Greinasafn fyrir merki: Siðmennt

Siðmennt, Richard Dawkins og ófæddu börnin

SidmenntTrúmál.is fékk ábendingu um það í gær að Richard Dawkins, sem kom á framfæri óvæginni siðferðisafstöðu sinni í vikunni sem leið, hafi fyrir ekki svo mörgum árum komið hingað til lands í boði Siðmenntar. Þetta er sérstaklega áhugaverð staðreynd í ljósi þess fordæmis sem Siðmennt hefur sett í mótmælum gagnvart erlendum gestum (og væntanlega innlendum einnig) sem tjá sig opinberlega og koma til lands í boði trúar- og/eða lífsskoðunarfélaga.

Skemmst er að minnast viðbragða Siðmenntar og annarra við komu Franklin Graham til landsins í fyrra. Þar var komu Graham mótmælt harðlega sökum afstöðu hans til samkynhneigðar, en koma hans var ekki ætlað að fjalla um þá afstöðu og kom þeirri afstöðu svo sem ekkert við.

Ætli Siðmennt, sem jafnan hefur verið stolt af komu Dawkins á þeirra vegum, myndi bjóða Dawkins aftur til landsins í ljósi framkominnar afstöðu? Er siðferðisafstaða Siðmenntar sem lífsskoðunarfélag samrýmanleg hugmyndafræði Dawkins sem hann lýsti í síðastliðinni viku?

D.S.

Þrjár hártoganir í kjölfar predikunar biskups

Að vanda þykir ákveðnum hópi mikilvægt að gera athugasemdir við orð og verk kirkjunnar sem samrýmast ekki lífsafstöðu þeirra. Í sjálfu sér er þetta ekki slæmt og oft má heyra málefnalega og jafnvel afar mikilvæga gagnrýni á kirkjuna, enda er hún ekki hafin yfir gagnrýni. En stundum koma fram innihaldslitlar athugasemdir sem eru í raun lítið annað en hártoganir og virðast settar fram til þess eitt að gera athugasemdir við eitthvað. Flestir sem fjalla á gagnrýninn hátt um atriði í samfélaginu, sérstaklega á netinu, hafa gerst sekir um að tefla fram slíkum hártogunum og á það jafnt við um trúaða sem trúlausa einstaklinga.

Sigurður Hólm Gunnarsson gerir á vefsíðunni Skoðun þrjár athugasemdir við predikun biskups í grein með sama nafni. Þar setur hann fram athugasemdir við neðangreind ummæli biskups, en athugasemdirnar eru lítið annað en hártoganir þegar greinin er lesin. Afstaða Sigurðar til kirkjunnar hefur vafalaust haft þar áhrif á. Stundum langar greinarhöfundum svo mikið að gagnrýna eitthvað að athugasemdir sem settar eru fram eru lítið annað en leiðinda hártoganir sem afvegaleiða lesendur sem taka skilning greinarhöfundar trúanlega.

Ekki verður hér gerð nokkur tilraun til að verja eða réttlæta ummæli biskups en ég sé ástæðu til að fetta fingur, nú eða hártogast, út í grein Sigurðar.

Í fyrsta lagi sér Sigurður ástæðu til þess að gera athugasemd við eftirfarandi setningu biskups:

„Fyrir 1000 árum eða svo gerði Alþingi, þá samankomið á Þingvöllum sáttmála fyrir hönd þjóðarinnar. Þar var fest í lög „að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka….“ Það var talin forsenda friðar í landinu að við hefðum ein lög og einn sið.“

Athugasemd Sigurðar ætti ekki að beina gegn ummælum biskups, mun frekar ættu þau að beinast gegn sögu og menningu þess tíma sem um ræðir. Því miður var hugtakið trúfrelsi lítið þekkt og mannréttindi eins og við þekkjum þau í dag enn minna þekkt á þeim tíma sem biskup vísar til. Þá virðist það hafa verið pólitísk afstaða ráðandi aðila á þeim tíma að með einum lögum og einum siði kæmist á friður í landinu, en einhver ófriður virðist hafa ríkt á þessum tíma sem nauðsyn þótti að kveða niður. Sigurður kvartar yfir því að aldrei megi minnast á aðferðarfræði við „kristnun“ landsins. En það er útúrsnúningur því ummæli biskups snúa ekki að þessu.

Í öðru lagi gerir Sigurður athugasemd við eftirfarandi ummæli biskups:

„Þátttaka þingheims og gesta í guðsþjónustu fyrir þingsetningu ár hvert minnir á þennan sáttmála er Alþingi gerði fyrir hönd þjóðarinnar á Þingvöllum forðum. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar stendur að íslensk þjóðmenning verði í hávegum höfð, en sú menning er sprottin úr þeim kristna jarðvegi er festur var á Þingvöllum forðum.“

Enn og aftur snýr gagnrýni Sigurðar ekki svo mikið að ummælum biskups eins og hún snýr að ríkjandi afstöðu samfélagsins á Íslandi (og raunar meirihluta heimsins, hverrar trúar eða þjóðernis þeir voru) fyrir 1000 árum, sér í lagi hvað jafnrétti kvenna og umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum á Íslandi varðar. Athugasemdin missir því marks því hún stendur ekki í samhengi við ummæli biskups.

Að lokum gerir Sigurður athugasemd við eftirfarandi:

Kirkjan hefur það hlutverk að gæta menningarverðmæta þjóðarinnar. Hún hefur það hlutverk að þjóna öllum þeim er til hennar leita.“

Hér er það sem ég myndi kalla klassíska hártogun. Vissulega er það rétt að tiltekin þjónusta kirkjunnar er samkvæmt innri reglum hennar ekki í boði fyrir þá sem standa utan við Þjóðkirkjunnar. En hvað felst raunverulega í ummælum biskups. Biskup segir að hlutverk kirkjunnar er að þjóna öllum sem til hennar leita. Þessi setning er rétt og í samræmi við boðskap Jesú. Kristin kirkja á að sýna þeim sem hún mætir kærleika og á að þjóna þeim. Hvort kirkjan standi sig í þessu hlutverki er umdeilanlegt og hverskonar þjónusta um ræðir má vafalítið hártogast um. Biskup heldur því ekki fram að kirkjan fullnægi þessu hlutverki sínu, en það breytir í engu að hlutverk kirkjunnar sannanlega er að þjóna þeim sem til hennar leita. Kristin trú setur háleit markmið sem erfitt eða jafnvel ómögulegt er að ná á einni ævi, en markmiðin og hlutverkið standa engu að síður.

Að því marki sem athugasemdum Sigurðar var beint að ræðu og orðum biskups misstu þau því marks.

-DS