Greinasafn fyrir merki: Siðfræði

Er ósiðlegt að fæða börn með sjúkdóma?

Richard Dawkins, þróunarlíffræðingurinn sem hefur gert garðinn frægan sem trúleysingi er afar umdeildur. Ummæli hans um siðferðislegt réttmæti fóstureyðinga þeirra er greinst hafa með Down heilkenni í vikunni sem leið hafa valdið miklu fjaðrafoki. Ummælin birtust á twitter þar sem Richard Dawkins svaraði konu sem sagðist ekki myndi vita hvað hún ætti að gera ef hún gengi með barn sem greindist með Down heilkenni. Svar Dawkins kom vafalítið mörgum á óvart, þó kannski ekki öllum. Ummælin sem gerðu allt vitlaust voru eftirfarandi:

RicharDawkins ummæli

[Lausleg þýðing: Farðu í fóstureyðingu og reyndu aftur. Það væri ósiðlegt/siðferðislega rangt að koma því [barni með Downs] í heiminn ef þú [móðirin] hefur val.]

Eðlilega spunnust miklar umræður um þetta á Twitter og víðar annarsstaðar, en fjölmiðlar bæði hérlendis og erlendis sögðu frá þessum ummælum og öðrum viðbrögðum. Við ákváðum að fjalla ekki strax um þetta í ljósi þess að Dawkins kynni að vilja útskýra ummælin frekar, enda getur oft verið erfitt að tjá hug sinn skýrt með 160 stafi til umráða, þó að ofangreint hafi haf nokkuð skýran boðskap.

Í fyrradag birti svo Dawkins á síðu sinni „afsökunarbeiðni“. Af lestri afsökunarbeiðninnar er þó lítið um afsökun að ræða, aðallega er hann að biðjast afsökunar á netrifrildinu sem fór af stað í kjölfar ummæla hans en fyrst og fremst er hann að útskýra hvað hinir ýmsu hópar kynnu að hafa misskilið í orðum hans. Honum virðist þó finnst það leiðinlegt ef hin tilfinningalausa nálgun hans á umræðuefnið fór fyrir brjóstið á einhverjum. Á síðunni fer hann þó dýpra í afstöðu sína og segir m.a.:

 „Given a free choice of having an early abortion or deliberately bringing a Down child into the world, I think the moral and sensible choice would be to abort.“  [Lausleg þýðing: Ef valið er frjálst um að eyða fóstrinu snemma eða vísvitandi fæða barn með Downs heilkenni í heiminn, tel ég siðferðislegt og skynsamlegt val vera að eyða fóstrinu]

Hann gengur lengra og segir:  

„I personally would go further and say that, if your morality is based, as mine is, on a desire to increase the sum of happiness and reduce suffering, the decision to deliberately give birth to a Down baby, when you have the choice to abort it early in the pregnancy, might actually be immoral from the point of view of the child’s own welfare.“ [Lausleg þýðing: Ég persónulega gengi lengra og segi að sé siðferði þitt byggt á, eins og mitt er, löngun til þess að auka samanlagða hamingju og minnka þjáningu, sé ákvörðun að eiga Downs barn, þegar þú hefur möguleika á því að eyða því snemma á meðgöngunni, mögulega siðferðislega röng/ósiðleg ákvörðun frá sjónarhóli velferðar barnsins.]

Ummæli hans í heild sinni, þegar þau eru skoðuð í samhengi eru ótrúleg og siðferðisleg afstaða hans afar vafasöm. Forsendurnar sem hann gefur sér um lífsánægju og hamingju fjölskyldna sem eiga Downs barn og/eða Downs barnið sjálft eru allt að því móðgandi fyrir marga. Vissulega er mikil vinna fólgin í því að eiga barn sem kljáist við líkamlega og/eða andlegar áskoranir í lífinu t.a.m. fatlanir á þeim sviðum, en að gefa sér það fyrirfram að samanlögð hamingja slíkra einstaklinga og fjölskyldna þeirra sé minni en annarra og/eða skapi meiri þjáningu er afar þröngsýn afstaða til lífsins, tilgangs þess og hamingjuna sem lífið getur veitt.

220pxRichard_DawkinsÞá er afstaða hans til þess fallin að ganga jafnvel lengra en flestir sem eru svokallaðir „pro-choice“ það er fylgjendur valfrelsi kvenna þegar kemur að fóstureyðingum. Afstaða hans virðist hreinlega sú að ósiðlegt sé að fæða barn með tiltekna fötlun. Þessi afstaða lýsir litlu vali fyrir þær konur sem standa frammi fyrir fóstureyðingarmöguleikanum og ganga með barn með slíka fötlun, ef við gefum okkur að meðalmaðurinn reyni að forðast ákvarðanir sem séu ósiðlegar). En hvar hyggst Dawkins draga línuna, hvenær er það siðferðislega í lagi að ganga með barn fulla meðgöngu að hans mati? Er það í lagi ef að það eru minna en 50% líkur á annarskonar fötlunum, eða er Dawkins meinilla við þá einstaklinga sem haldnir eru Downs?

Hann hefði getað talað um siðferðislega réttlætanlega afstöðu að eyða fóstrum með tiltekna genagalla (þó að það sé umræða útaf fyrir sig og ekki afstaða sem ég get stutt) en hann gekk enn lengra og hreinlega talar um að ákvörðun móður að eignast barn með tiltekin erfðaþætti sé ósiðleg ef möguleikinn á fóstureyðingu er til staðar.

Ef siðferðisleg afstaða Dawkins réði ríkjum hjá löggjafanum á svipaðan hátt og siðferðisleg afstaða t.d. helstu andstæðinga fóstureyðinga í Bandaríkjunum væri löggjöfin væntanlega á þá leið að skylda konur í fóstureyðingar ef tilteknir sjúkdómar væru greindir snemma á meðgöngunni. Hvor afstaðan, að banna eða skylda konur í fóstureyðingar, ætli sé meira inngrip í líf þeirra og barnsins?

Fyrir þá sem vilja skoða frekar ummæli Dawkins og skoða þau í samhengi og hans frekari skýringar á afstöðu sinni er hægt að kíkja á ofantilvitnaða vefsíðu og hin fjölmörgu twitterskilaboð á twitter síðu hans.

D.S.