Greinasafn fyrir merki: Páfi

Predikarar með lífverði og fljúgandi um á einkaþotum?

einkaþotaEr eðlilegt eða réttlætanlegt að kristnum predikara sem gengur vel í lífinu, selur t.d. mikið af bókum, er með sjónvarpsþátt, fljúgi um á einkaþotu, sé með lífverði, gisti á flottustu hótelherbergjum o.s.frv.? Skiptir það okkur yfir höfuð máli? Ætti það að skipta okkur máli?

Í gær á vefsíðu Charisma Magazine var að finna afar áhugaverða grein eftir J. Lee Grady undir fyrirsögninni „No More Pentecostal Popemobiles“. Þó að tilefni greinarinnar sé að einhverju leiti kjör Frans páfa, að þá snýr greinin að sjálfsgagnrýni á hin yfirdrifnu veraldlegu gæði sem margir söfnuðir, og sér í lagi margir predikarar og prestar leggja áherslu á, hvort heldur það er í persónulega lífinu eða í krafti hlutverks síns innan kirkjunnar.

Við hvetjum þá sem hafa góð tök á ensku að smella hérna og lesa greinina sjálfa, því hún er vel þess virði að lesa. En fyrir þá sem hafa minni tíma eða kjósa lestur á íslensku er vel þess virði að snerta á nokkrum þeim atriðum sem greinin snýr að.

——

POPEFRANCISGreinarhöfundur er ekki kaþólskur og hefur s.s. ekki fylgst náið með né skilið þá kirkjupólitík sem á sér stað innan Vatíkansins og veltir því upp hversvegna í ósköpunum þessi nýji páfi sem er frá Argentínu sé svona vinsæll.

Það er kannski auðvelt að skilja það. Hann er auðmjúkur. Hann eldar fyrir sjálfan sig. Hann valdi að lifa í lítilli íbúð í Buenos Aires í stað hallar erkibiskupsins. Og þegar hann var leiðtogi kaþólskra Argentínumanna tók hann strætó til að komast á milli staða. Hann tók strætó aftur eftir að hann var kosinn páfi í síðustu viku í Róm.

Páfinn meira að segja skaust út úr Vatíkaninu eftir kosninguna til þess að lofa Guð með almenningi – án lífvarða og án páfabílsins sem ýmsir kalla „Popemobile“.

Að sögn bað hann kolelga sína í Argentínu að sleppa því að mæta til Rómarborgar þegar hann verður settur í embættið og gefa þess í stað peningana sem þeir hefðu eytt í flugfarið til fátækra.

Að þessu sögðu er rétt að velta fyrir sér hvort lesendur sjái einhvern greinarmun á einföldum lífstíl Frans páfa og þeirri yfirdrifnu velmegun sem sést stundum hjá sumum hvítasunnu og karísmatískum leiðtogum.

Því miður er það þannig, þó sem betur fer sé ástandið ekki með þessum hætti á Íslandi, a.m.k. ekki svo ég viti til, að sér í lagi í Norður-Ameríku misnota kristnir leiðtogar það fjármagn sem þeim stendur til boða og jafnvel eyða því í vitleysu.

Það er ekki verið að kalla eftir því að prestar og kristnir leiðtogar lifi í fátækt og neiti sér um allt veraldlegt. Heldur er greinin ákveðin áskorun til kristinnar kirkju að gefa gaum að þeim sem minna mega sín og vara á sama tíma við þá miklu eyðslu, sem er í  raun misnotkun á auð, sem því miður sést stundum.

lifverdirÞó að við á Íslandi verðum lítið vör við lífverði, hótelherbergi sem kosti milljón krónur hver nótt, einkaþotur, kröfur um limmósínur eða stöðugt betl sjónvarpspredikara (kannski einna helst þetta síðastnefnda), að þá getum við samt haft áhrif til hins betra. Við ættum t.d. ekki að leyfa gestapredikurum að komast upp með fáránlegar kröfur ef þær eru gerðar, jafnvel þó að viðkomandi sé nafntogaður og frægur. Slíkt á ekki að skipta máli.

——

Við á Trúmál.is vonum að sjálfsögðu að Frans páfi haldi áfram að vera sú fyrirmynd sem hann virðist hafa verið argentínsku kirkjunni. Jafnframt vonum við að leiðtogar kirkna um allan heim verði vakandi yfir málefnum þeirra er minna mega sín og hlutverki kirkjunnar gagnvart þeim. Einnig er mikilvægt að kirkjan sé meðvituð um hættuna sem felst í þeirri mistnokun á fjármunum sem stundum vill eiga sér stað innan kirkjunnar. Þá erum við ekki að vísa til fjárdráttar, heldur óábyrga notkun og umframeyðslu á fjármunum sem kirkjunni hefur verið falið af fúsum gefendum til þess að ávaxta, til að vinna þá vinnu sem Jesús hefur falið henni.

-D.S.

Hallærisleg gagnrýni?

POPEFRANCISNú þegar Kaþólska kirkjan hefur kynnt heiminn fyrir Frans, nýjan páfa, hafa fjölmiðlar um allan heim grandskoðað forsögu hans og sagt frá. Það er athyglisvert, hverrar skoðunar sem menn kunna að vera á kaþólsku kirkjunni, að fjölmiðlar, stjórnmálamenn og félagssamtök einblína á ummæli páfa í garð samkynhneigðra.

Það er í raun ótrúlegt hvað skoðanir Frans á samkynhneigðu líferni virðast vera mikill fréttamatur. Í raun er þetta hallærislegt í ljósi skýrrar afstöðu kaþólsku kirkjunnar til þessa málaflokks, og hefur sú afstaða ekki tekið neinum breytingum upp á síðkastið og lítið sem bendir til þess að þetta sé að fara að breytast. Þetta eru því algjörar ekki-fréttir.

Án þess að gera lítið úr þeim einstaklingum sem berjast fyrir auknum réttindum þess hóps manna og kvenna sem teljast ekki gagnkynhneigð, eru mörg málefni sem eru mun meira mein á alþjóðasamfélaginu í heild heldur en fordómar gagnvart samkynhneigðum og birtingarmyndir þeirra (hér er þó ekki verið að draga úr því að birtingamynd ofbeldis gagnvart samkynhneigðum, hvort heldur það er líkamlegt eða andlegt er afar alvarlegt mál og með öllu óásættanlegt).

Kaþólska kirkjan hefur lengi vel verið í fararbroddi um allan heim, sérstaklega í þróunarríkjum, þegar kemur að þjónustu og stuðning við þá sem minna mega sín. Þannig starfrækir kirkjan um allan heim sjúkrahús og býður upp á ýmiskonar grunnþjónustu fyrir sjúka og fátæka víðsvegar. Meðfylgjandi er áhugaverð mynd sem lýsir starfi Kaþólsku kirkjunnar í Afríku. Á meðfylgjandi tengli hérna má svo finna nánari upplýsingar um tölfræði kaþólsku kirkjunnar þar sem koma fram upplýsingar um ýmis verkefni kirkjun nar og dreifingu verkefnanna um heiminn.

Kaþólska kirkjan í Afríku

Markmið á vettvangi alþjóðastofnanna, s.s. Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja mikla áherslu á útrýmingu fátæktar, aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun og baráttu gegn alvarlegum sjúkdómum. Allt eru þetta markmið sem kaþólska kirkjan hefur í starfi sínu unnið að.

Þegar við lítum á umfjallanir um Frans ætti nafnaval hans og líferni að vekja mikla athygli með tilliti til þess mikla meins sem fátækt í heiminum er, en fátæktin og slæmt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun elur af sér mörg önnur samfélagsmein.

Samkvæmt umfjöllunum fjölmiðla hefur Frans lifað látlausu lífi og neitað að búa við þá velmegun sem stöðu hans vegna honum bauðst. Hann velur sér sama nafn og Frans frá Assíssí sem er  hvað þekktastur fyrir að vera verndari hinna fátæku og bjargarlausu. Jafnframt var hann mikill náttúruunnandi.

Þegar horft er til þessara atriða er það furðulegt að fjölmiðlar hafi ekki, í umfjöllunum sínum, verið spenntari yfir hugsanlega auknum áherslu á samfélagsþjónustu kirkjunnar og útrýmingu fátæktar í heiminum með tilkomu nýs páfa. Slíkt ber að fjalla um og hvetja til og fagna í stað þess að eyða mesta púðrinu í að úthúða, enn á ný, alþekktri afstöðu kirkjunnar til málefnis samkynhneigða.

Þá mætti jafnframt vekja enn meiri athygli á að Frans hefur talað gegn því að prestar neiti að skíra börn sem fæðst hafa utan hjónabands. Hann hefur þannig barist fyrir því að konur, sem verða þungaðar utan hjónabands, verði ekki fordæmdar sem oft vill leiða til aukinna tíðni fóstureyðinga, heldur þvert á móti að kirkjan fagni hugrekki þeirra að fæða barnið í þennan heim og neiti barninu ekki um skírnina.

En þetta fær litla umfjöllun…af hverju?

-D.S.

Páfi segir af sér

BenediktXVIBenedikt XVI páfi hefur tilkynnt að hann muni fara úr embættinu 28. febrúar næstkomandi. Mun ástæðan fyrir þessu vera sú að aldur og heilsa komi í veg fyrir að hann sinni embættinu með þeim hætti sem hann telur embættið þurfa.

Það er óalgengt að páfi segi sig úr embætti og hafa flestir páfar látist í embætti. Síðasti páfi sem sagði af sér var Gregory XII árið 1415, en hann sagði af sér m.a. til að binda enda á átök innan kirkjunnar, en deilur stóðu milli aðila um hver ætti tilkall til embættisins og ruddi afsögn Gregory XII veginn fyrir nýjan páfa sem aðilar gátu verið sáttir með. Á undan Gregory XII má segja að síðasti óumdeildi páfi sem lét af embætti af sjálfsdáðum var Clelestine V á árinu 1294

Páfi hefur verið í embætti í 8 ár og verður ekki annað sagt en að margt hafi gerst á þeim tíma bæði í heiminum, en einnig á vettvangi kirkjunnar. Á meðan menn bera þakklæti til fráfarandi páfa er væntanlega mikil vinna framundan við að velja næsta páfa.