugsanlega áttu sumir von á því að biskup myndi af einskærri hógværð nefna það að það væri ekki hún sem væri maður ársins í krafti þess að vera fyrsti kvennmaðurinn til að gegna þessu embætti, heldur væri það Jesú kristur, sjálfur frelsarinn, sem væri maður ársins. Enda hefði hún aldrei orðið maður ársins nema fyrir Hann og fyrir þá staðreynd að hún væri að gegna tiltekinni þjónustu fyrir Hann…eða hvað?.

Viðtalið má hlusta á hérna og frétt kirkjunnar um efnið má finna hérna.

-DS

Ódýr náð þjóðkirkjunnar?

Í gær birtist á miðuopnu Morgunblaðsins aðsend grein eftir séra Geir Waage, sóknarprest í Reykholti. Þar skrifar Geir um ákveðnar breytingar á skipan þjóðkirkjunnar síðastliðin ár undir fyrirsögninni kirkju hinnar ódýru náðar. Greinin virðist að einhverju leiti byggð á fyrri grein Geirs sem birtist í Kirkjuritinu fyrr á þessu ári sem hét „Um Þjóðkirkjuna við tímamót“ og skýtur Geir föstum skotum á lýðræðishugmyndir innan kirkjunnar og það sem Geir segir vera vildarvæðingu innan kirkjuna og vísar til þess að biskupar hafa ræktað þjóðkirkjuna sem leikmannakirkju. Þó að greinin snúi vissulega mikið að innra skipulagi kirkjunnar, sér í lagi hlutverki og ábyrgð sóknarpresta og beri vott um að vera innlegg í umræðu um kirkjupólitísk málefni Þjóðkirkjunnar eru ýmsir hlutar greinarinnar afar áhugaverðir fyrir þá sem standa aðeins utar. Raunar er margt í greininni sem nota mætti sem umræðugrundvöll um fjölmarga þætti innan skipulags kirkjunnar og hugmyndafræði um þátttöku óvígðra innan kirkjunnar, hvers eðlis hún ætti að vera og hvað felist í hlutverki hinna vígðu.

Geir segir m.a.:

Það er athygli vert, að vörnin fyrir kirkjuna gengur svo út á að verja kirkjustofnunina og fjelagsmálaumsvif hennar, ekki fagnaðarerindið og annan menningararf heilagrar kirkju.

Þessi punktur vekur mann til umhugsunar. Hverjar eru áherslurnar útá við sem þjóðkirkjan notar til réttlætingar á tilvist sinni hér á landi, sér í lagi þegar spurningar um tengsl ríkis og kirkju og þjóðkirkju fyrirkomulagið bregst í tal. Geir virðist svíða það að fagnaðarerindið lætur títt í minnipokan fyrir veigaminni umfjöllunarefni (samanborið við mikilvægi fagnaðarerindisins)  sem oft fer þó fram á vettvangi og forsendum kirkjunnar.

Fleiri spurningar koma upp í hugann þegar greinin er lesin sem við vörpum áfram til ykkar.

Á lýðræði heima í kristinni kirkju? Hvert er gildi játningarrita kirkjunnar í dag s.s. Ágsborgarjátningarinnar? Hvað réttlætir sambands ríkis og kirkju? Á að leggja meiri áherslu á félagslegt hlutverk kirkjunnar og þjónustu við landsbyggðina samanborið við fagnaðarerindið eða fer þetta tvennt kannski vel saman? Reynir kirkjan (eða kirkjur í landinu almennt) í daglegri umræðu að verja fagnaðarerindið – eða er því fórnað fyrir fjárhagslega hagsmuni eða jafnvel orðið að feimnismáli?