Greinasafn fyrir merki: Trúfrelsi

Trúmál í skólakerfinu – Harmageddon o.fl.

HarmageddonÞáttastjórnendur útvarpsþáttarins Harmageddon eru miklir áhugamenn um trú og gera trúmál reglulega að umtalsefni í útvarpsþætti sínum á útvarpsstöð sinni. Þeir fara þó ekki í felur með það að þeir séu trúlausir og hafa iðulega miklar efasemdir um það gildi sem trúaðir einstaklingar sjá í trú sinni. Um daginn, 7. mars sl. mætti Dögg Harðardóttir til þeirra í viðtal en hún er í stjórn félagsins Nemendur og Trú sem við kynntum fyrir skömmu hérna.

Viðtalið bar, eins ög mörg önnur viðtöl þeirra, keim af því að vera einhverskonar yfirheyrsla um raunverulegt gildi kristinnar trúar. Viðtalið má finna og hlusta á í heild sinni hérna.

Í kjölfar viðtalsins hafa ýmsar umræður skapast, bæði á fésbókarsíðu þáttarins hérna og þá hefur Kristinn Theodórsson, varamaður í stjórn Siðmenntar fjallað um það hérna.

Málefnið, nemendur og trú, er vel þess virði að ræða, og í raun nauðsynlegt að ræða það ítarlega og með hliðsjón af fjölmörgum sjónarhornum. Mörg álitaefni koma upp og ekki er einsýnt að sú leið sem Reykjavíkurborg hefur valið að fara í þessum efnum, með t.d. innleiðingu reglna sinna um samskipti trúfélaga og skóla, séu til þess fallin að vernda mannréttindi barna og starfsmanna borgarinnar, t.a.m. trúfrelsið.

Meðal þess sem eðlilegt er að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd, eru mörk innrætingar tiltekinnar skoðana og kynningar á tilteknum skoðunum. Í umræðunni virðist vera talsverð hræðsla þegar kemur að því að leyfa trúfélögum að tjá sig inn í skólanum og kynna sjónarmið sín, þess í stað þykir eðlilegra að „hlutlaus“ kennari gefi hlutlausa lýsingu, því þannig sé um kynningu að ræða en ekki innrætingu. Þetta viðhorf er í sumum tilvikum eðlilegt en kann jafnframt að vera varasamt (hvort sem einstaklingur er trúlaus eða ekki), því kennarinn mun iðulega hafa einhverja persónulega skoðun og getur alltaf haft áhrif á kynningu sína, sem kann þá að vera minna hlutlausari. Þegar hinsvegar einstaklingar sem opinskátt eru ákveðinnar skoðunar, tjá sig um hana, að þá er hættan á „innrætingu“ töluvert lægri, enda engin feluleikur, meðvitaður eða ómeðvitaður, í gangi.

Önnur sjónarmið sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér er réttur foreldra til að ráða menntun barns síns, réttur barnsins, hlutverk ríkisvaldsins, gildi hlutleysis í trúmálum, sköpun fordóma innan skólakerfisins og svona mætti lengi telja. Jafnframt verður að hafa í huga að skólinn hlýtur að hafa það hlutverk að undirbúa börnin undir framtíðina og heiminn.

Því miður er það hinsvegar þannig, og þátturinn sem ég vísaði til að ofan, að umræða um þessi mál dettur í sama farveg og endranær – leiðindaröfl um öfgar og ætlaðar ætlanir þeirra sem eru á öndverðu meiði. Margir grípa, eins og svo oft, stöðuna í Bandaríkjunum og eru ekki lengi að bera framtíðina saman við stöðu trúmála í Bandaríkjunum. Öfgar sem þar er að finna rata hratt og örugglega í umræðuna um hvernig málum er háttað, eða ætti að vera háttað hér á landi. Sá samanburður er þó iðulega til þess fallinn að afvegaleiða umræðuna.

Umræðunni er að sjálfsögðu fagnað, en á sama tíma væri gaman að sjá hana markvissari og fjalla um fleiri atriði en hin týpísku hártogunaratriði sem umræðan vill oft detta í á opinberum vettvangi. Því miður.

Hver veit nema tími gefist til þess að kafa dýpra í þessa umræðu á síðum Trúmál.is í nálægri framtíð.

D.S.

Harmageddon og Þorgerður Katrín um trúfrelsi

Þeir Frosti og Máni í útvarpsþættinum Harmageddon fengu Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, alþingismann og fyrrum mennamálaráðherra í heimsókn til sín. Var m.a. rætt talsvert um trúmál, sérstaklega í ljósi frumvarps um trúar- og lífsskoðunarfélög sem nýlega var samþykkt sem lög á Alþingi. Viðtalið er áhugavert og fá trúmálin umfjöllun strax í upphafi þess en á seinni stigum snýst umræðan talsvert meira um önnur málefni. Viðtalið má sjá með því að smella hérna

Nemendur og trú

Það er margt sem er að gerast í trúmálum á Íslandi í dag. Á meðal þess sem hefur borið á upp á síðkastið er framtaksemi samtaka sem kalla sig „Nemendur og trú“. Félagið var stofnað fljótlega í kjölfar þess að Reykjavíkurborg setti umdeildar reglur um samskipti við trúfélög. Nemendur og trú hefur þann tilgang að verja og standa vörð um trúfrelsi nemenda og hefur nánar skilgreind markmið  sem snúa að þessum tilgangi. Hægt er að fá nánari upplýsingar um félagið á vefsíðu þess http://www.nemendurogtru.is.

Í Morgunblaðinu í gær birtist frétt um að félagið Nemendur og trú hefði upp á síðkastið skilað inn umsögn og athugasemdum til nefnda Reykjavíkurborgar vegna reglna um samskipti skóla við trúfélög og jafnframt sent bréf til Innanríkisráðuneytisins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna sömu reglna. Aðalefni fréttarinnar snéri þó að því að félagið hyggst senda Umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna reglnanna. (Fréttina má m.a. lesa hérna)

Samtökin eru frábært framtak og ber að fagna. Það er mikilvægt að foreldrar nemenda sem er umhugað um trúfrelsi innan veggja skólans hafi vettvang til að safnast saman og ræða um málefnið. Jafnframt er starfsemi félagsins afar opin sbr. upplýsingaflæðið á vefsíðu þess, en þar má m.a. finna þau bréf sem hafa verið send stjórnvöldum. Mikill metnaður virðist ríkja innan félagsins og baráttu andinn vegna málefnisins skín í gegn.

Trúmál.is hefur ekki haft tækifæri til að kynna sér ítarlega öll lagaleg sjónarmið sem tengjast reglum Reykjavíkurborgar er varða samskipti skóla og trúfélaga en eftir stuttlega yfirferð eru vissulega ýmis mannréttindasjónarmið sem hægt er að fjalla um í tengslum við trúfrelsi almennt og þær stefnur sem virðast vera teknar í þeim efnum á vettvangi borgarinnar. Hvort það sé strategísk rétt ákvörðun að fara með málið í kvörtunarfarveg hjá Umboðsmanni Alþingis er hinsvegar umdeilanlegt og óljóst hvort slíkt sé gagnlegt eða tækt til meðferðar hjá umboðsmanni.

Eins og málið stendur í dag er það fyrst og fremst pólitískt en hefur, vegna eðlis þess, verið sett í búning mannréttindaumræðunnar. Slík umræða hefur verið einfölduð til muna í opinberri umræðu. Hugsanlega er jafnvel vænlegra til árangurs að opinber umræða verði komið á réttan kjöl þar sem staðreyndir um inntak trúfrelsishugtaksins og réttinda þeim tengdum ásamt hugmyndafræði um fjölmenningarleg samfélög og virðingu fyrir trú nemenda og hlutverki ríkisvaldsins í þeim efnum verður tekið fyrir. Hver veit nema Nemendur og Trú verði leiðandi í þeim efnum.

-DS

Umræða um trúmál á villigötum?

2013Nú þegar örfáar klukkustundir eru eftir af árinu 2012 er vert að velta fyrir sér þeim atburðum sem hafa gerst á árinu. Margir þeirra snúa að trúmálum og í mörgu hefur kristin kirkja staðið sig feiknar vel, en árið hefur einnig einkennst af mikilli umræðu um trúfélög og trúfrelsi, sér í lagi hér á Íslandi og þá sérstaklega í tengslum við breytingar á stjórnarskránni og reglur Reykjavíkurborgar um samskipti leikskóla og skóla við trúfélög, afsögn og kjör nýs Biskups Þjóðkirkjunnar og breytingartillögur á lögum um trúfélög svo fátt eitt sé nefnt.

Umræðan er vissulega þörf, en oftar en ekki er hún ómarkviss, illa ígrunduð og tilfinningar einstaklinga ráða miklu. Skiptir hér engum toga hvort um trúaða einstaklinga er að ræða eða trúlausa einstaklinga, né hverrar trúar og/eða lífsskoðunar þátttakendur í umræðunni hafa. Trúmál eru vissulega oft mikið tilfinningamál og þegar kemur að jafnræði, trúfrelsi og sanngirni snertir umræðan jafnvel viðkvæma og afar persónulega hluta lífs okkar. En ef á að nást sátt og einhverskonar sanngjörn niðurstaða í þessum málum, þá sér í lagi er varða trúfrelsi og afskipti/afskiptaleysi hins opinbera af trúmálum þarf að eiga Halda áfram að lesa

Úrskráning úr þjóðkirkju fyrir geisladisk?

Á útvarpsstöðinni X977 er útvarpsþáttur sem heitir Harmageddon. Um þessar mundir standa þáttastjórnendur þess þáttar fyrir svokölluðum Þjóðkirkjuleik þar sem þeir auglýsa ýmsa „vinninga“ fyrir nokkra heppna þátttakendur í leik sínum sem gengur út á það að skrá sig úr þjóðkirkjunni og senda inn staðfestingu þess efnis á þáttastjórnenduna.

Vinningar virðast m.a. vera pizzaveisla, geisladiskar, bíómiða, tölvuleiki og meira að segja iPhone. Svo segja þeir: „Hver er ekki tilbúinn að selja sál sína fyrir úrval af glæsilegum vinningum.

Þeir sem eitthvað þekkja til útvarpsþáttarins og/eða þáttastjórnenda hans vita að þeir hafa í gegnum tíðina verið óvilhallir kristinni trú og kirkju og beinlínis andstæðingar hennar, sér í lagi þjóðkirkjunnar. Þetta uppátæki þeirra kemur því vart á óvart. Líklegt er að það hafi sprottið út frá nýlegum ráðgefandi kosningum um hugmyndir stjórnlagaráðs og niðurstöðum þeirrar kosningakönnunar um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá. Eitthvað hefur niðurstaða þeirrar könnunar farið fyrir brjóstið á þessum mönnum þannig að þeir vilji sýna fram á að Íslendingar séu ekki kristin þjóð.

Það er merkilegt hve mikil áhersla er lögð á hina opinberu skráningu einstaklinga í trúfélög til sönnunar og/eða afsönnunar á stöðu trúmála á Íslandi og svo virðist sem þetta sé baráttumál ýmissa að opinber skráning í trúfélög séu með ákveðnum hætti. Sú skráning snýst þó fyrst og fremst um ákveðin tekjustofn trúfélaga sem byggir á innheimtu ríkis á sóknargjöldum. En virðist þó vera afar sterk táknmynd, að margra mati, um stöðu trúfélaga, sér í lagi stöðu Þjóðkirkjunnar á Íslandi. Þannig eru margir sem rýna í tölur Hagstofunnar árlega um breytingar á skráningum trúfélaga.

En maður spyr sig, hverjir velja það að skrá sig úr þjóðkirkju (eða í þjóðkirkjuna eða úr/í annað trúfélag) til þess að eiga möguleika á að vinna verðlaun. Er það ekki afskaplega afstöðulítill gerningur? Væri ekki nær að fólk tæki ákvörðun um slíka skráningu út frá afstöðu sinni til trúfélagsins sem skráningin tekur til? Ég vona allaveganna að þeir sem taki þátt geri það í grunninn af annarri ástæðu en að reyna að vinna vinninga í útvarpsleik, því að öðru leiti virðist slík ákvörðun vera á frekar lágu plani.

Vafalítið eru Harmageddon menn að reyna að gera lítið úr trúfélagaskráningu með þessu uppátæki sínu, en væri ekki nær að kalla eftir sterkari afstöðu fólks til málefnisins heldur en þess að vinna bíómiða í útvarpsleik?

Hvað finnst þér um svona?