Greinasafn fyrir merki: Samfélag

Trúmál í skólakerfinu – Harmageddon o.fl.

HarmageddonÞáttastjórnendur útvarpsþáttarins Harmageddon eru miklir áhugamenn um trú og gera trúmál reglulega að umtalsefni í útvarpsþætti sínum á útvarpsstöð sinni. Þeir fara þó ekki í felur með það að þeir séu trúlausir og hafa iðulega miklar efasemdir um það gildi sem trúaðir einstaklingar sjá í trú sinni. Um daginn, 7. mars sl. mætti Dögg Harðardóttir til þeirra í viðtal en hún er í stjórn félagsins Nemendur og Trú sem við kynntum fyrir skömmu hérna.

Viðtalið bar, eins ög mörg önnur viðtöl þeirra, keim af því að vera einhverskonar yfirheyrsla um raunverulegt gildi kristinnar trúar. Viðtalið má finna og hlusta á í heild sinni hérna.

Í kjölfar viðtalsins hafa ýmsar umræður skapast, bæði á fésbókarsíðu þáttarins hérna og þá hefur Kristinn Theodórsson, varamaður í stjórn Siðmenntar fjallað um það hérna.

Málefnið, nemendur og trú, er vel þess virði að ræða, og í raun nauðsynlegt að ræða það ítarlega og með hliðsjón af fjölmörgum sjónarhornum. Mörg álitaefni koma upp og ekki er einsýnt að sú leið sem Reykjavíkurborg hefur valið að fara í þessum efnum, með t.d. innleiðingu reglna sinna um samskipti trúfélaga og skóla, séu til þess fallin að vernda mannréttindi barna og starfsmanna borgarinnar, t.a.m. trúfrelsið.

Meðal þess sem eðlilegt er að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd, eru mörk innrætingar tiltekinnar skoðana og kynningar á tilteknum skoðunum. Í umræðunni virðist vera talsverð hræðsla þegar kemur að því að leyfa trúfélögum að tjá sig inn í skólanum og kynna sjónarmið sín, þess í stað þykir eðlilegra að „hlutlaus“ kennari gefi hlutlausa lýsingu, því þannig sé um kynningu að ræða en ekki innrætingu. Þetta viðhorf er í sumum tilvikum eðlilegt en kann jafnframt að vera varasamt (hvort sem einstaklingur er trúlaus eða ekki), því kennarinn mun iðulega hafa einhverja persónulega skoðun og getur alltaf haft áhrif á kynningu sína, sem kann þá að vera minna hlutlausari. Þegar hinsvegar einstaklingar sem opinskátt eru ákveðinnar skoðunar, tjá sig um hana, að þá er hættan á „innrætingu“ töluvert lægri, enda engin feluleikur, meðvitaður eða ómeðvitaður, í gangi.

Önnur sjónarmið sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér er réttur foreldra til að ráða menntun barns síns, réttur barnsins, hlutverk ríkisvaldsins, gildi hlutleysis í trúmálum, sköpun fordóma innan skólakerfisins og svona mætti lengi telja. Jafnframt verður að hafa í huga að skólinn hlýtur að hafa það hlutverk að undirbúa börnin undir framtíðina og heiminn.

Því miður er það hinsvegar þannig, og þátturinn sem ég vísaði til að ofan, að umræða um þessi mál dettur í sama farveg og endranær – leiðindaröfl um öfgar og ætlaðar ætlanir þeirra sem eru á öndverðu meiði. Margir grípa, eins og svo oft, stöðuna í Bandaríkjunum og eru ekki lengi að bera framtíðina saman við stöðu trúmála í Bandaríkjunum. Öfgar sem þar er að finna rata hratt og örugglega í umræðuna um hvernig málum er háttað, eða ætti að vera háttað hér á landi. Sá samanburður er þó iðulega til þess fallinn að afvegaleiða umræðuna.

Umræðunni er að sjálfsögðu fagnað, en á sama tíma væri gaman að sjá hana markvissari og fjalla um fleiri atriði en hin týpísku hártogunaratriði sem umræðan vill oft detta í á opinberum vettvangi. Því miður.

Hver veit nema tími gefist til þess að kafa dýpra í þessa umræðu á síðum Trúmál.is í nálægri framtíð.

D.S.

Milljónamæringur þökk sé fóstureyðingu

Eftirfarandi myndband hefur vakið sterk viðbrögð. Það sýnir konu sem kemur að hópi fólks í San Francisco sem tók þátt í „Walk for Life“ göngu sem haldin er árlega í tengslum við fóstureyðingar. Konan segir að hún sé milljónamæringur vegna þess að hún hafi farið í fóstureyðingu. Viðmælandi hennar vekur máls á því að þessvegna tali þau um fóstureyðingar sem mannfórn. Því manneskju sé fórnað fyrir bættu lífi annarrar manneskju.

Hérna má lesa meira um myndbandið. Fullyrðing konunnar í myndbandinu stingur mann enda er ótækt að samfélagið íhugi það að setja manneskju í þá aðstöðu að hún þurfi að eyða lífi í móðurkviði sínu til þess að eiga möguleika á bættari framtíð, eða velgengni, menntun eða frama. Konur eiga betra skilið. Nútímasamfélag ætti að leggja mikla áherslu á að fækka fóstureyðingum kvenna. Samfélag þar sem almennt er „þörf“ fyrir fóstureyðingu, sér í lagi af félagslegum ástæðum er samfélag þar sem eitthvað er að. Viljum við búa í samfélagi þar sem mannslífum er reglulega fórnað oft með tilheyrandi tilfinningakostnaði kvenna, fyrir fjárhagslega og félagslega velgengni?

-DS

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum – er vegið að stöðu og tækifærum kvenna?

barn

Í kjölfar greinar okkar „Réttur kvenna yfir eigin líkama og fóstureyðingar“ og pistils ungrar konu sem sagði frá reynslu sinni af fóstureyðingum í síðustu viku verður fjallað í um sjónarmið tengdum fóstureyðingum af félagslegum ástæðum.

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru án nokkurs vafa langtum algengasta ástæðan fyrir því að fóstureyðingar eru framkvæmdar. Á Íslandi voru árið 2011 framkvæmdar 936 fóstureyðingar af félagslegum ástæðum af 969 fóstureyðingum sem framkvæmdar voru það árið. Í nálægum ríkjum þar sem ástæður fóstureyðinga hafa verið kannaðar er félagslegi þátturinn án undantekninga algengasta ástæða fóstureyðinga.

Þessi staðreynd ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir samfélag okkar fyrir margar sakir. Ekki síst vegna jafnréttinda og kvenréttinda sjónarmiða sem venjulega er teflt fram sem réttlæting fyrir frjálsara aðgengi að fóstureyðingum. En jafnframt vegna þess að félagslegar fóstureyðingar eru ákveðinn mælikvarði á velgengni í samfélaginu.

Í upphafi er vert að fjalla örlítið um hvað almennt er flokkað sem fóstureyðing af félagslegum ástæðum. Í lögum nr. 25/1975 er fjallað um þetta.  Þar er fóstureyðing sögð heimil: Þegar þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Félagslegar ástæður eru sagðar vera: 1) Hafi kona alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði 2) Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysi annarra á heimilinu 3) Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt 4) Annarra ástæðna séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.

Framangreint er það sem lögin heimila. Athygli vekur að félagslegar ástæður snúa að neikvæðum áhrifum þess fyrir konuna að eignast barnið. Konum er gefin leið út og undan þessum áhrifum – fóstureyðing. Sumir hafa líkt þessu við kúgun samfélagsins gegn konum, þ.e.a.s. að sú staðreynd að hægt er að losa konuna við barnið með því að bjóða upp á fóstureyðingu veldur því að konan velur þá leið í stað þess að samfélagið kemur til móts við félagslegu erfiðu aðstæður konunnar til þess að hún geti bæði átt barnið og búið við mannsæmandi félagslegar aðstæður.

Því miður eru margar konur sem standa frammi fyrir því að velja milli starfsframa, námsframa eða fjárhagslegrar velgengni annarsvegar og hinsvegar þess að eignast barn. Það að konur séu settar í þá aðstöðu að þurfa að velja milli fóstureyðingar og framangreinds hlýtur frá jafnréttis- og kvenréttindasjónarmiðum að vera óásættanlegt. Í Bandaríkjunum eru til áhugaverð samtök, Feminists for Life, sem berjast fyrir bættum aðbúnaði kvenna þannig að þeim sé ekki ýtt út í fóstureyðingar. Er þörf á slíkum samtökum hér á landi?

Fóstureyðing er kannski auðveld lausn fyrir samfélagið – en byrði fyrir konuna og ógn við kvenréttindi

Samfélagið þarf að bregðast við og tryggja það að konum geti ekki verið þröngvað beint eða óbeint í fóstureyðingu. Ef við skoðum samfélag okkar gaumlega þá sjáum við að fóstureyðing er oft „easy way out“ en ætti ekki að þurfa. Því miður er oft sagt við ung pör að það sé best að bíða með barneignir þangað til eftir nám, eða eftir að starfsframi hefur komist á ról, sama viðhorf er uppi á teningnum í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á skoðanamyndun ungra tilvonandi mæðra þegar þær meta hvort fóstureyðing komi til greina eða ekki.

Í nýlegum pistli sem við vísuðum í um daginn, fjallað ung kona um það hvernig henni var í raun ýtt út í fóstureyðingu af barnsföðurnum. Hún leggur áherslu á að val um fóstureyðingu sé ávallt konunnar sjálfrar án utanaðkomandi áhrifa. En manni er spurn, getur kona valið fóstureyðingu án utanaðkomandi áhrifavalda? Er sanngjarnt að setja konu í þá stöðu að þurf að velja milli þess að eignast barn og búa við félagslegar viðunandi aðstæður? Eins og segir í gamalli auglýsingu er ekki bæði betra? Á kona á 21. öldinni ennþá að vera í þeirri stöðu að þurfa að velja?

Því miður er tilvist hinna afar opnu fóstureyðingamöguleika kvenna til þess fallin að minnka þrýsting á stjórnvöld og samfélag að mæta þörfum þeirra 936 barna og fjölskyldna þeirra sem var eytt í fyrra. Því miður er ekki nægilegur vilji til staðar til að beita þessu í jafnréttis umræðunni, því fóstureyðingar hafa verið brennimerkt sem jákvæður valkostur kvenna frá sjónarhóli kvenréttinda, en raunveruleg áhrif fóstureyðinga, félagslegar, andlega og líkamlega bæta stöðu kvenna ekkert.

Nauðsynlegt er að konum sé boðið upp á valkosti, eins og ættleiðingar, stuðning á meðgöngu og eftir fæðingu og umhverfi sem gerir konum auðvelt að eignast barn hvenær sem er á lífsleiðinni. Skóli eða starfsframi á ekki að koma í veg fyrir að kona geti átt eðlilegt líf sem móðir. Fátækt á ekki að vera ástæða fyrir fóstureyðingum. Aðstæður á heimilinu eiga ekki heldur að vera ástæða fyrir fóstureyðingu. Allt hljóta þetta að vera viðráðanlegar aðstæður ef reynt er til þaula að mæta þörfum hverju sinni. Það er því gleðilegt að sjá samtök eins og Valkostir – Samtök um úrræði við ótímabærum þungunum, tefla fram úrræðum fyrir konum á barneignaraldri. Vonum við að samtökin haldi áfram að stækka og að tilvist þeirra veki máls stjórnvalda á bættari aðbúnaði kvenna og nauðsyn þess að auka við valkostum þeirra.

Það að velja fóstureyðingu er aldrei auðvelt og oft eða nánast alltaf sitja eftir spurningar hjá konum um „Hvað hefði getað orðið?“, „Hvernig hefði barnið mitt litið út?“, „Hvernig móðir hefði ég orðið?“, „Get ég eignast barn aftur?“ og margar aðrar spurningar sem vakna.

Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru fóstureyðingar sem tengjast ekki rétti konunnar yfir eigin líkama. Fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru fóstureyðingar sem hægt er að koma í veg fyrir í flestum tilfellum.

Viljum við virkilega að konur neyðist til að velja? Viljum við búa í samfélagi þar sem 936 konur búa við þannig aðstæður að þau sjá ekki fram á að geta eignast börn?

-DS

Hversvegna ákvað kirkjan að auglýsa ætlun sína?

Það hefur farið fram hjá fæstum að í upphafi árs var tilkynnt um ætlun Þjóðkirkjunnar að standa fyrir landssöfnun til tækjakaupa fyrir Landsspítalann. Þetta hefur skapað miklar umræður og deilur í þjóðfélaginu um hlutverk kirkjunnar og fjármögnun kirkjunnar og Landsspítalans.

En manni er spurn: Af hverju ákvað kirkjan að segja frá þessari áætlun sinni?

Þessi spurning er búin að naga mig lengi og upplifun mín er sú að kirkjan hafi að einhvejru leiti gert það í „PR“ skyni, þ.e.a.s. til þess að skapa jákvæða fjölmiðlaumfjöllun um sig sjálfa, sérstaklega í ljósi ummæla biskups við Morgunblaðið:

Það er ekki komin nánari útfærsla í smáatriðum, þetta eru eiginlega ennþá hugmyndir sem er eftir að finna farveg fyrir. Ég mun eiga fund með forstjóra Landspítalans á næstu dögum, og með nokkrum fleiri, og þá skýrist þetta.

Ég veit þetta ekki fyrir víst – en ég sé ekki þörfina fyrir því að segja landi og þjóð frá þessari ætlun sinni, að halda viku landssöfnun, með slíkum fyrirvara að ætlunin er ennþá á hugmyndastigi. Sérstaklega í ljósi t.a.m. orða Jesú Krists í Matteusarguðspjalli 6. kafla versum 1-4 sem vísað er til í fyrri pistli okkar hér. En í versi eitt segir m.a.:

„Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.“

Af hverju ákvað kirkjan að segja frá þessu núna? Hefði mátt komast hjá óþarfa skotum á kirkjuna ef að beðið hefði verið með tilkynningar þangað til búið var að koma hugmyndinni a.m.k. í farveg, ef ekki lengra? Maður spyr sig…

-DS

Gleymdi biskup Jesú? Er kirkjan of stofnanavædd?

madurarsinsMargir fylgdust með Kryddsíldinni á Stöð 2, en eins og gjarnan er um áramót er gaman að fara yfir helstu mál liðins árs og þá eru fréttaannálar og stjórnmálaumræður ofarlega á baugi. Í Kryddsíldinni síðastliðinn gamlársdag var tilkynnt um val Stöðvar 2 á manni ársins. Að þessu sinni varð fyrir valinu frú Agnes M. Sigurðardóttir sem tók við biskupsembætti Þjóðkirkjunnar fyrr á þessu ári og er fyrsta konan til þess að gegna þessu embætti á Íslandi frá upphafi. Það er einmitt þetta sem varð einna helst til þess að hún varð fyrir valinu.

Það er ekkert út á val Stöðvar 2 að setja, en það hefur vakið athygli og borist til eyrna að í viðtali Stöðvar 2 við biskup hafi ef til vill skort á einhverju sem a.m.k. einhverjir kirkjumeðlimir vonuðust til að heyra um - það vakti nefnilega athygli að biskup minntist ekki einu orði á hver meginboðkapur kirkjunnar sé né á Jesú Krist, en kirkjan hefur nýlokið við að minnast fæðingar hans sérstaklega. Ef til vill er þetta pínuósanngjarnt að ætlast til þess að biskup vekji máls á frelsarann sjálfan, verk Hans og boðskap í viðtali sem snérist um persónulegan frama hennar og jafnréttisárangur kirkjunnar í heild. Jafnframt hlýtur að vera ósanngjarnt að krefjast þess að biskup Íslands minnist á Jesú í hvert skipti sem biskupinn fær tækifæri til þess að tjá sig opinberlega í fjölmiðlum. 

En af hverju stingur þessi skortur, í tæplega átta mínútna viðtali við andlit kirkjunnar útá við, suma? Kannski má rekja það til þeirrar umræðu sem kemur oftar og oftar upp í samfélaginu að Þjóðkirkjan sé of stofnanavædd og hafi misst sjónar á boðskap Jesú krists. Spjátrungar hafa ítrekað talað um grænsápuguðfræði og grænsápuþvott kirkjunnar. Kannski upplifa sumir áheyrendur að biskup skammist sín fyrir boðskapinn um Jesú krist og mikilvægi fórnardauða hans, eða kannski þykir það slæm taktík hjá kirkjunni að fjalla um Jesú sem lifandi einstakling opinberlega í viðtali. Ætli það sé ekki betra að viðtöl sem þessi snúist um mannfólkið að upphefja annað mannfólk sem nær tilteknum frama. Hugsanlega áttu sumir von á því að biskup myndi af einskærri hógværð nefna það að það væri ekki hún sem væri maður ársins í krafti þess að vera fyrsti kvennmaðurinn til að gegna þessu embætti, heldur væri það Jesú kristur, sjálfur frelsarinn, sem væri maður ársins. Enda hefði hún aldrei orðið maður ársins nema fyrir Hann og fyrir þá staðreynd að hún væri að gegna tiltekinni þjónustu fyrir Hann…eða hvað?.

Viðtalið má hlusta á hérna og frétt kirkjunnar um efnið má finna hérna.

-DS